Hjukrun.is-print-version

Njótum sumarsins

RSSfréttir
8. júlí 2022

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Nú er sumarið komið og einhverjir hjúkrunarfræðingar farnir að taka sumarfrí – sem betur fer. Samfélagsmiðlar eru nú að fyllast af myndum úr sólinni og ekki tíminn til að hugsa um vinnuna.

Ég vildi láta ykkur vita að búið er að funda með nær öllum yfirstjórnendum heilbrigðisstofnana í tengslum við fundi með hjúkrunarfræðingum um landið sem ég og starfsfólk kjara- og réttindasviði stóðum fyrir í maí. Þeir fundir gengu vel en því miður bíð ég ennþá eftir að fá fund með heilbrigðisráðherra sem ekki ennþá hefur séð sér fært að hitta okkur vegna málefna hjúkrunarfræðinga. Þó eru góðir hlutir að gerast í heilbrigðisráðuneytinu og bindum við öll miklar vonir við störf viðbragðstreymis ráðuneytisins um bráðaþjónustu í landinu vegna þeirrar alvarlegu stöðu sem upp er komin.

 

Margt á dagskrá í haust

 

Skrifstofa Fíh á Suðurlandsbraut verður lokuð frá 11. júlí til og með 1. ágúst vegna sumarleyfa starfsfólks. Það verður margt á dagskrá félagsins í haust og er undirbúningur þess þegar hafinn.

Í september er hjúkrunarfræðingum boðið að taka þátt í ráðstefnu ENDA, Samtökum evrópskra stjórnenda í hjúkrun, en hún verður haldin á Selfossi. Þar verða fyrirlesarar frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Finnlandi. Sú ráðstefna er kjörið tækifæri til að hitta kollega og dýpka þekkinguna á faginu.

Í byrjun október mun Fíh halda kjararáðstefnu á Hótel Selfossi þar sem lögð verður lokahönd á kröfugerð okkar fyrir komandi kjarasamninga. Ég ætla ekki að tíunda mikilvægi þeirra núna, það verður nóg af því næsta vetur. Í lok október verður svo loksins haldið Hjúkrunarþing þar sem unnið verður að aðgerðaráætlun til næstu þriggja ára sem byggir á stefnu Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum sem samþykkt var á aðalfundi í fyrra. Margt annað verður í boði og hvet ég ykkur til að fylgjast með þeim námskeiðum og viðburðum sem verða auglýstir sérstaklega á samfélagsmiðlum félagsins.

 

Hvíld

 

Margir hjúkrunarfræðingar eru því miður í þeirri stöðu að þurfa að hlaupa hraðar á meðan samstarfsfólk þeirra er í sumarfríi, það er sá blákaldi veruleiki sem við ætlum okkur að breyta. Lítið er um afleysingar nema innan starfseminnar sjálfrar en sem betur fer virðist sem að flestir hjúkrunarfræðingar geti tekið sumarfrí í sumar og skiptir það öllu máli. Við verðum að breyta okkar hugsanahætti og aðskilja betur vinnu  og einkalíf.

Við getum lært margt af unga fólkinu okkar, nýju kynslóðinni sem lætur ekki bjóða sér hvað sem er. Hefðbundna reiknidæmið er þannig að vinnan er aðeins átta klukkutímar af sólarhringnum, átta eiga að fara í svefn og síðan eru aðrir átta sem við eigum sjálf. Og notum þá fyrir okkur sjálf!

Ég vona að þið fáið þá hvíld sem þið þurfið í sumar og getið notið gleðistunda í sólinni með þeim sem ykkur standa næst.

Sumarið er tíminn.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála