Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Þolinmæði hjúkrunarfræðinga er þrotin

RSSfréttir
8. janúar 2020

Grípa þarf til aðgerða þar sem staðan í íslensku heilbrigðiskerfi er grafalvarleg. Hvort sem stjórnvöldum líkar það betur eða verr þarf umfangsmiklar lausnir til þess að bæta laun og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta. Byrja þarf samtalið fyrir alvöru ef ekki á illa að fara. Þolinmæði hjúkrunarfræðinga er á þrotum.

Í lok desember 2019 voru níu mánuðir liðnir frá því að Gerðardómur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) rann út og þar með miðlægur kjarasamningur félagsins við fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs. Síðasti kjarasamningur sem Fíh skrifaði undir var árið 2014 og hafa hjúkrunarfræðingar því ekki samið um kaup og kjör við íslensk stjórnvöld í meira en fimm ár.

Hægagangur í samningaviðræðum

Samningaviðræður milli Fíh og Samninganefndar ríkisins (SNR) ganga mjög hægt. Þar hafa fáar sérsniðnar lausnir komið fram sem miða að því að leysa kjaramál hjúkrunarfræðinga. Meira hefur verið um samræmdar tillögur þvert á stéttarfélög. Viðleitni SNR til þess að taka á málefnum hjúkrunarfræðinga hefur helst birst í vinnu starfshóps um vaktavinnu sem skilaði fyrstu tillögum í lok september síðastliðinn. Tilraunir til að halda þeirri vinnu áfram ganga hægt. Er það miður þar sem meginþorri hjúkrunarfræðinga vinnur vaktavinnu og hefur félagið sýnt mikið langlundargeð í viðræðunum með von um ásættanlega niðurstöðu.

Heilbrigðiskerfi á bjargbrúninni

Fáir ef nokkrir hjúkrunarfræðingar eru atvinnulausir. Vandi heilbrigðiskerfisins ætti að vera öllum ljós þegar litið er til þess fjölda hjúkrunarfræðinga sem vantar til starfa. Ekki hefur vantað umfjöllun á undanförnum misserum um þau mál. Árið 2017 gaf Fíh út skýrslu um hversu marga hjúkrunarfræðinga vantar til starfa, Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu sama ár um sama efni og var niðurstaðan samhljóða. Lausnin er að fá fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa og halda þeim í starfi sem fyrir eru með því að stórbæta launa- og starfsaðstæður þeirra. Nýlegar úttektir Embættis landlæknis á stöðunni á Bráðamóttöku Landspítala leggja til svipaðar lausnir. Þá er reglulega fjallað um vanda heilbrigðiskerfisins í fjölmiðlum, vanda Landspítala og þá helst yfirfulla Bráðamóttöku. Umfjöllun fjölmiðla undanfarna daga er engin undantekning á þessu. Frá stjórnvöldum koma yfirleitt sömu svörin, þ.e. stjórnunarvandi á Landspítala, fráflæðisvandi, eiga þarf dýpra samtal, málið er í skoðun, viðræður standa yfir, verið er að leita lausna, um langtíma verkefni er að ræða og það glíma aðrar þjóðir við skort á hjúkrunarfræðingum. Vandi heilbrigðiskerfisins er ekki einskorðaður við Landspítala heldur glíma aðrar stofnanir ríkisins einnig við þennan vanda. Þá er einnig ljóst að ekki verða opnuð fleiri hjúkrunarrými á Íslandi nema gripið verði til aðgerða til þess að fjölga hjúkrunarfræðingum þar sem þeir eru lykilstéttin þegar kemur að rekstri hjúkrunarheimila.

Eru verkfallsaðgerðir virkilega lausnin?

Ýmsar lausnir sem Fíh hefur lagt fram hafa fengið lítinn hljómgrunn. Íslensk stjórnvöld virðist eiga í erfiðleikum með að semja um kaup og kjör við heilbrigðisstéttir. Nánast undantekningarlaust þurfa þær að grípa til aðgerða eins og verkfalla til þess að knýja á um að gengið sé til samninga við þær. Eins og staðan er nú í viðræðum þá virðist stefna í svipaðar aðgerðir ef ekki verður breyting á stefnu stjórnvalda í samningaviðræðunum. Hvers vegna er ástandið með þessum hætti og hvers vegna eru Íslendingar alltaf að grípa til þessara meingölluðu aðferða sem verkfall er? Getur verið að um sé að kenna skorti á stefnu íslenskra stjórnvalda varðandi mönnunar- og launamál heilbrigðisstétta, starfsmannastefnu og umræðu og aðgerðum til að taka á kynbundnum launamun innan kerfisins?

Rétt er að minna á að íslenska ríkið er nánast eini vinnuveitandi flestra heilbrigðisstétta og eru hjúkrunarfræðingar þar fjölmennastir. Á Íslandi hefur það sjaldan átt upp á pallborðið að kvennastéttum sem sinna umönnunarstörfum séu greidd laun í samræmi við menntun og ábyrgð í starfi. Að þessu leyti hefur jafnréttisbaráttan náð litlum árangri. Markaðslögmál þar sem samspil framboðs og eftirspurnar ræður launum og launaþróun stétta virðist ekki gilda hjá hinu opinbera þegar kemur að kvennastéttum. Það er greinilegt að ekki er sama hver er.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála