Hjukrun.is-print-version

Sanngirni

RSSfréttir
8. mars 2023

Íslenska þjóðin hefur náð ótrúlegum árangri á sviði jafnréttismála á síðustu áratugum, ég tek þó undir orð Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, á fundi Kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í gær um að við séum svo sannarlega ekki búin að ná fullu jafnrétti. Við sjáum það hvað best í núverandi kjaraviðræðum fyrir stétt sem er enn að langmestu leyti samansett af konum, stétt sem mætir enn því viðmóti að þeirra störf séu ekki jafn verðmæt og önnur þar sem kynjahallinn er á hinn veginn.

Við höfum öll séð í hvaða ógöngur kerfisbundið vanmat á kvennastörfum hefur leitt okkur og ef halda á áfram á sömu braut mun ástandið eingöngu versna. Á sama tíma sýna rannsóknir að konur bera ennþá meginábyrgðina á barnauppeldi, heimilisstörfum og að sinna veikum ættingjum.

Forsætisráðherra segir í grein sinni í Morgunblaðinu í dag að ráðist verði í aðgerðir gegn kynbundnum launamun, nú með tilraunverkefni um jafnvirði starfa. Við báðar vonum að hægt verði að útrýma launamun á öllum vinnumarkaðnum. Þetta snýst einfaldlega um sanngirni, það er einfaldlega ekki sanngjarnt að hjúkrunarfræðingur með 4-6 ára háskólanám að baki, líf fólks í höndunum og einn mikilvægasti hlekkurinn í íslenska heilbrigðiskerfinu, þurfi að hafa fyrirvinnu eins og mörg dæmi eru um. Sanngirni mun leiða til meira öryggis, öryggi fyrir starfsfólk, skjólstæðinga og þjóðarinnar allrar.

Í dag, á Alþjóðlegum baráttudegi kvenna, mun Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, standa fyrir stafrænum hádegisfundi ásamt ASÍ, BHM, BSRB, Kvenréttindafélagi Íslands, Samtökum starfsmanna fjármálafyrirtækja og Kennarasambandi Íslands. Yfirskrift fundarins er Ryðjum brautina: Metum konur af erlendum uppruna að verðleikum

Hingað til lands hefur komið stór hópur öflugra hjúkrunarfræðinga víða af úr heiminum, í dag erum við svo heppin að hjúkrunarfræðingurinn Leila Floresca Esteban ætlar að segja öllum sem fylgjast með fundinum frá sinni reynslu á íslenskum vinnumarkaði. Í dag koma um sex prósent hjúkrunarfræðinga erlendis frá og það hlutfall mun koma til með að hækka á næstu árum. Það er hlutverk okkar allra að tryggja að því fagfólki sem hingað kemur til að starfa sé mætt af virðingu og sanngirni. Það er öllum hollt að heyra hvað hún hefur að segja, sérstaklega þeim sem ætla að hafa skoðanir á málefninu eða koma að stefnumótun í málaflokknum.

Hlekkur á fundinn

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála