Hjukrun.is-print-version

Áherslur flokkanna í málefnum hjúkrunarfræðinga

RSSfréttir
20. september 2021

Í tilefni þess að kosningar nálgast óðum sendi Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga spurningar til allra framboða varðandi þá þrjá málaflokka sem brenna hvað mest á hjúkrunarfræðingum í dag.

Framsóknarflokkurinn, Píratar, Samfylkingin, Sjálfstæðisflokkurinn, Sósíalistar, Viðreisn og Vinstri grænir svöruðu spurningunum. UPPFÆRT: Svör hafa borist frá Flokki fólksins og Miðflokki og hefur þeim verið bætt við hér neðar. Ekki hafa borist svör frá Frjálslynda lýðræðisflokknum. Eftirfarandi eru svörin sem bárust félaginu í stafrófsröð.

 

Framsókn

 

Fyrir hefur legið af hálfu stjórnvalda að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Hjúkrunarfræðingar eru stærsta heilbrigðisstéttin og eru 97% þeirra konur. Að mati gerðardóms síðastliðið haust eru vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að leiðrétta þetta?

Við viljum eins og aðrir útrýma kynbundnum launamun. Þar hefur náðst árangur á kjörtímabilinu þó að því miður sé enn munur fyrir hendi og líklega er sá munur sem eftir stendur aðallega vegna kynskipts vinnumarkaðar eins og þið bendið á. Hvað varðar hjúkrunarfræðinga sérstaklega er vísað til svars við næstu spurningu.


Nokkrar skýrslur undanfarinna ára hafa fjallað um skortinn á hjúkrunarfræðingum til starfa og settar fram tillögur til úrbóta (Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa, vinnumarkaður hjúkrunarfræðinga, Fíh 2017; Hjúkrunarfræðingar, mönnun, menntun og starfsumhverfi, Ríkisendurskoðun 2017; Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020; Mönnun hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020). Niðurstöðurnar eru alltaf þær sömu: Bæta þarf starfsumhverfi og launakjör hjúkrunarfræðinga og minnka álag í starfi. Halda þarf þeim hjúkrunarfræðingum sem þegar eru innan heilbrigðiskerfisins í starfi, draga þarf úr brottfalli hjúkrunarfræðinga úr starfi og fá þá til starfa sem þegar hafa hætt. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og snúa núverandi þróun við?

Við gerum okkur grein fyrir því að það er skortur á hjúkrunarfræðingum sem þarf að bregðast við. Okkar vilji stendur til þess, en við þurfum að móta þær lausnir með samvinnu og samstarfi. Við viljum eins og segir í inngangi fara í vinnu við að endurmeta og samþætta þjónustuna. Það getur ekki gerst nema í samstarfi við hjúkrunarfræðinga sem stærstu heilbrigðisstéttina og auðvitað fleiri. Fyrir liggja eins og þið bendið á fjölþætt gögn um þann skort á hjúkrunarfræðingum sem lengi hefur fyrir hendi og tillögur til úrbóta. Þau gögn, ábendingar gerðardóms, heilbrigðisstefna stjórnvalda, krabbameinsáætlun og fleiri munu nýtast í þeirri vinnu. Út úr því þarf að koma fjármögnuð og tímasett aðgerðaáætlun sem meðal annars þarf að taka á skorti á hjúkrunarfræðingum.

Dæmi eru um að einstakir heilbrigðisstarfsmenn hafi verið lögsóttir vegna kerfisbundinna vandamála, sem má m.a. rekja til undirmönnunar, ófullnægjandi starfsumhverfis og of mikils álags í starfi en vitað er að það eykur hættu á mistökum. Umræða hefur verið um að setja lög sem koma eigi í veg fyrir (banni) að einstaka starfsmenn verði sóttir til saka við slíkar aðstæður. Hver er afstaða þíns framboðs til þessa og hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera?

Við teljum það ljóst að það geti ekki talist sanngjarnt að einstakir heilbrigðisstarfsmenn beri einir ábyrgð á mistökum fyrir dómi, ekki síst ef sýnt er fram á að starfsaðstæður þegar þau áttu sér stað hafi verið óásættanlegar. Framsókn telur að við þurfum horfa til þess sem hefur verið gert á Norðurlöndunum en þar hefur verið sett löggjöf sem tekur til refsiábyrgðar heilbrigðisstarfsfólks þegar um alvarleg atvik eru að ræða.

 

Flokkur fólksins

Fyrir hefur legið af hálfu stjórnvalda að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Hjúkrunarfræðingar eru stærsta heilbrigðisstéttin og eru 97% þeirra konur. Að mati gerðardóms síðastliðið haust eru vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að leiðrétta þetta?

Flokkur fólksins gerir sér ljóst það ómetanlega starf sem hjúkrunarfræðingar sinna í samfélaginu. Það felur í sér mikla ábyrgð og langt nám. Hvort tveggja ætti að speglast í launum þeirra en þar vantar mikið upp á. Við munum því beita okkur fyrir hærri launum hjúkrunarfræðinga á næsta kjörtímabili og gera það sem í okkar valdi stendur til að efla þá og styrkja í störfum sínum. Við viljum að almenningur geti notið heilbrigðisþjónustu í hæsta gæðaflokki og til þess að svo megi verða þarf að manna allar stöður innan heilbrigðiskerfisins, létta álagið á starfsfólkinu og færa hjúkrunarfræðingum þá virðingu sem þeir verðskulda.

Nokkrar skýrslur undanfarinna ára hafa fjallað um skortinn á hjúkrunarfræðingum til starfa og settar fram tillögur til úrbóta (Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa, vinnumarkaður hjúkrunarfræðinga, Fíh 2017; Hjúkrunarfræðingar, mönnun, menntun og starfsumhverfi, Ríkisendurskoðun 2017; Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020; Mönnun hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020). Niðurstöðurnar eru alltaf þær sömu: Bæta þarf starfsumhverfi og launakjör hjúkrunarfræðinga og minnka álag í starfi. Halda þarf þeim hjúkrunarfræðingum sem þegar eru innan heilbrigðiskerfisins í starfi, draga þarf úr brottfalli hjúkrunarfræðinga úr starfi og fá þá til starfa sem þegar hafa hætt. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og snúa núverandi þróun við?

Eins og áður segir þá þurfa launin auðvitað að vera í takti við álagið, ábyrgðina og menntunina sem starfinu fylgir. Fjármagna þarf heilbrigðiskerfið þannig að það geti boðið upp á hvetjandi starfsumhverfi sem forsendu afbragðs þjónustu, án þess að leggja of mikið álag á starfsmennina. Svarið er þó ekki eingöngu að auka fjármagnið sem fer inn í kerfið. Endurhanna þarf vinnuferla í samræmi við bestu fáanlega þekkingu og í samráði við hjúkrunarfræðinga og aðrar heilbrigðisstéttir.

Dæmi eru um að einstakir heilbrigðisstarfsmenn hafi verið lögsóttir vegna kerfisbundinna vandamála, sem má m.a. rekja til undirmönnunar, ófullnægjandi starfsumhverfis og of mikils álags í starfi en vitað er að það eykur hættu á mistökum. Umræða hefur verið um að setja lög sem koma eigi í veg fyrir (banni) að einstaka starfsmenn verði sóttir til saka við slíkar aðstæður. Hver er afstaða þíns framboðs til þessa og hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera?

Í fyrsta lagi ber að viðurkenna að undirmönnun og óboðlegt álag býður hættunni heim. Afstaða okkar er sú að vernda beri heilbrigðisstarfsmenn fyrir því að vera sóttir til saka í öllum þeim tilvikum þar sem orsök meintra mistaka má rekja til kerfislegra misbresta.

Öðru máli gegnir auðvitað ef starfsmaður hefur gerst sekur um ásetningsbrot eða stórkostlegt gáleysi.


Miðflokkurinn

Fyrir hefur legið af hálfu stjórnvalda að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Hjúkrunarfræðingar eru stærsta heilbrigðisstéttin og eru 97% þeirra konur. Að mati gerðardóms síðastliðið haust eru vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að leiðrétta þetta?

Almennt sátt ríkir í þjóðfélaginu um að útrýma kynbundnum launamun þó hann finnist enn víða, bæði hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði. Um mikilvægi stéttar hjúkrunarfræðinga deilir engin og hún á að njóta þess í launum þó Miðflokkurinn hafi ekki stefnu um laun einstakra starfsstétta. Það má finna fyrir því góð rök að endurmeta og leiðrétta kjör hjá ýmsum starfsstéttum og hjúkrunarfræðingar eru án efa ein þeirra. Það er alvarlegt ef um er að ræða kerfisbundna skekkju eða vanmat á tilteknum störfum og fyrir því liggja efnisleg rök. Ef svo er, verður að bregðast við því sem fyrst.


Nokkrar skýrslur undanfarinna ára hafa fjallað um skortinn á hjúkrunarfræðingum til starfa og settar fram tillögur til úrbóta (Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa, vinnumarkaður hjúkrunarfræðinga, Fíh 2017; Hjúkrunarfræðingar, mönnun, menntun og starfsumhverfi, Ríkisendurskoðun 2017; Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020; Mönnun hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020). Niðurstöðurnar eru alltaf þær sömu: Bæta þarf starfsumhverfi og launakjör hjúkrunarfræðinga og minnka álag í starfi. Halda þarf þeim hjúkrunarfræðingum sem þegar eru innan heilbrigðiskerfisins í starfi, draga þarf úr brottfalli hjúkrunarfræðinga úr starfi og fá þá til starfa sem þegar hafa hætt. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og snúa núverandi þróun við?

Miðflokkurinn hefur skýra og afdráttarlausa stefnu um að bæta þurfi aðbúnað í heilbrigðiskerfinu þannig að það gagnist bæði sjúklingum og þeim sem sjá um umönnun þeirra. Bæta þarf skipulag og rekstur í heilbrigðiskerfinu meðal annars með það fyrir augum að styðja við þá sem þar starfa, draga úr óhóflegu og óeðlilegu álagi meðal annars til að tryggja öryggi sjúklinga og vellíðan. Það eru ýmis merki um að það fylgi því sérstakt álag og erfiðleikar, með hættu á kulnun í starfi, að vinna í heilbrigðiskerfinu sem meðal annars byggir mikið á vaktavinnu. Við því þarf að bregðast.


Dæmi eru um að einstakir heilbrigðisstarfsmenn hafi verið lögsóttir vegna kerfisbundinna vandamála, sem má m.a. rekja til undirmönnunar, ófullnægjandi starfsumhverfis og of mikils álags í starfi en vitað er að það eykur hættu á mistökum. Umræða hefur verið um að setja lög sem koma eigi í veg fyrir (banni) að einstaka starfsmenn verði sóttir til saka við slíkar aðstæður. Hver er afstaða þíns framboðs til þessa og hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera?

Heilbrigðisstarfsfólki ber fyrst og síðast að sinna sjúklingum sínum, gera að sárum eða sinna veikindum þeirra. Það efast engin um að heilbrigðisstéttir gera sér grein fyrir ábyrgð sinni og það er markmið Miðflokksins að styðja sem best við heilbrigðisstarfsmenn svo þeir geti sinnt þessari ábyrgð eins og hefur verið rakið hér að framan. Í öllum störfum koma upp erfið og viðkvæm mál er varða vanrækslu eða mistök í starfi og þá er mikilvægt að til sé öruggt og réttlátt ferli sem taki tillit til hagsmuna beggja aðila. Miðflokkurinn hefur enga stefnu um það hvort þurfi að ganga lengra eða skemur hvað það varðar þegar kemur að heilbrigðisstarfsmönnum. Ef reynist nauðsyn og vilji til að breyta þeirri löggjöf sem tekur til slíkra þátta mun Miðflokkurinn taka þátt í þeirri umræðu með málefnalegum hætti og almannahag að leiðarljósi.

Píratar

Fyrir hefur legið af hálfu stjórnvalda að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Hjúkrunarfræðingar eru stærsta heilbrigðisstéttin og eru 97% þeirra konur. Að mati gerðardóms síðastliðið haust eru vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að leiðrétta þetta?

Píratar hafa verið duglegir að styðja við kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga inn á þingi og á opinberum vettvangi. Við höfum nýtt aðgang okkur að fyrirspurnartímum ráðherra til þess að þrýsta á að gengið verði að kröfum hjúkrunarfræðinga og við höfum sömuleiðis skrifað greinar og haldið ræður málstað þeirra til stuðnings. Píratar hafa því verið eindregnir stuðningsmenn kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga í stjórnarandstöðu en við sjáum fyrir okkur að stórefla starfsaðstæður hjúkrunarfræðinga og bæta kjör þeirra til muna.

Píratar eru með margvíslegar jafnréttisstefnur og áætlanir um hvernig skuli uppræta kynbundinn launamun, t.d. með því að draga úr launaleynd og auka heimildir eftirlitsaðila til að rannsaka launamál stofnana og fyrirtækja. Fyrsta skrefið er þó auðvitað að horfast í augu við misréttið. Að því loknu er hægt að ráðast í kerfislægt mat á launamisrétti kynjanna milli starfsstétta hjá hinu opinberra þar sem óútskýrður launamunur er til staðar, miðað við aðrar starfsstéttir með sambærilegar menntunarkröfur, ábyrgð og vinnuaðstæður og finna leiðir til að jafna launakjör slíkra stétta gagnvart hver annarri. Til lengri tíma telja Píratar jafnframt eðlilegt að nota hvatningaraðgerðir til að jafna kynjahlutföll innan slíkra starfsstétta.

Nokkrar skýrslur undanfarinna ára hafa fjallað um skortinn á hjúkrunarfræðingum til starfa og settar fram tillögur til úrbóta (Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa, vinnumarkaður hjúkrunarfræðinga, Fíh 2017; Hjúkrunarfræðingar, mönnun, menntun og starfsumhverfi, Ríkisendurskoðun 2017; Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020; Mönnun hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020). Niðurstöðurnar eru alltaf þær sömu: Bæta þarf starfsumhverfi og launakjör hjúkrunarfræðinga og minnka álag í starfi. Halda þarf þeim hjúkrunarfræðingum sem þegar eru innan heilbrigðiskerfisins í starfi, draga þarf úr brottfalli hjúkrunarfræðinga úr starfi og fá þá til starfa sem þegar hafa hætt. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og snúa núverandi þróun við?

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að lausnin við mönnunarvanda meðal heilbrigðisstétta, ekki síst hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra, séu fjölþættar aðgerðir. Óhætt er að segja að það eigi við í tilfelli Íslands, því að “starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga” er auðvitað heilbrigðiskerfið og til þess að bæta það þarf fjölþættar aðgerðir.
Fyrsta skrefið er að meta heilbrigðisstéttir að verðleikum og sjá til þess að kjaraviðræður þeirra endi ekki reglulega fyrir gerðardómi. Ef marka má það sem fram kom á fundi velferðarnefndar Alþingis í upphafi árs 2020, þegar neyðarástand hafði myndast á bráðamóttöku LSH, hefur reynst auðveldara að manna stöður á spítalanum eftir launahækkanir. Meira þyrfti þó til svo að bæta megi starfsumhverfið sjálft, eins og að ráðast gegn fráflæðisvandanum og hreinlega tryggja að húsakostur heilbrigðiskerfisins sé ekki sjálfur heilsuspillandi. Þá þarf á tryggja að hægt sé að framkvæma samninga um styttingu vinnuvikunnar en það verður einungis gert með fullnægjandi mönnun.
Píratar stefna að fullfjármögnuðu heilbrigðiskerfi þar sem lögð er áhersla á forvarnir til að nýta peningana betur. Það er einfaldlega ódýrara að fyrirbyggja tjónið en að borga fyrir afleiðingarnar. Með betri fjármögnun og forvörnum, sem draga úr veikindum og um leið álagi á heilbrigðiskerfið, teljum við stór skref stigin í átt að betra starfsumhverfi - sem svo vonandi heillar heilbrigðismenntað fólk í öðrum starfsstéttum.

Dæmi eru um að einstakir heilbrigðisstarfsmenn hafi verið lögsóttir vegna kerfisbundinna vandamála, sem má m.a. rekja til undirmönnunar, ófullnægjandi starfsumhverfis og of mikils álags í starfi en vitað er að það eykur hættu á mistökum. Umræða hefur verið um að setja lög sem koma eigi í veg fyrir (banni) að einstaka starfsmenn verði sóttir til saka við slíkar aðstæður. Hver er afstaða þíns framboðs til þessa og hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera?

Píratar vilja að heilbrigðisstarfsfólk upplifi öryggi í vinnunni sinni og viti að verði þeim á mistök þá sé það ekki eitt látið bera ábyrgð á kerfislægum vanda hjá vinnuveitanda sínum. Við viljum ekki að heilbrigðisstarfsfólk hafi það hangandi yfir sér að geta lent í málaferlum fyrir það eitt að gera mistök í vinnunni. Á sama tíma er það mikilvægt að tryggja að sjúklingar sem verða fyrir mistökum hafi skýr úrræði að leita í vegna þeirra og samtímis að heilbrigðisstarfsfólk búi við umhverfi þar sem hægt er að læra af mistökum. Okkur þykir því rétt að koma á skýrari ferlum og sjálfstæðri stjórnsýslu í kringum heilbrigðisþjónustuna sem myndi vernda heilbrigðisstarfsfólk fyrir óréttlátum málsóknum en gefa samtímis sjúklingum skýr réttarúrræði. Loks verða almenn hegningarlög auðvitað að gilda um ásetningsbrot eða stórkostlegt gáleysi en þau tilfelli eru sem betur fer mjög fátíð.

 

Samfylkingin

Fyrir hefur legið af hálfu stjórnvalda að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Hjúkrunarfræðingar eru stærsta heilbrigðisstéttin og eru 97% þeirra konur. Að mati gerðardóms síðastliðið haust eru vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að leiðrétta þetta?

Samfylkingin vill beita sér fyrir því í samstarfi við stéttarfélög og hreyfingu launafólks að hugað verði sérstaklega að kjörum kvennastétta í næstu kjaralotu. Áratugagamalt vanmat á störfum og framlagi kvenna á vinnumarkaði er innbyggt í launamyndarkerfið, ekki síst hjá hinu opinbera þar sem konur sinna af stærstum hluta störfum í mennta- og heilbrigðiskerfinu. Meta þarf virði starfa upp á nýtt og taka tillit til fleiri þátta en nú er gert við launasetingu. Vandinn liggur þannig séð ekki í því að vinnumarkaðurinn sé kynskiptur en miklu frekar í landlægu vanmati á framlagi kvennastétta á vinnumarkaði. Samfylkingin vonar að aðilar vinnumarkaðirins sé tilbúin til þess að kryfja launamyndunarkerfið, auk möguleika til framgangs og launahækkana til mergjar.


 Nokkrar skýrslur undanfarinna ára hafa fjallað um skortinn á hjúkrunarfræðingum til starfa og settar fram tillögur til úrbóta (Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa, vinnumarkaður hjúkrunarfræðinga, Fíh 2017; Hjúkrunarfræðingar, mönnun, menntun og starfsumhverfi, Ríkisendurskoðun 2017; Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020; Mönnun hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020). Niðurstöðurnar eru alltaf þær sömu: Bæta þarf starfsumhverfi og launakjör hjúkrunarfræðinga og minnka álag í starfi. Halda þarf þeim hjúkrunarfræðingum sem þegar eru innan heilbrigðiskerfisins í starfi, draga þarf úr brottfalli hjúkrunarfræðinga úr starfi og fá þá til starfa sem þegar hafa hætt. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og snúa núverandi þróun við?

Þessar niðurstöður eru ekki úr lausu lofti gripnar, því að þarf að bæta kjörin, starfsumhverfið og draga úr álagi í starfi. Allt þrennt þarf að gerast, svo að ungt fólk vilji leggja stund á hjúkrunarfræði og starfa innan heilbrigðiskerfisins eftir að það lýkur menntun. Einnig svo að þeir hjúkrunarfræðingar sem nú eru að störfum endist í starfi en hverfi ekki til annarra starfa á vinnumarkaði.Við ætlum hvort tveggja að fjármagna heilbrigðiskerfið betur, því það hefur verið vanfjármagnað árum saman, en við verjum mun lægri fjárhæð hlutfallslega til heilbrigðismála en samanburðarríki. Þá þarf líka að skipuleggja heilbrigðiskerfið betur, fella niður veggi sem koma í veg fyrir eðlilegt samstarf milli heilbrigðisstofnana svo betur sé hægt að flytja verkefni á milli og nýta þannig betur bæði mannauð og fermetra. Það er hvort tveggja ómannúðlegt og dýrt að reka heilbrigðiskerfið eins og við höfum gert það undanfarin ár, því langir biðlistar bitna á samfélaginu öllu, sjúklingunum og aðstandendum þeirra. Langir biðlistar bitna líka á atvinnulífinu og þeir bitna að lokum illa á heilbrigðisstarfsfólki sem reynir eftir fremsta megni að hlaupa hraðar og taka fleiri vaktir til að stoppa lekann. Þetta leiðir til kulnunar þannig að vítahringur myndast.


 Dæmi eru um að einstakir heilbrigðisstarfsmenn hafi verið lögsóttir vegna kerfisbundinna vandamála, sem má m.a. rekja til undirmönnunar, ófullnægjandi starfsumhverfis og of mikils álags í starfi en vitað er að það eykur hættu á mistökum. Umræða hefur verið um að setja lög sem koma eigi í veg fyrir (banni) að einstaka starfsmenn verði sóttir til saka við slíkar aðstæður. Hver er afstaða þíns framboðs til þessa og hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera?

Mál hjúkrunarfræðingsings – sem við kjósum að nefna ekki þar sem okkur grunar að hún kæri sig ekkert um að nafn hennar sé dregið á flot í hvert sinn sem um það er rætt, var og er án fordæma en aldrei fyrr hafa spítalinn og starfsmaður hans verið ákærðir á grundvelli hegningarlaga.

Málið snerist um mistök, en hefði átt að snúast um óboðlegar starfsaðstæður sem heilbrigðisstarfsfólki er því miður boðið upp á um allt kerfið. Mistök á heilbrigðisstofnunum leiða stundum til miska- og skaðabótakrafna sem tjónþoli ber fram hjá ríkislögmanni eða eftir atvikum fyrir dómi, en í þessu tilviki var sakamálalögunum beitt, gefin út ákæra fyrir manndráp af gáleysi og hjúkrunarfræðingurinn látin hanga í þeirri snöru í heil þrjú ár! Það er óásættanlegt.

Ef sýnt er að ásetningur er hjá heilbrigðisstarfsmanni um að valda heilsutjóni, þá þarf auðvitað að vera hægt að sækja viðkomandi til saka, en í þessu tilviki reyndi ákæruvaldið ekkert að halda því fram, heldur var augljóst að um mistök var að ræða og því var niðurstaða dóms í samræmi við það. Hjúkrunarfræðingur var sýknaður.

Þannig að svarið er nei, við eigum ekki að sjá ákæru á hendur einstaka heilbrigðisstarfsfólki á slíkum grunni. Bara alls ekki.

 

Sjálfstæðisflokkur

Sjálfstæðisflokkur svaraði ekki spurningunum hverri fyrir sig heldur sendi eftirfarandi svar:

Ef litið er til fjármálaáætlunar til ársins 2025 er gert ráð fyrir að útgjöld til heilbrigðismála, velferðar- og félagsmála verði a.m.k. rúmum 63 milljörðum hærri að raunvirði en fjárlög 2020.
Um það er ekki deilt að enn er við líði kynbundinn launamunur á Íslandi, jafnt hjá hinu opinbera og á almennum vinnumarkaði. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð barist gegn þessu óréttlæti sem gengur gegn grunnstefnu flokksins og grefur undan þeim grunni laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla á öllum sviðum samfélagsins. Þeirri baráttu er ekki lokið.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð lagt áherslu á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins þannig að tryggt sé að allir fái þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda þegar þeir þurfa. Sjálfstæðisflokkurinn vill móta nýja velferðar- og heilbrigðisstefnu á breiðum grunni í opinberum rekstri og einkarekstri með framtíðarsýn sem tekur til menntunar heilbrigðisstarfsfólks, tækniþróunar, reksturs og þarfa sjúklinga.

Ein stærsta áskorun fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu er að tryggja að fólk með góða menntun sé tilbúið til að starfa innan heilbrigðiskerfisins. Við stöndum hins vegar frammi fyrir harðri alþjóðlegri samkeppni um vel menntað og hæft starfsfólk lækna, hjúkrunarfræðinga, sjúkraþjálfara, líffræðinga, lyfjafræðinga, sálfræðinga o.s.frv. Ef við verðum undir í þeirri samkeppni hefur það ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag. Kostnaður-inn verður greiddur með lakari lífsgæðum almennings. Samkeppnishæfni um starfsfólk ræðast ekki aðeins af launakjörum, heldur einnig af starfsaðstöðu og aðbúnaði, skipulagi heilbrigðiskerfisins, fjölbreytti starfstækifæra og lagalegum rétti heilbrigðisstarfsstétta.

 

Sósíalistaflokkurinn

Fyrir hefur legið af hálfu stjórnvalda að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Hjúkrunarfræðingar eru stærsta heilbrigðisstéttin og eru 97% þeirra konur. Að mati gerðardóms síðastliðið haust eru vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að leiðrétta þetta?

Sósíalistaflokkurinn hefur ekki markað sér sérstaka stefnu varðandi kjaramál hjúkrunarfræðinga frekar an annarra einstakra stétta og við vísum því í okkar stefnu í málaflokknum um heilbrigðismál að allir eigi að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu án endurgjalds. Jafnrétti í launum er að sjálfsögðu eðlilegt mál enda í anda jafnréttistefnu flokksins að laun kvenna sér jafnsett launum karla.

Nokkrar skýrslur undanfarinna ára hafa fjallað um skortinn á hjúkrunarfræðingum til starfa og settar fram tillögur til úrbóta (Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa, vinnumarkaður hjúkrunarfræðinga, Fíh 2017; Hjúkrunarfræðingar, mönnun, menntun og starfsumhverfi, Ríkisendurskoðun 2017; Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020; Mönnun hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020). Niðurstöðurnar eru alltaf þær sömu: Bæta þarf starfsumhverfi og launakjör hjúkrunarfræðinga og minnka álag í starfi. Halda þarf þeim hjúkrunarfræðingum sem þegar eru innan heilbrigðiskerfisins í starfi, draga þarf úr brottfalli hjúkrunarfræðinga úr starfi og fá þá til starfa sem þegar hafa hætt. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og snúa núverandi þróun við?

Sósíalistaflokkurinn hefur ekki markað sér sérstaka stefnu varðandi kjaramál hjúkrunarfræðinga frekar an annarra einstakra stétta og við vísum því í okkar stefnu í málaflokknum um heilbrigðismál að allir eigi að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu án endurgjalds. Hvað kjör hjúkrunarfræðinga varðar þá hefur það verið vitað í langan tíma að fólk flýr stéttina vegna álags og kjara enda er vaktavinna sérlega slítandi hvað það varðar. Það virðist hins vegar alltaf vera lendingin að flækja kjarasamninga enn frekar í stað þess að einfalda þá og fókusa á launaliðinn. Spurning hvort hægt væri að leysa þennan hnút með fjórum sex tíma vöktum á sólarhring í stað þriggja átta tíma vakta, án þess að til launaskerðinga kæmi. Það myndi bæði minnka álag og laga kjörin umtalsvert.

Dæmi eru um að einstakir heilbrigðisstarfsmenn hafi verið lögsóttir vegna kerfisbundinna vandamála, sem má m.a. rekja til undirmönnunar, ófullnægjandi starfsumhverfis og of mikils álags í starfi en vitað er að það eykur hættu á mistökum. Umræða hefur verið um að setja lög sem koma eigi í veg fyrir (banni) að einstaka starfsmenn verði sóttir til saka við slíkar aðstæður. Hver er afstaða þíns framboðs til þessa og hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera?

Sósíalistaflokkurinn hefur ekki markað sér sérstaka stefnu varðandi nákvæmlega þetta mál en það liggur í augum uppi að það er aðför að stéttinni í heild ef starfsfólkið þarf að sæta lögsókn vegna mistaka sem gerð eru vegna undirmönnunar og of mikils álags. Slíkt ætti ekki að vera heimilt.

 

Viðreisn

Fyrir hefur legið af hálfu stjórnvalda að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Hjúkrunarfræðingar eru stærsta heilbrigðisstéttin og eru 97% þeirra konur. Að mati gerðardóms síðastliðið haust eru vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að leiðrétta þetta?

Meðal allra fyrstu verka Viðreisnar var að koma jafnlaunavottun á dagskrá stjórnmálanna, en megintilgangur jafnlaunavottunarinnar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnustöðum. Í kjölfarið á þeim góða árangri vildi Viðreisn beina kastljósi stjórnmálanna að kjörum kvennastétta. Þingflokkur Viðreisnar lagði því fram þingsályktunartillögu um þjóðarsátt um kjör kvennastétta í ársbyrjun 2018. Tillagan fól í sér að Alþingi fæli fjármálaráðherra að leiða viðræður við aðila vinnumarkaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga um sérstakt átak, þjóðarsátt, sem fæli sér gerð sérstaks kjarasamnings um bætt launakjör kvennastétta í kjölfar greiningar á launakjörum fjölmennra kvennastétta, svo sem heilbrigðisstarfsfólks og kennara, í samanburði við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð sem starfa hjá hinu opinbera. Samkvæmt tillögunni skyldi þessi sérstaki kjarasamningur fela í sér hækkanir til viðbótar við almennar hækkanir kjarasamninga á vinnumarkaði. Leitast yrði við að ná samstöðu allra helstu samtaka innan verkalýðshreyfingarinnar um slíkt átak og um leið samþykki fyrir því að sérstakar hækkanir á grundvelli þess yrðu ekki grunnur að launakröfum annarra starfsstétta.

Ríkisstjórnarmeirihluti VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar dró hins vegar allan kraft úr tillögunni með því að breyta henni í þá átt að enn einu sinni ætti að ræða málið, greina og skoða. Vonandi fáum við í Viðreisn tækifæri til að fara okkar leið í þessum málum eftir kosningar.

Nokkrar skýrslur undanfarinna ára hafa fjallað um skortinn á hjúkrunarfræðingum til starfa og settar fram tillögur til úrbóta (Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa, vinnumarkaður hjúkrunarfræðinga, Fíh 2017; Hjúkrunarfræðingar, mönnun, menntun og starfsumhverfi, Ríkisendurskoðun 2017; Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020; Mönnun hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020). Niðurstöðurnar eru alltaf þær sömu: Bæta þarf starfsumhverfi og launakjör hjúkrunarfræðinga og minnka álag í starfi. Halda þarf þeim hjúkrunarfræðingum sem þegar eru innan heilbrigðiskerfisins í starfi, draga þarf úr brottfalli hjúkrunarfræðinga úr starfi og fá þá til starfa sem þegar hafa hætt. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og snúa núverandi þróun við?

Það liggur í augum uppi að launakjör skipta hér miklu máli og að því leyti til má vísa í svar við spurningunni hér á undan en það er líka ljóst að önnur atriði skipta miklu máli. Kulnun í starfi meðal heilbrigðisstétta verður sífellt meira aðkallandi úrlausnarefni. Það er mikilvægt að finna svör við þeirri neikvæðu þróun og leiðir til að snúa henni við. Það hefur ítrekað komið fram að það er álag, vinnuaðstæður og vinnufyrirkomulag auk takmarkaðra möguleika á því að hafa áhrif á fyrirkomulag vinnunnar og þjónustunnar sem veitt er, sem eru helstu ástæður kulnunar. Það skýtur skökku við að á sama tíma og kallað er eftir tæknimiðaðri, fjölbreyttri og einstaklingsmiðaðri þjónustu þá vinni stjórnvöld beinlínis gegn því að tryggja fjölbreytni og valfrelsi starfsfólks þannig að það geti tekið virkan þátt í mikilvægri framtíðarþróun þar sem kraftar þeirra nýtast best. Þessu vill Viðreisn breyta.

Stóra málið í allri heilbrigðisþjónustu er svo að tryggja að fjármögnun sé raunhæf og byggi ekki á því til lengdar að heilbrigðisstarfsfólkið okkar er fórnfúst ofurfólk.

Dæmi eru um að einstakir heilbrigðisstarfsmenn hafi verið lögsóttir vegna kerfisbundinna vandamála, sem má m.a. rekja til undirmönnunar, ófullnægjandi starfsumhverfis og of mikils álags í starfi en vitað er að það eykur hættu á mistökum. Umræða hefur verið um að setja lög sem koma eigi í veg fyrir (banni) að einstaka starfsmenn verði sóttir til saka við slíkar aðstæður. Hver er afstaða þíns framboðs til þessa og hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera?

Viðreisn styður slíka lagasetningu svo lengri sem tryggt er að öruggt og réttlátt ferli verði til staðar fyrir fólk sem á um sárt að binda vegna mistaka en það mæti ekki þöggun í kerfinu.

 

Vinstri græn

Fyrir hefur legið af hálfu stjórnvalda að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði og leiðrétta kerfisbundið vanmat á störfum þar sem konur eru í meirihluta. Hjúkrunarfræðingar eru stærsta heilbrigðisstéttin og eru 97% þeirra konur. Að mati gerðardóms síðastliðið haust eru vísbendingar um að hjúkrunarfræðingar séu vanmetin kvennastétt hvað varðar laun með tilliti til ábyrgðar. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að leiðrétta þetta?

Það er mikilvægt að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins haldi áfram að vinna að því að gera vinnumarkaðinn jafnari. Nú hefur starfshópur forsætisráðherra um endurmat kvennastarfa lagt til að stofnaður verði aðgerðarhópur stjórnvalda um launajafnrétti með aðild aðila vinnumarkaðarins. Sá hópur eigi m.a. að greina hvaða þættir það eru sem einkenna kvennastörf og kunna að vera vanmetnir, þróa verkfæri sem fangi jafnvirðisnálgun laganna og styðja við þau verkfæri sem þegar eru til staðar, þróa samningaleið um jafnlaunakröfur með aðilum vinnumarkaðarins og loks auka þekkingu og vitund um jafnvirðisnálgun jafnréttislaganna.

Jafnframt er mikilvægt að við höldum áfram að vinna gegn kynjuðum staðalímyndum hvarvetna í samfélaginu. Lenging fæðingarorlofs úr 9 mánuðum í 12 var mikilvægt skref og halda þarf áfram að hvetja foreldra að skipta fæðingarorlofinu jafnt þannig að það verði regla frekar en undantekning að foreldrar sinni börnum sínum til jafns. Þannig getum við sýnt börnunum okkar að umönnun er alls ekki kynjað hlutverk. Samhliða því þarf að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla til að tryggja að foreldrar geti snúið aftur til vinnu að fæðingarorlofi loknu. VG stendur fyrir kvenfrelsi og jafnrétti. Kynbundinn launamunur er samfélagslegt mein sem við þurfum öll að vinna saman að því að leysa.

Nokkrar skýrslur undanfarinna ára hafa fjallað um skortinn á hjúkrunarfræðingum til starfa og settar fram tillögur til úrbóta (Hjúkrunarfræðingar óskast til starfa, vinnumarkaður hjúkrunarfræðinga, Fíh 2017; Hjúkrunarfræðingar, mönnun, menntun og starfsumhverfi, Ríkisendurskoðun 2017; Tillögur til fjölgunar útskrifaðra hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020; Mönnun hjúkrunarfræðinga, Heilbrigðisráðuneytið 2020). Niðurstöðurnar eru alltaf þær sömu: Bæta þarf starfsumhverfi og launakjör hjúkrunarfræðinga og minnka álag í starfi. Halda þarf þeim hjúkrunarfræðingum sem þegar eru innan heilbrigðiskerfisins í starfi, draga þarf úr brottfalli hjúkrunarfræðinga úr starfi og fá þá til starfa sem þegar hafa hætt. Hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera til að bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og snúa núverandi þróun við?

Stytting vinnuvikunnar var gott skref og þarf að fylgjast vel með innleiðingu hennar svo hún nái markmiði sínu, en jafnframt þarf að halda þeirri vegferð áfram að tryggja betra jafnvægi milli einkalífs og atvinnu. Heilbrigðisstarfsfólk er alla jafna undir miklu álagi og starfar við krefjandi aðstæður. Það er því eðlilegt að þeim sé veitt sérstök athygli þegar gripið er til aðgerða til að bæta jafnvægi vinnu og einkalífs. Fyrir utan það þarf að bæta kjör hjúkrunarfræðinga, gera starfsumhverfið eftirsóknarverðara og meta menntun til launa á sanngjarnan hátt. Bætt kjör eru þarna lykilatriði, þar sem starfsumhverfið bætist þegar fleiri sækja í þessi störf. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra stofnaði á kjörtímabilinu sem er að líða landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu. Ráðið á að skila ráðherra tillögum um úrbætur á hverju ári. Samráð við hjúkrunarfræðinga og fleiri starfsstéttir í faginu er mikilvægt til að ná þessum markmiðum. Með því að vinna með stéttunum sjálfum er líklegast að lausnirnar séu til þess fallnar að leiða til jákvæðra breytinga.

Dæmi eru um að einstakir heilbrigðisstarfsmenn hafi verið lögsóttir vegna kerfisbundinna vandamála, sem má m.a. rekja til undirmönnunar, ófullnægjandi starfsumhverfis og of mikils álags í starfi en vitað er að það eykur hættu á mistökum. Umræða hefur verið um að setja lög sem koma eigi í veg fyrir (banni) að einstaka starfsmenn verði sóttir til saka við slíkar aðstæður. Hver er afstaða þíns framboðs til þessa og hvað nákvæmlega ætlar þitt framboð að gera?

Það skiptir miklu máli að vinnuaðstæður séu ekki með þeim hætti að aukin hætta sé á mistökum heilbrigðisstarfsmanna. Það þarf því að betrumbæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks. Það er þó mikilvægt að starfsmenn verði ekki sóttir til saka skapist slíkar aðstæður heldur að atvinnurekandinn beri fyrst og fremst ábyrgð og eru VG tilbúin að gera lagabreytingar í þá veru.

 

 

 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála