Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Líknarmeðferð fyrir sjúklinga með langvinna lungnateppu: Að vera samstíga

6. júní 2016
Að vera samstíga

Guðrún Jónsdóttir, Landspítala
Helga Jónsdóttir, Háskóla Íslands


Bakgrunnur og tilgangur: Tilgangur rannsóknar var að lýsa reynslu og viðhorfum hjúkrunarfræðinga á líknarmeðferð og innleiðingu hennar á sjúkradeild til þess að styrkja þjónustu við sjúklinga með langvinna lungnateppu. Slík innsýn gæti bætt lífsgæði sjúklinga með langvinna lungnateppu og fjölskyldna þeirra sem standa andspænis lífhættulegum sjúkdómi. 

Fræðilegur bakgrunnur var óvissulíkan Roland van Linge. Þar er gert ráð fyrir að árangursrík innleiðing þurfi samþýðanleika milli nýjungar (líknarmeðferðar lungna-sjúklinga) og umhverfis eða núverandi starfshátta. 

Aðferð: Tekin voru tvö rýnihópaviðtöl við hjúkrunar-fræðinga (N=8) á lungnadeild Landspítala – háskóla-sjúkrahúss sem þjóna hlutverki greiningarviðtals í innleiðingunni. Greindar voru hindranir og árangursríkar leiðir fyrir innleiðinguna. 

Niðurstöður: Þemagreining sýndi að meginhindranir við innleiðingu líknarmeðferðar voru hugtakaruglingur varðandi líknar- og lífslokameðferð, hjúkrunarfræðingana greindi á við aðrar heilbrigðisstéttir, m.a. lækna um framkvæmd líknarmeðferðar, auk þess sem óvissa um framgang sjúkdóms gat hindrað ákvarðanatöku um meðferðina. Árangursríkar leiðir til innleiðingar vörðuðu mikilvægi þess að vera samstiga varðandi framkvæmd líknarmeðferðar og í því samhengi voru þverfaglegir vinnufundir mikilvægir þar sem fagstéttirnar gætu unnið sameiginlega að meðferðarmarkmiðum.

Ályktanir: Til þess að geta veitt sjúklingum með langvinna lungnateppu líknarmeðferð þarf sérhæfingu þar sem um flókinn sjúkdóm og sjúkdómsferli er að ræða. Við innleiðingu á klínískum leiðbeiningum um líknarmeðferð þarf að byggja á þekkingu um sérstakar þarfir lungnasjúklinga; innleiðing þarfnast tíma og fjármuna og hugsanlega þarf að laga leiðbeiningarnar að sértækum þörfum þessa skjólstæðingahóps.

Lykilorð: Langvinn lungnateppa, líknarmeðferð, hjúkrun, rýnihópar, fyrirbærafræði.

3. tbl 2016: Líknarmeðferð fyrir sjúklinga með langvinna lungnateppu: Að vera samstíga

Fagið

Líkn og lífslok

Öndunarfæri

Ritrýnd grein

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála