Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

3. fundur stjórnar Fíh 2018 – 2019

2. október 2018

þriðjudaginn 02. október 2018 kl. 13:00-16:00

Mættir: Anna María Þórðardóttir, Arndís Jónsdóttir, Gísli Nils Einarsson, Guðbjörg Pálsdóttir, Guðrún Yrsa Ómarsdóttir, Halla Eiríksdóttir og Hildur Björk Sigurðardóttir. Helena Eydal varamaður situr fundinn.

Gestir: Herdís Lilja Jónsdóttir vef- og verkefnastjóri, Gunnar Helgason sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs og Edda Dröfn Daníelsdóttir sviðsstjóri fagsviðs.

Til afgreiðslu

 1. Fundargerð 2. fundar stjórnar Fíh lögð fram til samþykktar.
  Afgreiðsla: Samþykkt.

Til kynningar

 1. Herdís Lilja Jónsdóttir vef- og verkefnastjóri kynnti starfssvið sitt innan Fíh. Stærstu flokkarnir eru vefstjórn, kerfismál, grafík og verkefnastjórn.

Til umræðu

 1. Kjara- og réttindasvið. Gunnar Helgason sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs segir frá helstu áherslum.
  • Stofnanasamningur við Krabbameinsfélag Íslands hefur verið undirritaður. Viðræðum við HSS og HSA miðar áfram.
  • Hjúkrunarnemar í starfi eru innan SFR. SFR hefur óskað eftir því við Fíh að þeir verði frekar aðilar að Fíh. Fíh vill taka við aðild hjúkrunarnema en Fjármálaráðuneytið hefur í gegnum tíðina sett sig á móti. Hins vegar eru fordæmi fyrir að nemar eru aðilar að stéttarfélögum þeirra faga sem þeir eru að mennta sig í. Kjarasviðið vinnur þessu áfram í samvinnu við SFR.
  • Kjarasamningar eru stærsta verkefni kjara- og réttindasviðs í vetur. Leitað verður eftir hjúkrunarfræðingum til að starfa í/með samninganefndum eða þeim til halds og trausts. Leitað verður eftir hjúkrunarfræðingum sem hafa framhaldsmenntun eða aukna þekkingu á kjaramálum. Unnið verður að kröfugerð í október og nóvember og væntanlega verður hægt að kynna uppleggið í lok nóvember. Stungið var upp á að leggja könnun fyrir félagsmenn til að fá upplýsingar um hvaða áherslur þeir telja mikilvægastar í kjaraviðræðum, en einnig verður farin fundaherferð í kring um landið og hjúkrunarfræðingar heimsóttir. Búið er að gera ítarlega greiningu á launum og bera saman við aðrar stéttir. Einnig er stuðst við ýmsar skýrslur s.s. skýrslu Fíh um vinnumarkað hjúkrunarfræðinga frá febrúar 2017, skýrslu Ríkisendurskoðunar um hjúkrunarfræðinga; mönnun, menntun og starfsumhverfi frá október 2017 og könnun á viðhorfi, ánægju og ýmsum þáttum sem snerta starf hjúkrunarfræðinga og framkvæmd var í nóvember 2017. Stefnt er að hefja samningaviðræður eftir áramót. Samvinna við aðra í kjarasamningum. Ljóst er að hjúkrunarfræðingar eiga ýmislegt sameiginlegt með öðrum vaktavinnu- og/eða kvennastéttum.
   Sviðsstjóri kjara- og réttindasviðs óskar eftir formlegu umboði stjórnar til að ræða við forystu BHM og kanna hugsanlega sameiginlega fleti á einstökum samningsþáttum í komandi kjaraviðræðum. Rætt meðal stjórnarmeðlima.

  Afgreiðsla: Umboð til að kanna hugsanlega sameiginlega fleti á einstökum samningsþáttum við BHM er samþykkt.
  Helena Eydal víkur af fundi.

 2. Fagsvið. Edda Dröfn Daníelsdóttir sviðsstjóri fagsviðs segir frá helstu verkefnum fagsviðs sem framundan eru.
  •  Fyrirhugað er hjúkrunarþing 15. nóvember nk. sem mun m.a. fjalla um leiðtoga í hjúkrun, eflingu í starfi og stjórnun og er unnið í samvinnu við Deild hjúkrunarstjórnenda.
  •  Einnig er fundur með öllum fagdeildum. Aukin verða tengslin við landsvæðadeildir. Verið er að undirbúa afmælisárið 2019 og er núna sérstaklega unnið að undirbúningi ráðstefnunnar Hjúkrun 2019 sem verður í september 2019 í Hofi á Akureyri. Jafnframt verður ýtt af stað alþjóðlega verkefninu Nursing Now sem er hluti af alþjóðlegu verkefni á vegum ICN en hjúkrunarfélögin á norðurlöndum eru að taka höndum saman og gera það sýnilegra í sínum löndum; Nursing Now Nordic. Margt fleira er á döfinni sem kemur fram síðar en Edda hefur aðeins verið rúmar 2 vikur í starfi.


 3. Trúnaðarmál. Umræður og áframhaldandi vinna stjórnar.

 4. Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008 með síðari breytingum (heilbrigðisþjónusta í hagnaðarskyni). Umræður stjórnar.
  Afgreiðsla: Stjórn er samþykk frumvarpinu og mun því ekki senda inn umsöng um það. Engu að síður er stjórn sammála því að það skortir stefnu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um heilbrigðiskerfið. Stjórn mun vinna það áfram á vinnusvæði stjórnar.

 5. 100 ára afmælið. Drög að sérstöku merki afmælisársins kynnt. Formaður fer yfir skipulags- og undirbúningsmál fyrir afmælisárið.
  Afgreiðsla: stjórnin heldur áfram þessari vinnu á milli stjórnarfunda og á næsta stjórnarfund.

 6. SSN. Formaður sagði í stuttu máli frá nýafstaðinn ráðstefnu samtaka hjúkrunarfræðinga á norðurlöndum (SSN) um laun og launakjör. Á ráðstefnunni voru um 90 manns frá hjúkrunarfélögum norðurlandanna og vakti jafnlaunavottunin mikinn áhuga gest.

Önnur mál

 1. Fyrirspurn frá félagsmanni. Lögð er fram fyrirspurn frá félagsmanni um mögulega aðild Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga að íbúðarfélaginu Bjargi.
  Umræður voru meðal stjórnarmeðlima. Það hefur ekki verið stefna Fíh að taka þátt í slíku íbúðarsamvinnufélagi þar sem of mikill tilkostnaður myndi skapast fyrir of fáa félagsmenn.

Fundi slitið kl. 16:00.
Næsti fundur stjórnar er áætlaður 16. október 2018 kl. 09:00.
Anna María Þórðardóttir ritari Fíh.

 

Fundargerðir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála