Hjukrun.is-print-version

Hjúkrunarfræðingar samþykkja verkfallsboðun með miklum meirihluta

RSSfréttir
5. júní 2020

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) tók ákvörðun þann 1. júní 2020 að efna til rafrænnar atkvæðagreiðslu um verkfallsboðun meðal hjúkrunarfræðinga sem starfa á kjarasamningi Fíh og fjármála- og efnahagsmálráðherra f.h. ríkissjóðs. Atkvæðagreiðslan hófst 2. júní kl. 20:00 og lauk 5. júní kl. 12:00. Fjöldi þeirra hjúkrunarfræðinga er starfa á ofangreindum samningi og þátt tóku í atkvæðagreiðslunni, var 2.143 eða 82,2%. Niðurstöður atkvæðagreiðslunnar voru eftirfarandi:

Ert þú samþykk(ur) því að Fíh boði til ótímabundins verkfalls?

Svar       Fjöldi        Hlutfall
 1.833
  85,5%
Nei   284  13,3%
Skilar auðu
  26     1,2%

 

Á grundvelli þessarar niðurstöðu tilkynnir stjórn Fíh hér með um að samþykkt hefur verið að boða til ótímabundins verkfalls félagsmanna Fíh sem starfa á kjarasamningi Fíh og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs. Það mun hefjast kl. 08:00 mánudaginn 22. júní 2020 og vara fram til þess tíma er samkomulag um kjarasamning hefur náðst milli aðila.

Verkfallið er boðað á grundvelli laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, sbr. sérstaklega 1. mgr. 14. gr. og III. kafla laganna.

Samningaviðræður hafa nú staðið yfir í rúman mánuð eftir að hjúkrunarfræðingar felldu kjarasamning í lok apríl. Mikið ber á milli aðila þegar kemur að launalið nýs kjarasamnings. Krafa hjúkrunarfræðinga er mjög skýr um að hækka þurfi grunnlaun stéttarinnar. Tæplega 15 mánuðir eru liðnir frá því að Gerðardómur Fíh rann út og þar með miðlægur kjarasamningur félagsins.

Næsti samningafundur milli aðila verður boðaður af ríkissáttasemjara.

Nánari upplýsingar veitir:
Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Fíh, í s. 824-5283


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála