Hjukrun.is-print-version

Vörn í sókn öllum til heilla

RSSfréttir
22. desember2021

Ágætu hjúkrunarfræðingar.

Nú nálgast jólin óðfluga og nýtt ár er rétt handan við hornið. Heimsfaraldurinn hefur, nú tæpum tveimur árum eftir að hann hófst, ennþá mikil áhrif á líf okkar og þá sérstaklega þeirra sem starfa framlínunni.

Langvarandi vinnuálag á hjúkrunarfræðinga, sem meðal annars má tengja beint til faraldursins, og versnandi staða innan heilbrigðiskerfisins er farið að segja til sín svo um munar og tölurnar tala sínu máli. Hjúkrunarfræðingum fjölgar sem sækja um styrki til félagsins vegna langvarandi veikinda og þeir hafa aldrei verið jafn margir og í ár. Sama má segja um þann fjölda sem þiggur nú þjónustu VIRK. Nú í desember voru haldnir fundir með trúnaðarmönnum hjúkrunarfræðinga og það var þungt í þeim hljóðið. Það berast fréttir af uppsögnum og minnkun á starfshlutfalli hjá hjúkrunarfræðingum, sem veldur miklum áhyggjum, því baráttan við veiruna er ekki búin og auk þess er óvíst hver langvarandi áhrif hennar verða m.a. á störf og heilsu hjúkrunarfræðinga.

Öllum er ljóst mikilvægi hjúkrunarfræðinga í baráttunni við COVID-19 og því lykilhlutverki sem þeir gegna í faraldrinum. Nýlegar íslenskar rannsóknarniðurstöður hafa leitt í ljós víðtæk sálfélagsleg og líkamleg áhrif starfsins á hjúkrunarfræðinga á þessum COVID-19 tímum og eru mörkin milli vinnu og einkalífs óskýr. Að mínu mati eigum við eftir að sjá frekari eftirköst faraldursins þegar fram líða stundir og mikilvægt að bregðast strax við til að reyna að lágmarka skaðann.

Ný ríkisstjórn og nýr heilbrigðisráðherra verða að átta sig á því hve alvarleg staðan í heilbrigðiskerfinu er. Öll gögn liggja fyrir um hvað þarf að gera til að snúa vörn í sókn og nú verða ráðamenn þjóðarinnar að bretta upp ermar og láta verkin tala með lausnir og langtíma markmið í huga. Staðan hefur verið slæm í langan tíma og nú er svo komið, að mínu mati, að yfirvöld eru að missa af lestinni og mun ég ræða þessa alvarlegu stöðu við nýjan heilbrigðisráðherra nú fyrir áramótin.

Það er líka nauðsynlegt að líta í eigin barm og sjá hvað við getum sjálf gert til að hlúa að heilsunni og hvet ég hjúkrunarfræðinga til að finna sitt eigið jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Verkefnin eru endalaus og staðan því flókin þegar vinnuálagið er mikið og svo bætast jafnvel við kröfur um yfirvinnu. Á sama tíma viljum við hjálpast að og leysa verkefnin í sameiningu en þegar öllu er á botninn hvolft er það alltaf í höndum hvers og eins hjúkrunarfræðings að setja sín faglegu og persónulegu mörk. Ég vil því benda á siðareglur hjúkrunarfræðinga sem geta nýst okkur sem leiðarljós og hjálpað til við starfstengdar ákvarðanatökur.

Ég bind miklar vonir við að við getum loksins komið saman á ráðstefnunni Hjúkrun 2022 sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica dagana 3. og 4. febrúar næstkomandi. Þar ætlum við að sameinast, tala saman, fræðast, hlæja og gleðjast, eins og okkur hjúkrunarfræðingum er einum lagið. Við skulum muna að þessi heimsfaraldur hefur tekið og tekur ennþá sinn toll af okkur öllum. En áfram veginn höldum við hjúkrunarfræðingar, við höldum áfram að hjúkra fólki, við stöndum saman og styðjum hvert annað og umfram allt sýnum manneskjunni skilning og hlýju á þessum skrítnu tímum.

Ég óska þess að félagsmenn nái að lyfta sér upp úr amstri dagsins yfir jólahátíðina, njóti gleði og friðar með fjölskyldu og vinum á milli þess sem þeir munu standa vaktina því það þarf að tryggja áframhaldandi heilbrigðisþjónustu í okkar góða landi.

Að lokum vil ég óska ykkur gleðilegra jóla og hamingjuríks nýs árs. Megi gæfan fylgja ykkur öllum og mikið vona ég að vörn verði snúið í sókn í heilbrigðiskerfinu á nýju ári svo staðan fari batnandi, öllum til heilla.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála