Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Hlýtur inngöngu í Bandarísku hjúkrunarakademíuna

RSSfréttir
4. nóvember 2015


Erla Kolbrún Svavarsdóttir, prófessor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, hefur hlotið inngöngu í Bandarísku hjúkrunarakademíuna (American Academy of Nursing). Aðild að samtökunum hljóta þeir sem hafa skarað fram úr í starfi við hjúkrun en samtökin eru meðal þeirra virtustu á sviði hjúkrunarfræði í heiminum. Inngöngunni fylgir nafnbótin „Fellow of the American Academy of Nursing“ (FAAN).

Síðastliðin tuttugu ár hefur Erla Kolbrún haft forystu um rannsóknir á ofbeldi í nánum samböndum, heilsutengdum lífsgæðum, vellíðan, aðlögun og ánægju með heilbrigðisþjónustu meðal íslenskra og bandarískra fjölskyldna. Áhrif rannsókna Erlu Kolbrúnar og samstarfsfélaga hennar í bandaríkjunum hafa m.a. leitt til þróunar á alþjóðlegu líkani um „samfellu í skólaheilsugæslu“ fyrir skólabörn með astma og fjölskyldna þeirra.

Rannsóknir Erlu Kolbrúnar hafa einkum beinst að þróun meðferða fyrir fjölskyldur sem eru að fást við heilsufarsvanda af ýmsum toga. Hún tók meðal annars þátt í rannsóknum á innleiðingu á fjölskylduhjúkrun á Landspítala-Háskólasjúkrahúsi á árunum 2007-2011 ásamt samstarfsfólki sínu þar. Verkefnið leiddi til þróunar á styrkleikamiðuðu meðferðarsamræðu líkani fyrir fjölskyldur (Family Strength Oriented Therapeutic Conversation Model—FAM SOTC Model) þar sem megin áhersla er lögð á stuðning við fjölskyldur, styrkleika, meðferðarspurningar, viðhorf til sjúkdóma, samskipti og gagnreynda þekkingu. Auk þess leiddi verkefni til þróunar á fjölmörgum meðferðarrannsóknum fyrir fjölskyldur bæði á legu og göngudeildum Landspítala. Erla Kolbrún hefur einnig skoðað viðhorf til fjölskylduhjúkrunar og starfshætti í fjölskylduhjúkrun meðal íslenskra og bandarískra hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra en sú rannsóknarvinna hefur skilað sér í aukinni vitund meðal hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og vísindamanna um mikilvægi þátttöku fjölskyldna í heilbrigðisþjónustu.

Erla Kolbrún hefur leiðbeint fjölmörgum nemendum í meistara og doktorsnámi við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og hafa verkefni hennar leitt til þróunar þriggja nýrra mælitækja varðandi stuðning við fjölskyldur, viðhorf til sjúkdóma og fjölskylduvirkni.

Í Bandarísku hjúkrunarakademíunni eru um 2200 meðlimir og þeirra á meðal flestir fremstu leiðtogar heims í hjúkrunarfræðum, hvort sem er á sviði menntunar, starfa, stjórnunar eða rannsókna. Samtökin voru stofnuð árið 1973 en markmið þeirra er að þjóna almenningi og hjúkrunarstéttinni með því að móta, samþætta og breiða út þekkingu í hjúkrunarfræði og hafa þannig áhrif á stefnumótun í heilbrigðismálum. Aðildinni fylgir ekki einungis mikill heiður heldur einnig skylda að láta til sín taka og starfa í þágu samtakanna.

Erla Kolbrún lauk prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1987. Hún lauk meistaraprófi í fjölskyldu- og barnahjúkrun árið 1993 frá Háskólanum í Wisconsin-Madison í Bandaríkjunum og doktorsprófi í hjúkrunarfræði frá sama skóla árið 1997. Í doktorsverkefni sínu kannaði Erla Kolbrún meðal annars aðlögun fjölskyldna ungbarna og barna með astma. Erla Kolbrún hefur setið í mörgum innlendum og alþjóðlegum nefndum og ráðum um fjölskylduhjúkrun, setið í ritstjórn fjögurra alþjóðlegra vísindatímarita og setið í nefndum og stjórn alþjóðlegu fjölskylduhjúkrunarsamtakanna International Family Nursing Association (IFNA). Erla Kolbrún er forstöðumaður fræðasviðs fjölskylduhjúkrunar við Landspítala-Háskólasjúkrahús og Háskóla Íslands og gegnir stöðu prófessors við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Erla Kolbrún var valinn heiðursvísindamaður á Landspítala árið 2014.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála