Hjukrun.is-print-version

Árangur af kynfræðslunámsefninu Kynveruleiki í ljósi kynheilbrigðis

RSSfréttir
11. febrúar 2015


Sóley S. Bender, hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands
Álfheiður Freyja Friðbjarnardóttir, Varmahlíðarskóla

 

Tilgangur: Rannsóknir benda til að kynfræðsla í skólum stuðli að betra kynheilbrigði unglinga. Hér á landi eru barneignir unglingsstúlkna og kynsjúkdómar eins og klamydía tíðari en í mörgum öðrum löndum í Evrópu. Það bendir til þess að þörf sé á kynfræðslu sem er líkleg til að skila árangri. Árangur af kynfræðslu í grunnskólum á Íslandi hefur lítið verið rannsakaður. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta árangur nýs kynfræðsluefnis, Kynveruleiki í ljósi kynheilbrigðis.

Aðferð: Nafnlaus könnun var haustið 2010 lögð fyrir nemendur í 8. bekk eins grunnskóla Reykjavíkur, fyrir og eftir kynfræðslu sem stóð í átta vikur. Alls svaraði 101 nemandi báðum könnununum, 52 stúlkur og 49 drengir. Könnuð var þekking, viðhorf, kynhegðun og samræður við foreldra um kynheilbrigðismál.

Niðurstöður: Niðurstöður sýndu aukna þekkingu og meiri samræður við foreldra en breytt viðhorf komu í minna mæli fram í kjölfar kynfræðslunnar, einkum hjá stúlkum. Í ljós kom að þekking hafði aukist marktækt meðal nemenda (úr 68% réttum svörum í 79%, p<0,001). Stúlkur höfðu ívið meiri þekkingu en drengir í upphafi (70% rétt svör, 65%) en þekking jókst um 10% hjá báðum kynjum eftir fræðsluíhlutun. Viðhorf til ábyrgðar í kynlífi (p=0,034) og til fordóma (p=0,002) breyttist marktækt á milli kannana hjá báðum kynjum. Hjá drengjum urðu mun meiri breytingar á viðhorfum en hjá stúlkum. Jafnframt ræddu unglingar og foreldrar meira saman um kynheilbrigðismál og nam sú aukning 24%.

Ályktanir: Niðurstöður styðja fyrri rannsóknir um árangur kynfræðslu í grunnskólum hvað varðar þekkingu, viðhorf og samræður við foreldra. Þær benda einnig til þess að það sé
mikilvægt að hefja alhliða kynfræðslu eigi síðar en í 7. bekk til að unglingar fresti því að byrja að stunda kynlíf. Frekari rannsóknir á námsefninu eru æskilegar áður en það fer í
almenna notkun.

Lykilorð: Kynfræðsla, unglingar, viðhorf, þekking, samræður, kynhegðun.

1.tbl. 2015: Árangur af kynfræðslunámsefninu "Kynverleiki í ljósi kynheilbrigðis"

Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála