Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Tæknileg færni og öndun við notkun innöndunartækja hjá einstaklingum með lang vinna lungnateppu og astma

28. apríl 2016

Anna María Leifsdóttir Landspítala háskólasjúkrahúsi
Helga Jónsdóttir, heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands
Þorbjörg Sóley Ingadóttir Landspítala háskólasjúkrahúsi


Tilgangur: Innöndunarlyf, gefin með innöndunartækjum, eru kjörmeðferð við langvinnri lungnateppu (LLT) og astma. Ófullnægjandi notkun innöndunartækja, sem innihalda þessi lyf, er hins vegar algengt vandamál. Tilgangur rannsóknarinnar er að lýsa færni einstaklinga með langvinna lungnateppu og astma við notkun innöndunartækja, einkum sjúklinga með langvinna lungnateppu. 

Aðferð: Í þessari þverskurðarrannsókn var skjólstæðingum með langvinna lungnateppu og astma á 8 heilsugæslu-stöðvum á höfuðborgarsvæðinu og 6 stofum lungnalækna í Læknasetrinu boðin þátttaka. Nýtt mælitæki, Notkun innöndunartækja, var notað í rannsókninni. Mælitækið var útbúið og forprófað af höfundum, fjögurra gilda Likert-kvarði mælir tæknilega færni (5 atriði) og öndun (5 atriði), annars vegar fyrir dufttæki og hins vegar fyrir innúðatæki. 

Niðurstöður: Þátttakendur (N=125) voru 59 karlmenn og 66 konur. Meðalaldur var 59,5 ár. Alls 100 einstaklingar voru með LLT og 25 með astma. Meirihluti þátttakenda (n=91) notaði innöndunarlyf reglulega, 12 notuðu eftir þörfum og 21 notaði ekki innöndunarlyf. Tvenns konar innöndunartæki voru prófuð, 97 notuðu dufttæki og 31 notaði innúðatæki. Tæknileg færni var fullnægjandi hjá 63% til 100% þátttakenda. Mest var tæknilega færnin í að hrista innúðatæki. Lökust var færnin í að halda innúðatæki eða dufttæki uppréttu við notkun. Öndun var fullnægjandi við notkun hjá 39% til 100% þátttakenda. Allir þátttakendur sátu í æskilegri stöðu við notkun beggja tækjanna. Meira en helmingur þátttakenda tæmdi lungun ekki nægilega vel áður en þeir önduðu lyfi að sér og um helmingur hélt ekki niðri í sér andanum á fullnægjandi hátt eftir lyfjagjöf. Ekki reyndust tengsl á milli bakgrunnsbreyta og tæknilegrar færni og öndunar nema á milli alvarleika sjúkdóms og getu til að anda lyfi djúpt og rólega að sér úr innúðatæki. 

Ályktanir: Tæknilega færni við notkun innöndunartækja má bæta umtalsvert. Erfiðara er að álykta um möguleika til að bæta öndun þó vísbendingar séu þar um. Rannsóknir og kennslu í notkun innöndunartækja þarf að efla.

Lykilorð: Langvinn lungnateppa, astmi, notkun innöndunartækja, innúðatæki, dufttæki.

2. tbl. 2016:  Tæknileg færni og öndun við notkun innöndunartækja hjá einstaklingum með langvinna lungnateppu og astma

Fagið

Fagleg málefni

Upplýsingar og ráðgjöf

Öndunarfæri

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála