Hjukrun.is-print-version

Yfirlýsing Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

RSSfréttir
2. september 2020

Gerðardómur sem skipaður var eftir samþykkt miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Fíh og fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs skilaði greinargerð og niðurstöðu í gær, þriðjudaginn 1. september.

Stjórn Fíh telur niðurstöðu gerðardóms mikil vonbrigði. Niðurstaðan tekur ekki mið af ýmsum rökum sem fram koma í greinargerð dómsins sem nýta hefði mátt til þess að bæta launasetningu hjúkrunarfræðinga og hækka umtalsvert laun þessarar mikilvægu kvennastéttar innan heilbrigðiskerfisins. Í greinargerð gerðardóms kemur meðal annars fram að vísbendingar séu um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt þegar kemur að launasetningu. Sömuleiðis að ekki sé verið að greiða hjúkrunarfræðingum laun í samræmi við ábyrgð í starfi.

Niðurstaða gerðardóms er að ríkið veiti heilbrigðisstofnunum sem hjúkrunarfræðingar starfa á fjármagn til endurskoðunar á stofnanasamningum hjúkrunarfræðinga. Útfærsla á niðurstöðu gerðadóms er nú í höndum stjórnenda heilbrigðisstofnanna í samvinnu við Fíh með útfærslu innan stofnanasamninga og er mikilvægt að sú vinna gangi fljótt og örugglega. Með þessu hefur gerðardómur ýtt verkefninu til baka í nærumhverfið á stofnunum. Rúmlega einn milljarður, sem er fjárhæð með launatengdum gjöldum, mun deilast á nærri 2.700 hjúkrunarfræðinga sem starfa hjá ríkinu. Fjárhæðin dugir ekki til þess að leiðrétta laun vanmetinnar kvennastéttar til samræmis við aðrar viðmiðunarstéttir eða tryggja að hjúkrunarfræðingar fái laun í samræmi við ábyrgð í starfi. Stór hluti af fjármagninu er auk þess þegar bundinn í að tryggja þau sértæku úrræði sem einstaka stofnanir hafa gripið til síðustu ár. Mun meira hefði þurft til og harmar stjórn Fíh að gerðardómur hafi ekki stigið það mikilvæga skref að leiðrétta laun hjúkrunarfræðinga.

Fyrir hönd stjórnar Fíh

Guðbjörg Pálsdóttir formaður

 

Hér má lesa Greinagerð og niðurstöðu gerðardóms 


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála