Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Taktu upplýsta afstöðu

RSSfréttir
23. apríl 2020

Ágæti hjúkrunarfræðingur.

Það hefur verið ánægjulegt að sjá og finna undanfarna daga þann mikla áhuga sem félagsmenn hafa á nýundirrituðum kjarasamningi milli Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og Samninganefndar ríkisins (SNR). Það er ekki sjálfgefið og því fagna ég þessari miklu stéttarvitund sem er á meðal hjúkrunarfræðinga. Hjúkrunarfræðingar hafa beðið í ár eftir nýjum samningi við ríkið og því ekkert óeðlilegt að væntingarnar og áhuginn sé mikill enda meginþorri hjúkrunarfræðinga sem þiggja laun samkvæmt honum.

Nauðsynlegt er að kynna samninginn vel fyrir félagsmönnum en samkomubannið hefur sett okkur í erfiða stöðu þar. Því hefur samninganefnd Fíh leitast við að halda vef-fundi með félagsmönnum, sett mikið upplýsingaefni til skýringar inn á mínar síður sem eru uppfært reglulega og byggir efnið á helstu áhersluatriðum sem við finnum að hvíla hvað mest á hjúkrunarfræðingum. Við fáum einnig mikið af fyrirspurnum með tölvupóstum og svörum þeim öllum eins fljótt og auðið er.

Tvíþættur samningur

Ég finn að mörgum finnst þetta flókið og loðið og hef ég fullan skilning á því. Það er ekki bara það að erfitt er að fá kynningu á efninu við þessar óhefðbundnu aðstæður heldur hefur samningurinn aldrei litið svona út áður og er í raun tvíþættur. Annars vegar er hefðbundinn hluti kjarasamnings sem snýr einungis að hjúkrunarfræðingum, og hins vegar er hluti sem snýr að fyrirhugaðri styttingu vinnuvikunnar og unninn var í samvinnu ASÍ, BHM, BSRB, Fíh, ríkis, Reykjavíkurborg og sveitarfélög. Sá hluti er snýr að styttingu vinnuvikunnar, þ.e. fylgiskjal 1 (dagvinnufólk) og 2 (vaktavinnufólk), er mjög stór og krefst mikillar skoðunar enda viðamestu breytingar sem hafa verið gerðar á íslenskum vinnumarkaði í rúm 40 ár. Um er að ræða tilraunaverkefni út samningstímann sem nær til þúsunda félagsmanna áðurnefndra samtaka launafólks. Þær breytingar sem þar eru inni, eins og t.d. hækkun vaktaálags, vaktaálagsauki, matar- og kaffitímar, stytting vinnuviku í 36/32 klst., osfrv. er ekki hægt að eiga við frekar þar sem þetta er hluti af þeim heildarpakka. Hjúkrunarfræðingar verða því að hafa það í huga þegar þeir skoða þennan hluta. Hér gildir það sama fyrir okkur og þúsundir annarra opinberra starfsfólks sem hefur samþykkt að taka þátt í þessu verkefni. Ef þetta reynist ekki sem skyldi, er hægt að fella þessi fylgiskjöl úr gildi í lok samningsins og við höfum núverandi grunnsamning og 40 klst vinnuviku.

Misskilningur í gangi

Ég vil nota tækifærið og varpa skýrara ljósi á nokkur atriði sem við höfum fundið að hjúkrunarfræðingar staldra við þegar þeir kynna sér kjarasamninginn.

Vil ég fyrst nefna þar ákveðinn misskilning sem gætir þegar rætt er um 25% lengingu ofan á sumarfrí utan orlofstíma en kaflinn er annars í fullu samræmi við núgildandi orlofslög. Breytingin felur í sér að lengingin á sér einungis stað ef yfirmaður getur ekki veitt fullt orlof á sumarorlofstíma (6 vikur) og biður hjúkrunarfræðing að geyma orlof. Þarna koma hjúkrunarfræðingar líklega betur út en aðrir ríkisstarfsmenn og munu eiga í meira mæli áfram rétt á lengingunni þar sem erfitt reynist að veita fullt orlof á sumarleyfistíma. All flestir hjúkrunarfræðingar ná að taka 4 vikna sumarorlof en ég tel að það séu mjög fáir vinnustaðir sem geta veitt 6 vikur. Þetta á því ekki að vera áhyggjuefni hjá okkur.

Mörgum finnst textinn og umræðan í kringum bókun 5 vera loðin og óskýr. Ég vil fullvissa hjúkrunarfræðinga um að þessari bókun fylgir fjármagn sem Fíh hefur yfirráð yfir hvernig verður nýtt. Endurskoðaðir verða stofnanasamningar fyrir 1. maí 2021 og mun félagið tryggja sanngjarna nýtingu fjármuna í tengslum við það verkefni. Einhverjir hafa áhyggjur af því að bókanir halda ekki en svo er ekki. Vil ég minna þar á bókun 3 í gerðardómi um frammistöðumatið sem færðu hjúkrunarfræðingum á landinu hundruðir milljóna. Þessi bókun 5 er studd bæði af fjármála- og heilbrigðisráðuneytinu.

Einhverjir hjúkrunarfræðingar hafa misskilið það sem svo að færa eigi 50% af fjármagninu úr A-hluta Vísindasjóðs, yfir í B-hluta sjóðsins en svo er ekki. Fjármagnið verður fært yfir í Starfsmenntunarsjóðinn þar sem allir hjúkrunarfræðingar geta eftir sem áður nýtt féð til náms, námskeiða og ráðstefna.

Ef samningurinn verður felldur …

Einhverjir hafa líka velt fyrir sér hvað það þýðir ef samningurinn verður felldur og er það góð spurning. Ef hann verður felldur þá stöndum við uppi með gamla samninginn áfram þar til lausn finnst á ný. Allir þættir núverandi samnings þurrkast út, byrjað yrði upp á nýtt og ekkert af því sem nú er inni í þessum samningi er tryggt áfram. Því er svo mikilvægt að hjúkrunarfræðingar horfi á samninginn í heild sinni en ekki bara einstaka þætti hans þegar kemur að því að greiða um hann atkvæði. Einnig þarf að muna að það sem fram kemur í fylgiskjali 1 og 2 er ekki hægt að sundurgreina frekar eða breyta þar sem þetta er hluti af stærri pakka sem gerður var fyrir opinbera starfsmenn. Ég tek vissulega undir vonbrigði hjúkrunarfræðinga með að launaliðurinn skuli ekki hafa náðst hærri en staðan er bara sú að lífskjarasamningurinn er lagður til grundvallar hjá ríkinu í öllum þeirra samningum núna. Ég er því ekki viss um að núverandi staða í íslensku efnahagslífi í kjölfar kórónaveirunnar muni bæta samningstöðu hjúkrunarfræðinga á þessum tímapunkti.

Ég vil fullvissa félagsmenn um að samninganefnd Fíh hefði aldrei skrifað undir þennan samning ef hún hefði talið að lengra væri komist í þessum viðræðum. Þær tóku ár en við vorum tilbúin til að sitja eins lengi og þyrfti. Þegar á heildina er litið held ég að þetta sé ásættanlegur samningur þó ekki sé komið til móts við allar okkar kröfur.
Nú vona ég að allir hjúkrunarfræðingar sem taka laun skv. þessum kjarasamningi kynni sér ítarefnið vel og leiti annars til okkar með fyrirspurnir. Þetta er svipað og í okkar starfi, við byggjum okkar ákvörðun á gagnreyndri þekkingu og svo er nú líka.

Kynntu þér samninginn vel, taktu upplýsta ákvörðun og kjóstu!

Gleðilegt sumar

 

KYNNINGAREFNI UM NÝJAN KJARASAMNING

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála