Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þýsk unglingabók um hjúkrunarfræðing í Bólivíu var kveikjan að framtíðarstarfinu

RSSfréttir
23. ágúst 2019

Helga Bragadóttir fékk hugmyndina að því að fara í hjúkrun eftir lestur á þýskri unglingabók í Þýskalandi jólin 1977 þar sem hún dvaldi sem skiptinemi 17 ára gömul. Hún starfar nú sem prófessor í fullu starfi við Háskóla Íslands, ásamt því sem hún veitir fræðasviði hjúkrunarstjórnunar forstöðu í háskólanum og á Landspítala.

Sagan af bólivíska hjúkrunarfræðingnum heillaði

Umrædd bók fjallaði um hjúkrunarfræðing sem fór til Bólivíu og vann við afar frumstæðar aðstæður í fjöllunum þar að sögn Helgu. „Þetta var pólitískt gagnrýnin lýsing á aðstæðum fólks og hvernig hjúkrunarfræðingurinn vann og beitti sér fyrir að kenna íbúum og efla þá til bættrar heilsu. Einhverra hluta vegna heillaðist ég af þessu og hugmyndin um að hjúkrun væri eitthvað sem mig langaði að gera lét mig ekki í friði næstu árin.“ Að loknu stúdentsprófi sótti hún um inngöngu í hjúkrunarfræði og kennaranám og komst inn í hvort tveggja, en hjúkrunin varð ofan á. Hún útskrifaðist með BSc próf í hjúkrunarfærði frá HÍ 1986 og fór að því loknu í framhaldsnám við University of Iowa í Bandaríkjunum. Þaðan útskrifaðist hún með meistarapróf í barnahjúkrun og hjúkrunarstjórnun 1997, og lauk doktorsprófi í hjúkrunarstjórnun 2004 við sama skóla.

Hugurinn stefndi í barnahjúkrun

Frá því að Helga útskrifaðist úr hjúkrunarfræði hefur hún unnið við klíník, stjórnun, kennslu og rannsóknir. „Fyrst eftir að ég útskrifaðist úr HÍ 1986 fór ég að vinna á hjartadeild Borgarspítalans þar sem mig langaði að fá reynslu í bráðahjúkrun fullorðinna. Hugur minn stefndi þó alltaf í barnahjúkrun og eftir ár á hjartadeildinni flutti ég mig yfir á barnadeildir Landspítala. Þar starfaði ég í klíník og fór fljótlega að taka að mér nemendur sem leiddi mig til samstarfs við Guðrúnu Kristjánsdóttur, núverandi prófessor í barnahjúkrun. Guðrún hvatti mig mjög til frekara náms og veturinn 1992-1993, þegar ég leysti hana af við kennslu, komst ég í heimsókn til University of Iowa í Bandaríkjunum sem átti eftir að hafa afdrifarík áhrif á starfsþróun mína,“ rifjar Helga upp. Hún hélt þó ekki strax út í frekara nám, heldur flutti hún norður árið 1993 þar sem hún bjó í tvö ár. Þar vann hún sem hjúkrunardeildarstjóri á barnadeild Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, auk þess að kenna barnahjúkrun við Háskólann á Akureyri.

Sérhæfði sig í nýtingu tækninnar í heilbrigðisþjónustu

Hún sótti síðan um meistaranám við University of Iowa og hélt þangað ásamt þáverandi manni sínum og tveimur ungum dætrum síðsumars 1995. „Mér gekk vel í meistaranáminu og naut þess mjög og tók því ákvörðun um að láta ekki þar við sitja, heldur hélt áfram í doktorsnám. Það hafði hins vegar ekki verið ætlunin þegar haldið var út 1995, þannig að þegar ég hafði lokið öllum námskeiðum og fengið rannsóknaráætlun mína fyrir doktorsverkefni samþykkta, fluttum við aftur heim en þá höfðum við búið í 5 ár úti í Iowa,“ segir Helga, en meðfram náminu starfaði hún við kennslu og rannsóknir. Þegar heim var komið fór hún í fullt starf sem stjórnandi á þá nýstofnuðu háskólasjúkrahúsi, Landspítala, en söðlaði svo um 2005 og fékk þá stöðu við Háskóla Íslands samhliða hlutastöðu á Landspítala. Í doktorsnáminu sérhæfði hún sig í nýtingu tækninnar í heilbrigðisþjónustu og fólst rannsóknin í að prófa tölvutengdan stuðningshóp fyrir foreldra barna sem höfðu greinst með krabbamein.


„Það að greina hjúkrunarþarfir sjúklings, leggja upp hjúkrunaráætlun með honum fyrir hann, framfylgja henni og sjá árangur, það finnst mér alveg frábært.“

„Ég heillast af flóknum og ögrandi viðfangsefnum og þess vegna held ég að hjúkrun heilli mig,“ segir Helga og bætir við: „Svo eru það líka þessi litlu atriði í lífinu sem eru þó aðalatriðin og geta gert gæfumuninn í því hvort fólki vegni vel eða ekki, sem eru grunnþarfir okkar og hjúkrun snýst um. Eins og bara það að nærast, útskilja, hvíla sig og hreyfa – þetta hljómar sem lítið mál þar til þú getur ekki sinnt þessu án vandræða.“ Það skemmtilegasta við starfið að mati Helgu er hvað það í raun tekur á og snertir alla þætti lífsins, og því er hjúkrun afar víðfeðmt svið og fjölbreytt segir hún. „Það að greina hjúkrunarþarfir sjúklings, leggja upp hjúkrunaráætlun með honum fyrir hann, framfylgja henni og sjá árangur, það finnst mér alveg frábært. Það krefst ekki eingögnu færni í mannlegum samskiptum að veita árangursríka hjúkrun heldur einnig víðtækrar þekkingar, svo sem í sjúkdómafræði, lífeðlisfræði, lyfjafræði, sálfræði og fleiru, auk auðvitað hjúkrunarfræðinnar. Svo eru það stóru verkefnin, sem eru kannski meira það sem ég er að fást við í hjúkrunarstjórnun og það er að horfa á aðeins stærri mynd, sem gengur út á að skoða, greina og bregðast við því hvernig best er að skapa aðstæður sem styðja við bestu þjónustu við sjúklinga. Það er líka svakalega spennandi að takast á við þá flóknu mynd.“ Kostir hjúkrunar að mati Helgu eru hversu fjölmörg svið er um að ræða, hve fjölbreytt verkefnin eru og hve vel hjúkrunarnám nýtist í raun á mörgum sviðum. „Fyrir mér er hægt að stunda hjúkrun í mörgum störfum og á mörgum stöðum, það er ekki eingöngu bundið við að vera í beinum samskiptum við sjúklinga.“

Mörkin milli vinnu og áhugamála á köflum óskýr

Helga hefur afar gaman að ferðast innanlands og utan, njóta náttúrunnar og ganga á fjöll. Hún er mikill bókaormur og finnst líka mikilvægt að sinna fjölskyldu og vinum, en hún er í sambúð og á tvær uppkomnar dætur og þrjá ömmustráka. „Ég hef líka svo gaman af vinnunni minni að ég held að mörkin milli vinnu og áhugamála séu á köflum óskýr – ég brenn almennt fyrir það sem ég geri, enda finnast mér verkefnin sem ég tek að mér afar mikilvæg.“


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála