Hjukrun.is-print-version

Gleðilega páska

RSSfréttir
31. mars 2021

Nú er fyrsta tölublað Tímarits hjúkrunarfræðinga í ár komið í dreifingu til félagsmanna en einnig má sjá það á vef félagsins: 1. tbl. Tímarits hjúkrunarfræðinga 2021. Þar kennir margra grasa og gott að geta gluggað í tímaritið um páskana. Í blaðinu er m.a. grein þar sem farið er yfir helstu niðurstöður nýrrar könnunar á starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga, aðbúnaði og líðan í starfi á tímum covid-19.

Minna álag í starfi og meiri ánægja með starfsumhverfið

Sem dæmi um niðurstöður get ég nefnt að 76% hjúkrunarfræðinga hafa þurft að bregðast við covid-19-sýkingum eða grun um þær í starfinu og hafði faraldurinn áhrif á vinnufyrirkomulag hjá um tveimur þriðju hjúkrunarfræðinga. Þetta staðfestir það sem við annars vitum, að hjúkrunarfræðingar eru án efa ein helsta framlínustéttin í heilbrigðisþjónustunni. Þeir hafa sýnt mikinn sveigjanleika og aðlagað sína vinnutilhögun eftir því sem þurft hefur í viðbrögðum við faraldrinum.

Ég vil vekja athygli á að 76% hjúkrunarfræðinga töldu álagið í starfi vera aðeins, mjög eða alltof mikið en í fyrri könnun frá 2017 mældist það marktækt meira eða 83%. Einnig var marktækur munur á könnununum þegar kom að ánægju hjúkrunarfræðinga með starfsumhverfið en rúmlega 57% voru nú fremur eða mjög ánægðir með núverandi starfsumhverfi en í fyrri könnun 42%. Þetta eru jákvæðar niðurstöður og má að mínu mati leita skýringa fyrst og fremst í bættri mönnun hjúkrunarfræðinga sem m.a. fluttust á milli starfa eða komu úr bakvarðarsveit á meðan á bylgjunum stóð. Einnig varð stóraukin samvinna þvert á fagstéttir, aukin teymisvinna, skýrari verkefnastjórnun og forgangsröðun í heilbrigðiskerfinu. Á sama tíma voru tíðir samráðsfundir og öflug upplýsingamiðlun. Jafnframt var hjúkrunarfræðingum falin ýmis ný og ábyrgðarmeiri störf með góðum árangri. Í faraldrinum skapaðist vettvangur þar sem allir tóku höndum saman í lausnamiðuðum nálgunum og nýsköpun, með það eitt að markmiði að halda þjónustu heilbrigðiskerfisins sem best gangandi.

Fleiri áhugaverðar niðurstöður má lesa um í greininni og hvet ég ykkur til þess. Félagið mun svo nýta þessar niðurstöður vel í áframhaldandi störf í baráttunni fyrir réttindum hjúkrunarfræðinga.

Öll þessi reynsla og nýsköpun sem hefur átt sér stað undanfarið ár gefur okkur hjúkrunarfræðingum að vissu leyti nýjan tón og tækifæri inn í framtíðina. Í því samhengi vil ég benda hjúkrunarfræðingum á að í ár, líkt og 2019, ætlar félagið að veita hvatningastyrki til hjúkrunarfræðinga sem eru frumkvöðlar í þróun og eflingu hjúkrunar á Íslandi. Ég vil því hvetja hjúkrunarfræðinga til að nýta þetta tækifæri og tilnefna frumkvöðla í hjúkrun

Hjúkrunarfræðingar standa saman

Að mínu mati hefur undanfarið ár sýnt hversu vel hjúkrunarfræðingar standa saman í baráttunni við afleiðingar covid-19 þrátt fyrir samtímis erfiða tíma í kjarabaráttu. Þarna hefur stéttin komið fram sem ein heild og verðum við að halda því áfram. Við förum að sjá til lands í baráttunni við veiruna og getum þá farið að hittast á ný í raunheimum undir merkjum félagsins. Fyrirhugaður er aðalfundur félagsins og vil ég hvetja ykkur til að mæta á hann miðvikudaginn 12. maí, á alþjóðadegi hjúkrunarfræðinga, kl. 19:00 á Grand hótel Reykjavík. Eins og undanfarin ár verður fundinum streymt þannig að sem flestir hjúkrunarfræðingar geta verið með. Kjörnefnd hefur auglýst eftir framboðum í ýmsar nefndir og stjórnir og rennur framboðsfresturinn út 12. apríl næstkomandi. Ég vil hvetja hjúkrunarfræðinga til að bjóða sig fram, taka þátt í störfum félagsins og hafa þannig áhrif. Þannig geta félagsmenn stuðlað að breytingum og gert félagið ennþá öflugra en nú er.

Nú er framundan lengsta frí ársins hjá landsmönnum. Um tveir þriðju stéttarinnar vinnur vaktavinnu og munu því margir hjúkrunarfræðingar standa vaktina yfir páskana og óska ég þeim sérstaklega góðra vakta. Ég vona að landsmenn haldi sig innan síns „páskaeggs“ þessa daga, fylgi sóttvarnarreglum svo við getum sem fyrst keyrt niður þessa 4. bylgju og ekki komi til frekari anna henni tengdri. Hafið það sem best yfir páskahátíðina og vonandi náið að njóta þeirra með fjölskyldu og vinum.

Gleðilega páska.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála