Hjukrun.is-print-version

Raddir hjúkrunarfræðinga verða að heyrast

RSSfréttir
Reuters
25. nóvember 2022

Samtök breskra hjúkrunarfræðinga, Royal College of Nursing (RCN), hafa þakkað Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh), fyrir samstöðuna í komandi verkfallsaðgerðum þar í landi. Fyrr í þessum mánuði boðaði RCN til verkfallsaðgerða víða um Bretlandseyjar næstu mánuði. Fíh sendi bréf til samtakanna um samstöðu ásamt því að undirrita samstöðubréf Samvinnu hjúkrunarfræðinga á Norðurlöndum (SSN).

Sjá einnig: Samstaða með hjúkrunarfræðingum í Bretlandi

Pat Cullen, framkvæmdastjóri RCN, hefur sent bréf til Guðbjargar Pálsdóttur, formanns Fíh, þar sem íslenskum hjúkrunarfræðingum er þakkað fyrir stuðninginn. „Hjúkrunarfræðingar í öllum fjórum löndum Bretlands hafa tekið höndum saman í baráttunni fyrir sanngjörnum kjörum og öruggri mönnun,“ segir í bréfinu. „Í fyrsta sinn í okkar sögu munu félagsmenn RCN grípa til verkfallsaðgerða á meirihluta stofnana Bresku heilbrigðisþjónustunnar.“

„Það var ekki auðvelt fyrir marga okkar félagsmenn að taka þessa sögulegu ákvörðun um að grípa til aðgerða en það sýnir vilja þeirra til að laga mönnunarvandann, bæta nýliðun og auka öryggi skjólstæðinga. Við bindum vonir við að aðgerðirnar veki athygli stjórnvalda, bæði hér og utan Bretlands, um að raddir hjúkrunarfræðinga verði að heyrast.“

Cullen tekur fram að hjúkrunarfræði sé alþjóðlegt fag. „Við erum stolt að standa saman með öðrum félögum og samtökum hjúkrunarfræðinga til að bæta starfsumhverfi, taka umræðuna um mönnunarvanda og tryggja leiðtogahlutverk hjúkrunarfræðinga um allan heim,“ segir í bréfi Cullen. „Við erum sterkari saman og erum staðráðin í að vinna saman að réttlæti fyrir fagið okkar og skjólstæðinga.“

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála