Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Umsögn um drög að heilbrigðisstefnu til 2030

21. febrúar 2019

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030.
Þingskjal 835 – 509. mál.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar framkominni tillögu til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2030 og vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum við þingsályktunartillöguna sem nú liggur fyrir.

Meginviðfangsefni.

2. Rétt þjónusta á réttum stað
Í kaflanum Rétt þjónusta á réttum stað er heilbrigðisþjónustan skilgreind sem fyrsta stigs þjónusta (heilsugæslan), annars stigs þjónusta (sérfræðiþjónusta utan háskólasjúkrahúss) og þriðja stigs þjónusta (háskólasjúkrahús). Í þann kafla vantar að mati félagsins mikilvæg atriði sem eru eftirfarandi:

Forvarnir og lýðheilsa
Þessum mikilvæga þætti heilbrigðis vantar í þingsályktunina. Í lögum um landlækni og lýðheilsu (2007 nr. 41 27. mars) kemur fram að eitt af markmiðum landlæknis sé að annast forvarnir, heilsueflingarverkefni og efla lýðheilsustarf. Það er því nauðsynlegt að mati félagsins að setja fram stefnu um forvarnir og lýðheilsu inn í heilbrigðisstefnuna. Heilsugæslunni er ætlað stórt hlutverk en ekki er getið um hlutverk hennar varðandi forvarnir og lýðheilsu. Fíh telur að þó heilsugæslunni sé ætlað skv. heilbrigðisstefnunni að bjóða upp á ráðgjöf um heilbrigðan lífsstíl fyrir einstaklinga og hópa nái það ekki yfir forvarnir og lýðheilsu. Því er nauðsynlegt að kveðið sé nánar um þennan grundvallarþátt heilbrigðisþjónustunnar í heilbrigðisstefnunni.

Endurhæfing
Ekki er minnst sérstaklega á endurhæfingu í þingsályktuninni. Endurhæfing er sífellt stækkandi þáttur heilbrigðisþjónustunnar og því telur Fíh mikilvægt að koma þeim þætti inn í heilbrigðisstefnuna.

Hjúkrun aldraðra/hjúkrunarheimili
Ekki er minnst einu orði á hjúkrunarheimili eða hjúkrun aldraðra þó það sé ljóst að aldraðir séu vaxandi hópur sem þarf á heilbrigðisþjónustu að halda næsta áratuginn. Lög um heilbrigðisþjónustu (2007 nr. 40 27. mars) taka til hjúkrunarrýma á hjúkrunarheimilum eða sjúkrahúsum og því er að mati félagsins ekki hægt að fjalla um heilbrigðisstefnu án þess að minnast einu orði á þennan vaxandi þátt heilbrigðisþjónustunnar.


3. Fólkið í forgrunni
Í kaflanum Fólkið í forgrunni kemur fram fögur framtíðarsýn sem vonandi nær fram að ganga. Þessi kafli er einn mikilvægasti kafli heilbrigðisstefnunnar að mati Fíh þar sem að lítið mun fara fyrir heilbrigðisþjónustunni ef ekkert verður heilbrigðisstarfsfólkið til að veita þjónustuna. Skortur er á heilbrigðisstarfsfólki hér á landi. Marga hjúkrunarfræðinga vantar til starfa og hefur svo verið um langt árabil. Ekki eru teikn á lofti í nánustu framtíð um að breyting verði þar á nema stjórnvöld grípi til markvissra aðgerða. Skýringarnar eru vel þekktar s.s. mikið álag í starfi, óviðunandi starfsumhverfi, vinnutími og mikil vaktabyrði. Á þessum þáttum á að taka fyrir árið 2030 og er það vel. Fíh vill vekja athygli á því að kjarasamningar heilbrigðisstarfsmanna eru lausir á árinu. Því er tækifæri núna til að hefja þá vegferð sem fram kemur í stefnunni. Mikilvægt er að stjórnvöld komi að endurnýjun kjarasamninga heilbrigðisstarfamanna með afgerandi hætti og markvissum lausnum og hefji þar með vinnuna við að setja fólkið í forgrunn.

7. Hugsað til framtíðar
Í kaflanum Hugsað til framtíðar er fjallað m.a. um vísindi, menntun og nýsköpun í heilbrigðisþjónustu og menntun heilbrigðisstétta.
Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga vill leggja sérstaka áherslu á mikilvægi rannsókna og vísindastarfsemi til að þróa hjúkrunarmeðferð og því undirstrika mikilvægi þess að hjúkrunarfræðingar og sérfræðingar í hjúkrun fái tækifæri til að starfa við vísindarannsóknir og/eða gæðaverkefni innan hjúkrunarfræðinnar í tiltekinn tíma á ári. Hjúkrunarfræðingar fái einnig greiðari aðgang að styrkjum til vísindarannsókna sem og aðgang að gögnum og gagnagrunnum á heilbrigðissviði. Í því sambandi er vert að minna á frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði (gjaldtöku vísindasiðanefndar) en þar er verið að leggja til aukinn kostnað við vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Það er aðgerð sem ekki mun auka á vísindastarf innan heilbrigðisþjónustunnar heldur þvert á móti.

Annað sem Fíh vill koma á framfæri.
Í skýrslunni HEILBRIGÐISSTEFNA, Stefna fyrir íslenska heilbrigðisþjónustu til ársins 2030 er víða talað um „lækna og annað heilbrigðisstarfsfólk“. Fíh gerir athugasemd við það og telur réttar að nota „heilbrigðisstarfsfólk“ í slíku samhengi. Þegar verið er að setja heilbrigðisstefnu 12 ár fram í tímann verður sú stefna að vera framsækin. Þar þarf því að leggja áherslu á mikilvægi allra heilbrigðisstétta til að ná þeim árangri í heilbrigðisþjónustunni á Íslandi sem stefnt er að. Undanfarin ár hefur verið aukin áhersla lögð á þverfaglega teymisvinnu og er samvinna og samskipti mismunandi fagstétta grundvöllur að öruggari og heildstæðri þjónustu til skjólstæðinga.

Í skýrslunni í kaflanum um rétta þjónusta á réttum stað er lögð sérstök áhersla á sérfræðinga í heimilislækningum sem Fíh gerir athugasemd við. Ekki er hægt að taka eina stétt út fyrir þegar þessi framtíðarstefna er afturhvarf frá því sem nú þegar er.

Nauðsynlegt er að horfa fram á við með þarfir skjólstæðinganna að leiðarljósi. Nú þegar eru t.d. hjúkrunarfræðingar, ljósmæður og sjúkraþjálfarar með sjálfstæðar móttökur á heilsugæslustöðvum sem fara vaxandi auk þess sem heimahjúkrun er stór þáttur í þjónustunni. Það þarf því að fjalla um heilbrigðisstéttir í stað einnar starfsgreinar ef stefnan á að endurspegla rétta þjónustu á réttum stað.

Vitnað er í skýrslu McKinsey, Lykill að fullnýtingu tækifæra Landspítalans – íslenska heilbrigðiskerfið á krossgötum (2016) á nokkrum stöðum sem gefur ekki rétt mynd af starfsemi Landspítala. Er þar m.a. lýst óraunhæfri fækkun á hjúkrunarfræðingum við störf þar sem skýrslan byggir á læknisfræðilegum grunni. Er í því sambandi m.a. vitnað í notkun Diagnostic-related group hópgildi (DRG) sem notuð eru til að verðleggja frammistöðu en þessi gildi endurspegla ekki hjúkrunarþarfir sjúklinga.

Að lokum vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga ítreka vilja sinn til að koma að nánari vinnu við heilbrigðisstefnuna þegar farið verður í það verkefni að setja markmið og mælanlegar leiðir til að ná þeim. Hjúkrunarfræðingar starfa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar og hafa því víðtæka þekkingu og reynslu af heilbrigðiskerfinu sem nýtist við slíka markmiðasetningu.


Heilbrigðiskerfið

Umsagnir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála