Hjukrun.is-print-version

Styrkir úr vísindasjóði greiddir út

RSSfréttir
8. febrúar 2021
Þann 11. febrúar verða greiddir út styrkir úr vísindasjóði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Sú breyting verður á styrkjunum nú í ár að félagsmenn fá 45% af þeirri upphæð sem greidd hefur verið inn fyrir þá af hálfu launagreiðanda, í stað 95% áður. Sú fjárhæð sem eftir stendur er færð yfir í starfsmenntunarsjóð, en líkt og áður hefur komið fram var styrkur úr starfsmenntunarsjóði hækkaður um áramót um 118%, í 240 þúsund krónur á 24 mánaða tímabili. Þá verður enn hægt að sækja um B-hluta styrki til rannsókna- og vísindastarfa, en þessi breyting hefur engin áhrif á þá styrki.

Meðalstyrkurinn í ár er tæplega 39 þúsund krónur, og fá 3.518 félagsmenn í heild 137 milljónir króna í styrki.

Breytingar þessar leiða til þess að hámarksstyrkur félagsmanna hækkar um 16% að meðaltali. Ef tekið er mið af meðalstyrk félagsmanna úr vísindasjóði þetta árið, má sjá að félagsmenn sem nýta sér styrki starfsmenntunar- og vísindasjóðs munu fá að meðaltali 318.000 kr. í styrki í sí- og endurmenntun yfir 24 mánaða tímabil, sem er þó breytilegt eftir vísindasjóðsstyrk hvers og eins.

Breytingar þessar eru meðal þeirra sem tóku gildi við samþykkt miðlunartillögu ríkissáttasemjara sumarið 2020, en þar má að auki finna ákvæði um heimild félagsmanna til allt að 10 daga réttar til sí- og endurmenntunar árlega. Það er von stjórnar Fíh að þessar breytingar muni stuðla að áframhaldandi þekkingarsköpun innan stéttarinnar.
Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála