Hjukrun.is-print-version

Sóttkví í orlofi

RSSfréttir
20. október 2021

Fíh og önnur heildarsamtök og stéttarfélög opinberra starfsmanna hafa óskað eftir því að stjórnvöld tryggi að starfsfólk ríkisstofnana þurfi ekki að nota orlofsdaga þurfi það að fara í sóttkví í orlofi sínu.

Í bréfi Fíh, heildarsamtaka og stéttarfélaga til Kjara- og mannauðssýslu ríkisins er bent á að borið hafi á því að ríkisstofnanir neiti að breyta orlofsskráningu starfsfólks hafi það þurft að sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda í sumarorlofi. Rökstuðningur stofnana fyrir því er að farið sé eftir svörum kjara- og mannauðssýslu ríkisins. Undir bréfið ritar forsvarsfólk Fíh, Alþýðusambands Íslands, Bandalags háskólamanna, Kennarasambands Íslands, BSRB og Læknafélags Íslands.

„Finna má fjölmörg dæmi þar sem ríkisstofnanir hafa svarað starfsfólki sínu þannig að umræddur tími í sóttkví teljist til orlofs, óháð því hvort viðkomandi hafi tilkynnt um sóttkví eður ei, líkt og ber að gera vegna veikinda í orlofi. Þessari túlkun erum við ósammála og teljum að við þessar aðstæður eigi starfsfólk rétt á því að fresta orlofstöku sinni og ljúka henni í samráði við vinnuveitanda eins fljótt og hægt er eftir að sóttkví lýkur,“ segir meðal annars í bréfinu.

Í bréfinu er óskað eftir því að Kjara- og mannauðssýsla ríkisins endurskoði afstöðu sína og upplýsi ríkisstofnanir um þá breytingu, enda samræmist núverandi túlkun hvorki lögum né ákvæðum kjarasamninga.

Það er mat Fíh og annarra samtaka launafólks að sóttkví í orlofi megi jafna við veikindi í orlofi. Þar er skýrt að veikist starfsfólk í orlofi telst sá tími sem það er veikt ekki til orlofs. Þá er bent á að niðurstaða Kjara- og mannauðssýslu ríkisins samræmist ekki markmiðum laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga í sóttkví. Með því að halda orlofsskráningu til streitu sé komið í veg fyrir að starfsfólkið geti sótt um greiðslu launa í sóttkví.

Óskað er eftir formlegri afstöðu og viðbrögðum Kjara- og mannauðssýslu ríkisins til málsins. Félögin vilja reyna að ná farsælli niðurstöðu sem fyrst, annars getur reynst nauðsynlegt að fá úr álitaefninu skorið fyrir dómstólum.

„Þess skal getið að mál sem þessi eru í síauknum mæli að valda starfsfólki sem og stéttarfélögum erfiðleikum vegna óskýrra skilaboða sem og síbreytilegra reglna ríkisstofnana og því nauðsynlegt að bregðast við sem fyrst,“ segir í bréfi heildarsamtakanna og verkalýðsfélaganna. Þar segir jafnframt að náist ekki farsæl niðurstaða í þessu máli geti reynst nauðsynlegt að fá úr því skorið fyrir dómstólum.

Bréf Fíh og annarra samtaka launafólks til Kjara- og mannauðssýslu ríkisins


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála