Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Góð samvinna einkennandi fyrir tímabilið

RSSfréttir
8. maí 2020

Thelma Rut Bessadóttir, hjúkrunarnemi á 4. ári, hefur undanfarið hjúkrað covid jákvæðum einstaklingum á smitsjúkdómadeild Landspítala. Hún segir að miklar breytingar hafi orðið á starfsemi deildarinnar en skjólstæðingar hafa allir glímt við öndunarfæraeinkenni af einhverjum toga, auk þess sem huga þurfti að undirliggjandi sjúkdómum. Ástandið í samfélaginu er nýtt öllum sem hefur áhrif á andlega líðan allra. „Við vorum dugleg að hvetja skjólstæðingana til þess að „face-tima” aðstandendur. Það gerði þeim svo gott að sjá viðkunnanleg andlit, svo ég tali nú ekki um að einu andlitin sem þau sáu á deildinni voru falin á bak við hlífðarbúnað.” Thelma segir að starfsfólkið hafi stöðugt þurft að aðlagast nýjum vinnureglum og umhverfi og verklagsreglur voru stöðugt að breytast.

„Það standa allir í þessu saman”

Thelma, sem útskrifast sem hjúkrunarfræðingur í júní, segir mikla samstöðu hafa verið meðal starfsfólks og hún hafi fengið mikinn stuðning í starfi. „Ég hef alltaf haft einhvern til þess að leita til ef ég var óviss með eitthvað. Það sem mér finnst mjög jákvætt við allar þessar breytingar á deildinni er hversu mikið allir eru tilbúnir til þess að aðstoða, það standa allir í þessu saman.”

Telurðu að hjúkrun muni breytast til frambúðar? „Í raun ekki þar sem að við erum jú að sinna grunnþörfum einstaklinganna núna jafnt og áður. Það sem mér finnst að eigi mögulega eftir að breytast í kjölfar þessa faraldurs er að meiri samvinna verður eflaust milli deilda sem eykur líkur á að einstaklingurinn fái betri þjónustu. Við sem vinnum á smitsjúkdómadeild erum vön því að klæðast hlífðarbúnaði þegar við hjúkrum einstaklingum í einangrun svo þetta er í raun ekki nýtt fyrir okkur, breytingin er aðallega sú að við erum lengur í búningunum núna. En það sem gerir það erfitt að hjúkra í hlífðarfatnaðinum er það að einstaklingarnir sjá okkur ekki og erfiðara er að veita góða nærveru sem er svo gríðarlega mikilvæg sérstaklega núna á þessum nýju tímum. Við prentuðum út og plöstuðum mynd af okkur með starfsheiti sem við límdum á hlífðarfatnaðinn svo að skjólstæðingarnir gátu séð hver við erum og hvaða hlutverki við gegnum. Mér hefur fundist það hjálpa töluvert.”

„Ég tel þetta eiga eftir að eiga góðan þátt í því hvernig hjúkrunarfræðingur ég verð í framtíðinni”
Þrátt fyrir að þetta hafi verið krefjandi og erfiður tími þá hafi henni gengið vel að takast á við breyttar aðstæður enda með góðan stuðning bæði í vinnu og heima. „Ég tel þetta eiga eftir að eiga góðan þátt í því hvernig hjúkrunarfræðingur ég verð í framtíðinni,” segir hún en hún er barnshafandi að öðru barni sínu. „Ég er þakklát fyrir þann hlífðarbúnað sem við höfum á Íslandi og ég viðurkenni það að ef við hefðum ekki þennan hlífðarbúnað þá myndi ég ekki sinna þessum skjólstæðingum. En í öllu þessu ferli hef ég farið fram og aftur um það hvort ég vilji vinna í þessu umhverfi og niðurstaðan var sú að ég vildi leggja mitt af mörkum. Mér líður vel í vinnunni og ég fæ þann stuðning sem ég þarf bæði þar og frá mínum nánustu. Ég var aðallega hrædd um skoðanir annarra á því að ég væri ólétt að sinna covid jákvæðum en fann það svo fljótt að ég hafði fullan stuðning og ég met það mikils að finna þennan stuðning.” Thelma segist alltaf hlakka til að mæta í vinnuna enda er starfsandinn til fyrirmyndar á deildinni segir hún.

Þakklæti efst í huga

Thelma segir góða samvinnu hafa einkennt þetta tímabil. „Oft hef ég verið stolt af því að vera að mennta mig inn í þessa stétt en í dag er ég 100% viss um að ég valdi rétt þegar ég tók ákvörðun að skrá mig í hjúkrunarfræði. Að sjá samstarfsfélaga mína leggja allt á sig til þess að auðvelda skjólstæðingum og samstarfsfólki að komast í gegnum þetta tímabil er eitthvað sem ég mun búa yfir alla mína tíð. Ég má nú ekki gleyma að nefna samstöðu almennings og fyrirtækja í landinu.”

Efst í huga Thelmu er þakklæti. „Það er gott að finnast maður vera metinn fyrir það starf sem við sinnum og ég er þakklát öllum þeim sem lögðu sitt af mörkum í þessum faraldri, hvort sem það var í heilbrigðisgeiranum eða annarri framlínu og þeim sem styrktu okkur framlínufólkið og gerðu þetta dálítið auðveldara fyrir vikið. Og ég er þakklát starfsfólkinu fyrir að aðstoða mig sem nema á þessum tíma og gefa mér tækifæri á að öðlast nýja þekkingu og færni í hjúkrunarstarfinu.”

Fleiri reynslusögur hjúkrunarfræðinga á tímum covid-19 bíða birtinga.

FLEIRI REYNSLUSÖGUR


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála