Hjukrun.is-print-version

Aðrir ganga ekki í störf hjúkrunarfræðinga

RSSfréttir
7. júlí 2022

Borist hafa ábendingar í sumar til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) um að aðrir en hjúkrunarfræðingar sinni störfum hjúkrunarfræðinga innan einstakra heilbrigðisstofnana og séu jafnvel ráðnir í stöðuígildi þeirra. Fíh hefur sent bréf til stofnana, Embætti landlæknis, heilbrigðisráðuneytisins og trúnaðarmanna þar sem áréttað er að slíkt er með öllu óheimilt og brýtur í bága við lög.

Enginn getur gengið í störf hjúkrunarfræðings nema hafa til þess starfsleyfi hjúkrunarfræðings frá Embætti landlæknis.

Brot á lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 og almennum hegningarlögum nr. 19/1940 varða refsingu. Fíh telur það grafalvarlegt ef einstaka heilbrigðisstofnanir eða fyrirtæki í heilbrigðisþjónustu feli öðrum en hjúkrunarfræðingum að sinna störfum hjúkrunarfræðinga.

Fíh hefur margsinnis bent á að fjölga þurfi hjúkrunarfræðingum. Í sumar er mikil vöntun á hjúkrunarfræðingum til starfa hjá mörgum stofnunum á öllu landinu án þess að starfsemi hafi verið skert. Fíh telur þetta grafalvarlegt mál með tilliti til álags á hjúkrunarfræðinga, gæða þjónustunnar og öryggi skjólstæðinga. Lágmarks öryggismönnun á heilbrigðisstofnunum er ekki skilgreind sérstaklega í lögum. Í tilkynningu Stjórnartíðinda eru skráð störf sem eru undanþegin verkfallsheimild, skráin byggir á því að störfin séu nauðsynleg til að tryggja nauðsynlegustu heilbrigðisþjónustu. Víða er mönnunin undir þessum viðmiðum. Hér má lesa skrána. 

Samkvæmt reglugerð um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur 786/2007 eiga rekstraraðilar heilbrigðisþjónustu að tilkynna landlækni ef meiriháttar breytingar verða á mönnun, búnaði, starfsemi og þjónustu í þeirra rekstri.

Fíh hvetur alla hjúkrunarfræðinga um að tilkynna tilvik sem þessi til kjara- og réttindasviðs. Hægt er að senda tölvupóst á kjarasvid@hjukrun.is 

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála