Hjukrun.is-print-version

Til hamingju með daginn hjúkrunarfræðingar

RSSfréttir
12. maí 2021


Alþjóðlegur dagur hjúkrunarfræðinga er 12. maí og ár hvert er deginum fagnað meðal hjúkrunarfræðinga um heim allan. Þennan dag fæddist Florence Nightingale sem lagði grunninn að hjúkrun með mikilli framsýni og frumkvæði. Hún var einnig mikil fræðimanneskja og stundaði rannsóknir sem sýndu m.a. fram á mikilvægi handþvottar og hreinlætis í umhverfi sjúklinga og við hjúkrun. Niðurstöðurnar studdi Florence með tölfræðilegum niðurstöðum sem endurspegluðu margfalt betri lífshorfur sjúklinga. Nú, rúmum 200 árum síðar, erum við enn að nýta okkur hennar óumdeilanlegu niðurstöður því eins og allir vita er handþvottur og hreinlæti einn lykilþáttur í baráttunni.

Við höfum tekist á við afleiðingar veirunnar í á annað ár en nú fer vonandi að sjá fyrir endann á þeirri baráttu. Eftir sem áður eru hjúkrunarfræðingar í lykilhlutverki þessar vikurnar, meðal annars við að bólusetja landsmenn, það dylst því engum mikilvægi stéttarinnar á tímum sem þessum.

Við höfum lært margt á þessum fordæmalausu tímum, mikið hefur verið um nýsköpun og lausnarmiðaðar nálganir í baráttunni við covid-19 og allir hafa lagst á eitt með velferð okkar skjólstæðinga að leiðarljósi.

Faraldurinn hefur oftar en ekki kallað á aukið vinnuframlag hjúkrunarfræðinga á sama tíma og við erum við að berjast fyrir auknum aðskilnaði vinnu og einkalífs. Því ber að fagna innleiðingu styttingu vinnuvikunnar sem tók gildi 1. janúar 2021 hjá dagvinnufólki og nú 1. maí hjá vaktavinnufólki. Síðustu mánaðarmót voru því sérstaklega söguleg hjá hjúkrunarfræðingum þar sem 2/3 þeirra eru í vaktavinnu. Það hefur nú loksins verið viðurkennt eftir áratuga baráttu að 100% vaktavinna jafngildi 80% viðveru hjúkrunarfræðinga með þunga vaktabyrði. Þessar breytingar eru vissulega áskorun og í raun er vegferðin rétt að hefjast. Þetta er stórt framfaraskref í kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga og því mikilvægt að hjúkrunarfræðingar nýti þetta tækifæri sem best og leggist á eitt við að tryggja sem best ávinninginn af styttingu vinnuvikunnar.

Í haust verður vonandi búið að bólusetja meginþorra þjóðarinnar og skapast þá loksins tækifæri fyrir hjúkrunarfræðinga til að koma saman og fagna við ýmis tækifæri. Við gerum okkur glaðan dag og lyftum andanum eftir annasama tíma.

Enn og aftur þakka ég hjúkrunarfræðingum fyrir óeigingjarnt og fagmannlegt starf á þessu mikla covid-ári. Þeir hafa hafa svo sannarlega hjálpað landsmönnum í baráttunni við veiruna. Takk fyrir ykkar framlag sem verður seint ofmetið. Til hamingju með daginn!Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála