Hjukrun.is-print-version

OECD á villigötum

RSSfréttir
1. september 2021

Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur nýverið birt frétt á vef sínum þar sem því er haldið fram að hér á landi sé fjöldi hjúkrunarfræðinga á hverja 1.000 íbúa með því hæsta sem gerist innan þeirra landa sem OECD tekur út. Þar kemur fram að árið 2020 hafi verið 15,7 hjúkrunarfræðingar starfandi fyrir hverja 1.000 íbúa. Ef þetta var raunin voru rúmlega 5.700 hjúkrunarfræðingar við störf á Íslandi árið 2020 sem er ekki rétt. Þeir voru um 3.400 talsins og mismunurinn því um 2.300 hjúkrunarfræðingar sem er einungis 60% af þeim fjölda sem OECD heldur fram.

Fjöldi hjúkrunarfræðinga er einungis 9,5 á hverja 1.000 íbúa

Þegar dæmið er reiknað út frá réttum forsendum kemur í ljós að fjöldi hjúkrunarfræðinga er einungis 9,5 á hverja 1.000 íbúa en ekki 15,7 og fellur þá Ísland úr þriðja efsta sætinu niður í það sautjánda en 32 þjóðir eru í samantekt OECD.
Þegar rýnt er í tölurnar og reynt að leita skýringa á þessu mikla ósamræmi, má geta sér til að hér sé slegið saman tölum um fjölda hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og jafnvel ljósmæðra en það er fortíðarvandi sem erfitt reynist að leiðrétta. Þó er vert að taka fram að skilgreining OECD á hjúkrunarfræðingi er allir starfandi hjúkrunarfræðingar sem veita sjúklingum þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Styðjist OECD við eigin skilgreiningu ætti þetta misræmi ekki að koma fram.

Í dag eru um 2.200 sjúkraliðar starfandi á landinu og því ekki ósennilegt að þeir séu inni í tölu OECD eins og oft áður. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefur margbent á að fráleitt sé að hafa þessar stéttir saman í slíkum útreikningum því þó þær vinni saman er menntun sjúkraliða, hæfni eða þekking allt önnur en hjúkrunarfræðinga og geta sjúkraliðar ekki sinnt sérhæfðum störfum hjúkrunarfræðinga. Jafnframt sinna ljósmæður sínum sérhæfðu störfum.

Kosningar framundan

Þessar tölur benda enn og aftur á að vinna þarf ötullega að því að bæta mönnun hjúkrunarfræðinga og starfsumhverfi þeirra. Í dag hættir 4-5 hver hjúkrunarfræðingur eftir fyrstu 5 árin í starfi og verður að reyna að draga úr brottfallinu. Starf hjúkrunarfræðinga er ábyrgðarmikið. Til að þeir geti tryggt öryggi sjúklinga og veitt faglega og viðunandi heilbrigðisþjónustu, verður mönnunin að vera samkvæmt viðurkenndum mönnunarviðmiðum, en þau skortir. Rannsóknir hafa margsýnt fram á að aukin mönnun hjúkrunarfræðinga bætir gæði þjónustunnar, eykur öryggi og fækkar dauðsföllum. Árið 2020 gaf heilbrigðisráðuneytið út tvær nýjar skýrslur um mikilvægi mönnunar og menntunar hjúkrunarfræðinga með leiðum til úrbóta. Það þarf samstillt átak yfirvalda með auknu fjármagni til að hrinda þessum úrbótum af stað og nú þarf að láta verkin tala. Það verður athyglisvert að sjá nú þegar stutt er í kosningar hvaða stjórnmálaflokkar það eru sem hafa kjark til þess að standa með íslensku þjóðinni og tryggja vel mannað heilbrigðiskerfi.

 

Guðbjörg Pálsdóttir formaður
Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála