Hjukrun.is-print-version

Sest að samningaborðinu

RSSfréttir
10. febrúar 2023

Kæru hjúkrunarfræðingar.

Í vikunni var fyrsti fundur samninganefndar Fíh við samninganefnd ríkisins og var það fínn fyrsti fundur. Við lögðum fram okkar kröfugerð og hlustuðum jafnframt á hugmyndir ríkisins.

Kröfugerðin byggist á fundarferðinni frá því í maí síðastliðnum þar sem við funduðum með hjúkrunarfræðingum um allt land, niðurstöðum kjarakönnunarinnar sem lögð var fyrir félagsmenn síðasta haust, sem og niðurstöðum kjararáðstefnunnar fyrir trúnaðarmenn í október. Út úr þessu hefur komið mikill samhljómur hjúkrunarfræðinga í áherslum fyrir komandi samninga, sem síðan hlýtur nú mikinn hljómgrunn í því samtali sem við erum að eiga með hjúkrunarfræðingum á fundunum um landið þessa dagana. Því erum við sest að samningaborðinu og hafið samtalið þó fundunum sé ekki lokið. Aftur á móti erum við að flýta þeim fundum sem eftir eru til að ná að heyra í sem flestum hjúkrunarfræðingum áður en lengra gengur inn í viðræðurnar. Hér má sjá dagskrá næstu funda. 

Á fundunum sem við höfum haldið undanfarið mánuð hef ég fundið fyrir mikilli samstöðu meðal hjúkrunarfræðinga og einróma stuðning við okkar helstu áherslumál. Það staðfestir það sem við fengum að heyra í fyrra og þau gögn sem við höfum í höndunum. Hækka þarf grunnlaun hjúkrunarfræðinga og meta þarf virði starfsins í samræmi við ábyrgð og álag. Við höfum tölurnar og samanburðinn við aðrar stéttir. Út frá staðreyndum munum við leita allra leiða til að ná fram kjarabótum.

Það er ánægjulegt að samtalið sé hafið og ég hef einsett mér að vera bjartsýn þegar kemur að þessu stóra verkefni sem fram undan er. Samninganefndina skipa 6 manns og hafa trúnaðarmannaráðið og stjórn félagsins sér til halds og trausts.

Á meðan þessu ferli stendur mun ég því miður ekki getað upplýst ykkur öll um stöðu mála við samningaborðið hverju sinni þar sem þar ríkir trúnaður á meðan á viðræðum stendur. Þið munið hvernig þetta hefur verið í síðustu viðræðum og ég veit að þið sýnið því skilning. Ég mun þó upplýsa ykkur um stöðu mála eftir fremsta megni og hvet ykkur til að leita beint til okkar ef það vakna spurningar og vangaveltur.

Markmiðið er að nýr samningur taki við af miðlunartillögunni sem rennur út 31. mars. Það er ómögulegt að segja á þessum tímapunkti hvernig viðræðurnar þróast eða hve langan tíma ferlið tekur. Það væri þó ánægjulegt að þetta markmið næðist og þannig á það í raun að vera.

Það er búið að vera mjög ánægjulegt að ræða við ykkur á fundunum undanfarið, eins og alltaf. Ég hlakka til þeirra funda sem eftir eru og taka samtalið við fleiri hjúkrunarfræðinga. Fram að þessu hefur samtalið endurspeglað samstöðu og einhug hjúkrunarfræðinga en líka þungar áhyggjur af komandi samningum eftir 12 ára samningsleysi. Við stöndum saman eins og áður og látum staðreyndirnar tala okkar máli.

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála