Hjukrun.is-print-version

Svefntruflanir og gleymska fyrstu einkenni kulnunar

RSSfréttir
15. ágúst 2022

Viðtal: Kristín Rósa Ármannsdóttir

Myndir úr einkaeigu

Kulnun (e.burnout) hefur verið mikið í umræðunni undanfarin misseri og samkvæmt könnun sem gerð var meðal starfsfólks Landspítala hafði rúmlega fjórðungur þess upplifað einkenni kulnunar síðastliðna 12 mánuði, en 20% þeirra sem tóku þátt í könnuninni hafði alvarlega íhugað að fara í veikindaleyfi vegan kulnunar eða örmögnunar. Kulnun er margþætt fyrirbæri og ýmsar hliðar þarf að skoða en skilgreiningar á kulnun hafa verið að breytast með tímanum eftir því sem rannsóknum fleygir fram. Vísbendingar eru um að verið sé að ofnota hugtakið kulnun og rannsóknir í dag miða að því að greina hvað telst raunverulega vera kulnun og hvað eitthvað annað.

 

Ingibjörg Jónsdóttir er prófessor í lífeðlisfræði og forstöðukona við Institute for Stress Medicine (ISM) í Gautaborg, sem er stofnun sem rannsakar álagsþætti í heilbrigðiskerfinu. Starf stofnunarinnar tengist fyrirtækjaheilsu og er í grófum dráttum tvískipt. Annars vegar er það stuðningur við heilbrigðiskerfið hvað varðar vinnuaðstæður, vinnuskilyrði og streitu á vinnustöðum og hins vegar klínískar rannsóknir á meðal annars einstaklingum sem hafa lent í kulnun. Blaðamaður heyrði í Ingibjörgu sem býr í Gautaborg og ræddi við hana um kulnun, hugtak sem hefur verið áberandi í umræðunni undanfarið og kannski óljóst hvað nákvæmlega það felur í sér þegar einstaklingur fer í kulnun.

 

Þegar álagið er meira en fólk ræður við

 

Hvað er kulnun?

„Hefðir þú spurt mig fyrir 10 árum hefði ég svarað öðruvísi en ég geri í dag en það er skilgreiningaratriði hvernig maður svarar þeirri spurningu. Í dag er verið að nota orðið kulnun í of víðum skilningi og við erum núna að vinna mikið í því að flokka hvað telst raunverulega vera kulnun. Ef við horfum til 7. áratugarins þegar þessi fræði komu fyrst fram og farið var að sjá einstaklinga sem unnu með fólk, til að mynda innan heilbrigðiskerfisins og kennara, þá voru þessir einstaklingar tilfinningalega mjög þreyttir og búnir á því og ástæðan virtist tengjast því að vinna með fólk og öllu því álagi sem fylgir slíkum störfum.

Þegar Christina Maslach kom fram með hugtakið kulnun var það fyrst og fremst tengt því að vera undir miklu álagi í vinnu og aðallega var það tengt einstaklingum sem voru að vinna með fólk. Síðar kom í ljós að þetta var ekki svona einfalt og að einstaklingar geta lent í alls konar álagi óháð vinnustað. Sumt fólk getur einfaldlega lent í kulnun þegar það er meira álag á það en það getur tekist á við sem gerir það að verkum að það fer að fá einkenni þreytu, heilabúið virkar ekki sem skildi og hugrænt getur það lent í kvíða, þunglyndi og svefntruflunum. Þetta á samt ekki við um alla, í flestum tilvikum erum við vel í stakk búin til að takast á við álag ef við fáum að hvíla okkur á milli álagstíma.“

Ingibjörg Jónsdóttir, prófessor í lífeðlisfræði og forstöðukona við Institute for Stress Medicine í Gautaborg

Ingibjörg segir miklar breytingar hafa átt sér stað í atvinnumálum á síðustu áratugum og að störf sem áður hafi verið talin mjög heilbrigð séu í dag talin álagsstörf.

„Miklar breytingar hafa orðið í heilbrigðiskerfinu, á sjúkrahúsum og í skólum sem hefur gert það að verkum að þetta teljast ekki lengur vera heilbrigð störf. Það hefur ekki verið fylgst nógu vel með vinnuaðstæðum í þessum störfum og álag sem tengist stjórnun og skriffinsku er allt of mikið. Álagið hefur breyst í störfum hjúkrunarfræðinga, auknar kröfur eru frá bæði sjúklingum og aðstandendum, auk þess sem störfin eru mun flóknari í dag en áður. Það er miklu meira álag á starfsfólki í dag og ef fólk sem er undir miklu og langvarandi álagi getur ekki tekist á við það, getur það upplifað mikil kulnunareinkenni eins og til dæmis gífurlega þreytu og svefntruflanir, ásamt einkennum þunglyndis. Þetta getur haft áhrif á heilabúið sem virkar þá ekki eins og það á að gera og minnið getur versnað. Mikilvægast er að fólk sé meðvitað um þessi einkenni og bregðist við áður en það er of seint,“ segir hún.

Margir sem fá kulnunargreiningu eru í raun að glíma við eitthvað annað en kulnun

Hverjir eru líklegastir til að lenda í kulnun?

„Það er ekkert einfalt svar við þeirri spurningu vegna þess að greining er óljós og mismunandi á milli landa. Hér í Svíþjóð eru margir að fá kulnunargreiningu en kemur svo í ljós að þessi einstaklingar eru í raun og veru að glíma við eitthvað annað, til dæmis geðhvörf, áfallastreituröskun, þunglyndi eða ADHD. Það er mjög mikilvægt að fólk fái rétta greiningu og sé ekki greint með kulnun þegar um annað er að ræða. Mikilvægur þáttur við greiningu á kulunun er álagið. Fólk lendir í kulnun þar sem álagspunktar eru bæði heima og í vinnunni. Við sjáum það í okkar rannsóknum og á sjúklingamóttökunni þar sem allt að 500 sjúklingar hafa fengið meðhöndlun, að allir að glíma við of mikið álag, bæði í vinnu og einkalífi. Konur eru oftast í mestri hættu, ekki vegna kyns síns heldur vegna þess að þær vinna á vinnustöðum þar sem álag er gjarnan mikið eins og við sjáum í heilbrigðiskerfinu. Hlutfallslega eru konur fleiri í stétt hjúkrunarfræðinga og því fá hlutfallslega fleiri konur kulnunareinkenni. Það er mjög mikilvægt að ræða þetta því það er ákveðið vandamál að það sé endalaust verið að tala um þetta sem kvennavandamál en ekki sem vinnustaðavandamál eða samfélagsvandamál.

Oft og tíðum eru það svo konurnar sem taka mestu ábyrgðina heima, við erum ekki komin alla leið í jafnréttismálum þótt margt hafi áunnist og breyst til hins betra. Fólk sem vinnur störf þar sem álagið er mikið, sem oft eru umönnunarstörf, og svo er líka álag heima fyrir og þetta gerir það að verkum að fólkið fær ekki andrými til að takast á við daginn og er líklegra til að fá kulnunareinkenni. Fólk getur til að mynda verið að ganga í gegnum erfiðan skilnaði, átt barn með sérþarfir og móður með krabbamein samhliða álagi á vinnustað, það er mjög sjaldgæft að við sjáum þessa einstaklinga í kulnun. Þetta er ekki bara vinnustaðavandamál, þetta er líka samfélagslegt vandamál. Við Íslendingar erum til að mynda gjörn á að þurfa að lifa lífinu á fullum hraða og lífsgæðakapphlaupið er mikið, það þarf oft og tíðum allt að vera fínt og flott og svo þarf að taka þátt í öllu og ekki má missa af neinu. Þetta gengur örugglega upp fyrir marga en það er alltaf ákveðinn hópur sem hefur ekki möguleika á því að taka þátt í lífsgæðakapphlaupinu en samfélagið ætlast einhvern veginn til þess að fólk taki þátt í því og það eitt og sér að upplifa að geta ekki tekið þátt í þessu lífsgæðakapphlaupi getur skapað streituálag á fólk.“

Svefntruflanir, stöðugar áhyggjur og gleymska

Það er ekki bara lífgæðakapphlaupið sem skiptir máli að sögn Ingibjargar og aðrir þættir sem við höfum rætt hingað til, „fyrir utan álagsþættina skiptir persónuleikinn líka máli; einstaklingur sem setur miklar kröfur á sjálfan sig, er fullkomnunarsinni eða ber kannski eitthvað með sér úr uppeldinu sem hefur áhrif, tekur til að mynda alla hluti inn á sig og biður aldrei um hjálp er að öllum líkindum í meiri hættu á að lenda í kulnun en sá sem setur til dæmis ekki of mikla pressu á sig og kröfur.“

Ingibjörg í göngu með vinkonunum frá menntaskólaárunum. Á myndinni eru auk hennar Helga Guðmundsdóttir, Guðríður Anna Kristjánsdóttir, Gerður Gröndal, Anna Dóra Sæþórsdóttir og María Bjarnadóttir

En hver eru þá fyrstu merki um kulnun?

„Eitt af fyrstu einkennum kulnunar eru svefntruflanir, þ.e. fólk fer að sofa illa, vakna upp um miðjar nætur og getur ekki sofnað aftur. Það tekur vinnuna með sér heim og er með stöðugar áhyggjur sem það getur ekki losnað við og er kannski farið að gleyma hlutum. Áður en þetta gerist myndi ég halda að það væri gott fyrir okkur öll að staldra við öðru hvoru og skoða hvort maður sé í jafnvægi, bæði hvað varðar vinnu og einkalíf. Spyrja sig hvort mögulega þurfi að gera eitthvað til að fyrirbygga streitueinkenni. En við megum heldur ekki vera hrædd við streitu, við erum gerð til þess að takast á við álag og þolum það vel en þurfum hvíld á milli. Álag þarf ekki að vera hættulegt þótt það sé brjálað að gera í einhverjar vikur, til dæmis á vöktum eða í lífinu. Fólk lendir yfirleitt ekki í kulnun af því það er brjálað að gera í nokkrar vikur. Það er frekar þeir sem eru undir stöðugu álagi, án þess að fá frí og andrými í langan tíma.

Sálfræðilegt vinnuálag

Ingibjörg segir mikilvægt að ræða mismunandi álagspunkta á vinnustað. „Það er eitthvað sem við hjá ISM rannsökum mikið. Svo dæmi sé tekið þá getur vinnuálag hjá hjúkrunafræðing á bráðamóttöku verið mikið hvað varðar þann hluta sem snýr að sjúklingunum, þ.e.a.s hann er með marga sjúklinga og það er mikil keyrsla. Þetta er álag sem fylgir starfinu á bráðamóttöku og vant starfsfólk tekst oftast á við daginn með sinni kunnáttu og færni og yfirleitt er álagið viðráðanlegt. Aftur á móti getur svokallað sálfræðilegt álag á sama vinnustað haft allt önnur áhrif á líðan starfsfólks, svo sem þættir eins og óljósar vinnuskipanir, óskýr stjórnun, léleg samskipti og slæmur vinnustaðarandi. Þessi atriði skipta líka máli og ef sálfræðilegt vinnuálag er ekki gott er það oftar en ekki aðalástæðan fyrir þreytu starfsfólks. Þess vegna skiptir mjög miklu máli að vinna með þetta sálfræðilega álag á vinnustöðum, það getur haft gífurleg áhrif sem forvarnir á kulnun,“ segir Ingibjörg.

Stuðningur og hvíld flýtir bata

Hvað er fólk lengi að ná sér sem fer í kulnun? „Það er mjög einstaklingsbundið og það er einmitt eitt af okkar rannsóknarverkefnum. Ef um kulnun vegna álags er að ræða og einstaklingurinn fær stuðning til að takast á við álagspunktana ásamt þeirri hvíld sem að hann þarfnast, þá getur ferlið verið frekar stutt. Ef einkennin aftur á móti eru óbreytt eftir jafnvel þrjú til sex ár þá eru allar líkur á að það sé eitthvað annað en kulnun til staðar og það verður að greina til að einstaklingurinn fá rétta aðstoð. Þetta er nýr flötur á okkar rannsóknum sem við erum að skoða nánar. Við þurfum að reyna að greina þetta betur og komast að því hvað þetta annað er sem getur haft áhrif sem líkjast einkennum kulnunar.“

Forvarnir einstaklingsbundnar

Aðspurð um forvarnir gegn kulnun segir Ingibjörg þær vera tvíþættar; „annars vegar hvað varðar eigin ábyrgð. Einstaklingar bera ábyrgð á einkalífi sínu og heilsu. Það er mikilvægt að fólk hugi að heilsu sinni og heimilisaðstæðum, við tökum líka öll ábyrgð á því samfélagi sem við lifum í og þeim kröfum sem við gerum og hvort við tökum þátt í lífgæðakapphlaupinu eða ekki. Hins vegar erum við að tala um forvarnir á vinnustað, þá er ég að vísa í skipulagið, vinnuaðstæður er varða stjórnun, yfirmenn, forsendur og fleira. Annars stigs forvarnir (secondary prevention) eru þegar fólk er svo komið með einkenni og er undir streituálagi. Á einhverjum tímapunkti er gott að skoða álagspunkta bæði heima og í vinnunni.

Vinnutengt álag er á ábyrgð vinnuveitands og undir þeim aðstæðum er mikilvægt að ræða við sinn yfirmann. Álagspunktarnir heima við eru flóknari og oft og tíðum ekki hægt að minnka þá, til að mynda þegar fólk á langveikt barn, stendur í skilnaði eða á veika foreldra. Forvarnir hvað varðar hluti sem viðkomandi getur ekki breytt snúa að því að fá stuðning til að takast á við aðstæður og tryggja nægjanlega hvíld. Forvarnir eru mjög einstaklingsbundnar, hvíld frá álagi er mjög einstaklingsbundin og það er engin vísindaleg aðferð sem sýnir að annað sé betra en hitt. Að fara í göngutúr eða sund, iðka núvitund eða að vinna í garðinum eru allt fínar forvarnir svo lengi sem það hentar viðkomandi. Forvarnir verða að eiga sér stað á mismunandi stigum hjá fólki; sem einstaklingar, í vinnuhópum og á vinnustað. Stigin eru öll jafnmikilvæg en hingað til höfum við aðallega verið að vinna með einstaklinginn og það þarf að bæta við forvörnum í vinnuhópnum og á vinnustaðnum án þess að fjarlægja einstaklingshlutann. Það er að segja, heilsuefling og forvarnir verða að eiga sér stað á öllum þremur stigunum. Það er oft bara rýnt í einstaklinginn hvað varðar forvarnir, til dæmis með hreyfingu og streitustjórnun en það er ekki nóg, við þurfum að horfa á alla þættina.“

Nokkur góð ráð til að fyrirbyggja kulnun

Kulnun er sem sagt of mikið álag til lengri tíma sem ekki hefur verið tekist á við.

„Álagið getur verið vegna aðstæðna á vinnustaðnum, í einkalífinu, heimilislífinu og í samfélaginu sem á endanum verður það til þess að viðkomandi fær einkenni sem geta orðið langvarandi. Það getur verið gífurleg þreyta, svefntruflanir og einkenni hvað varðar heilavirkni eins og t.d. minnisleysi og þessi einkenni batna ekki á ákveðnum tíma þrátt fyrir hvíld. Kulnun má ekki blanda saman við þreytu eftir mikla vinnutörn sem góður svefn og hvíld nær að laga. Streita er best skilgreind sem áreynsla eða álag sem einstaklingur mætir og hefur með sér skammtímaáhrif á lífeðlisfræðileg kerfi sem að hjálpar líkamanum til að takast á við álagið, til dæmis með hækkuðum blóðþrýstingi eða hraðari púls.

Viðkomandi mætir álagi eða áreynslu með lífeðlisfræðilegri og sálfræðilegri svörun. Þegar álag er gengið yfir þá fara kerfin aftur í jafnvægi. Þannig að streita er í grunninn lífeðlisfræðilegt og sálfræðilegt ferli sem á sér stað á hverjum degi. Streita eins og hún er skilgreind í lífeðlisfræðinni er eðlilegur hluti lífsins. Það eru álagstoppar á hverjum degi sem við mætum en mikilvægast er að kerfin fari niður aftur, að það verði aftur jafnvægi. Við sjáum aftur á móti ekki miklar breytingar lífeðlisfræðilega séð hjá sjúklingum með kulnun en þörf er á meiri rannsóknum til að skýra það nánar. Aðalrannsóknarefnið okkar á ISM núna varðar einstaklinga sem eru orðnir veikir og eru í langvarandi kulnun, við erum að skoða hvort það sé eitthvað annað en kulnun sem verður að greina og veldur því að einstaklingar eru veikir svona lengi,“ segir Ingibjörg og að lokum biðjum við hana um góð ráð til að fyrirbyggja að fólk fari í kulnun.

„Það er mikilvægt að tala við yfirmann sinn ef álag er of mikið á vinnustað. Taka þátt í að efla sálfræðilega vinnumhverfið á vinnustaðnum. Sjá til að fá næga hvíld frá amstrinu og minnka álagspunkta ef það er hægt. Biðja um hjálp þegar álagspunktar í einkalífi eru farnir að hafa áhrif á heilsuna er líka mikilvægt og síðast en ekki síst að hlusta á líkamann þegar einkenni streitu eru farin að láta á sér bera. Ekki bíða með að leita eftir aðstoð.“

Viðtalið birtist í nýjasta tölublaði Tímarits hjúkrunarfræðinga, smelltu hér til að lesa blaðið

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála