Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Staða kjaraviðræðna: Hvers vegna ganga þær hægt og hvers vegna fréttist svona lítið frá viðræðum?

RSSfréttir
30. október 2019

Nú í lok október eru liðnir sjö mánuðir frá því miðlægir kjarasamningar hjúkrunarfræðinga losnuðu. Sá samningur sem snertir flesta hjúkrunarfræðinga er Gerðardómur sem úrskurðað var um árið 2015 eftir um 10 daga verkfall hjúkrunarfræðinga. Haldnir hafa verið 19 samningafundir og hefur viðræðum miðað hægt. Til grundvallar í samningaviðræðunum hefur samninganefnd Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) lagt framt kröfugerð sem byggir á skoðunum og áherslum hjúkrunarfræðinga. Megin áherslan er á hækkun launa, stytting vinnuvikunnar og bætt starfsumhverfi.

Hjúkrunarfræðingar fengu greidda eingreiðslu í lok sumars vegna tafa á samningaviðræðunum og var upphæðin sambærileg við það sem lífskjarasamningur hefði gefið hjúkrunarfræðingum á 6 mánuðum. Þráðurinn var tekinn aftur upp í ágúst og var á sama tíma í gangi vinna starfshóps um vaktavinnu. Sá hópur skilaði tillögum sínum um miðjan september og snerta þær tillögur marga þætti er við koma vaktavinnustéttum.

Í heild hefur samtalið gengið hægt milli Fíh og Samninganefndar ríkisins (SNR). Ástæðurnar eru nokkrar en erfitt er að gefa upp nákvæmar skýringar vegna trúnaðar sem ríkir um viðræðurnar. Þó er hægt að segja að veigamikil skýring er að hægt hefur gengið að ganga frá samkomulagi um vinnutíma við hefðbundar dagvinnustéttir er starfa hjá ríkinu. Samninganefnd Fíh metur núverandi stöðu svo að meira virði sé fólgið í því að bíða og fylgjast með gangi viðræðna við aðra hópa, frekar en að ganga hart á eftir niðurstöðum fyrir hjúkrunarfræðinga. Með of miklum þrýstingi er hætt við að tillögur starfshópsins um vaktavinnu og ýmsar aðrar kerfisbreytingar sem Fíh leggur áherslu á, nái ekki fram að ganga.

Vísun kjaradeilu til ríkissáttasemjara setur kjaraviðræður í annað samhengi. Samninganefnd Fíh hefur fram að þessu metið stöðuna sem svo að ekki sé ástæða til að gera það. Undanfarnar tvær vikur hafa átt sér stað óformleg samtöl milli aðila um næstu skref í samningaviðræðunum. Ekki er komin niðurstaða í þessi samtöl og því hefur næsti samningafundur ekki verið boðaður.

Kjarasamningur sem gerður er við ríkið er yfirleitt sá samningur sem leggur línuna í gerð annarra kjarasamninga sem Fíh gerir fyrir hönd hjúkrunarfræðinga. Því hefur ekki verið lögð mikil áhersla á aðra samninga en verður það gert um leið og nýr kjarasamningur hefur verið undirritaður við ríkið.

Samninganefnd Fíh hefur fullan skilning á óþreyju hjúkrunarfræðinga eftir nýjum kjarasamningi, hvort sem það er hjá ríki, Reykjavíkurborg, sveitarfélögum eða stofnunum sem tilheyra Samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu. Við viljum hins vegar biðja hjúkrunarfræðinga um að sýna stöðunni skilning og þolinmæði í einhvern tíma í viðbót. Ekki er þó verið að tala um margar vikur til viðbótar. Ef ekki fer að ganga hraðar í viðræðum munu hjúkrunarfræðingar vera upplýstir um það og eins ef ákveðið verður að vísa deilunni til Ríkissáttasemjara.

Að lokum vill samninganefndin biðja hjúkrunarfræðinga um að sýna því skilning að ekki er hægt að skýra nákvæmlega frá innihaldi samningaviðræðna meðan á þeim stendur vegna trúnaðarins sem þarf að ríkja á milli samningsaðila. Samninganefnd Fíh á í hreinskilnu og góðu samtali við SNR, enda eru lausnarmiðaðar nálganir leiðarljósið í viðræðunum. Markmið Fíh er að ganga frá samningi fyrir hjúkrunarfræðinga sem felur í sér bætt launakjör, starfsumhverfi og betri vinnutíma og að nýr kjarasamningur sé til þess fallinn að halda hjúkrunarfræðingum í starfi og laða þá aftur til starfa sem hafa leitað í önnur störf.

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála