Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ályktun um liðskiptiaðgerðir

26. apríl 2019

Reykjavík 26. apríl 2019

Ályktun frá stjórn Fagdeildar bæklunarhjúkrunarfræðinga

Stjórn fagdeildar bæklunarhjúkrunarfræðinga er áhyggjufull yfir þeirri þróun að sjúklingar fari erlendis í aðgerðir sem vel er hægt að framkvæma hérlendis. Lausnin ætti frekar að felast í því að leysa vanda Landspítalans. Nú liggja 140 sjúklingar á Landspítala sem hafa lokið meðferð og bíða eftir úrræðum svo sem hjúkrunarheimilum eða endurhæfingu. Rúmlega helmingur legurýma á bæklunarskurðdeildum er tepptur af þessum sökum. Einnig er skortur á hjúkrunarfræðingum sem sinna sjúklingum í og eftir aðgerð. Afleiðingarnar eru þær að vegna manneklu eru 19 legurými á skurðlækningasviði Landspítala lokuð og þar að auki reynist erfitt að manna skurðstofur. Skortur á legurýmum hefur bein áhrif á hversu margar liðskiptaaðgerðir er hægt að framkvæma.

Meirihluti liðskiptaaðgerða á Íslandi eru framkvæmdar á Landspítala en þær fara einnig fram á sjúkrahúsinu á Akureyri og Akranesi. Liðskiptaátak sem farið var í árin 2016-2018 skilaði um 60% aukningu á gerviliðaaðgerðum á landsvísu. Þó biðtími eftir slíkri aðgerð hafi styst um 30% á tímabilinu nær hann samt ekki markmiðum Landlæknis og biðlistinn lengist vegna sívaxandi þarfar á slíkum aðgerðum. Vitað er að biðtími eftir mjaðma- og hnéskiptum hefur áhrif á afdrif og árangur aðgerða þannig að betur má ef duga skal. Árangur átaksins sýnir að þekking, færni og vilji er til staðar innan spítalanna en umhverfið sem okkur er ætlað að starfa í er mikil hindrun.

Fagdeild bæklunarhjúkrunarfræðinga skorar á stjórnvöld að fjölga hratt úrræðum fyrir aldraða svo þeir komist í viðeigandi úrræði þegar bráðameðferð á sjúkrahúsi er lokið og skapa þannig rými fyrir aðgerðarsjúklinga. Í öðru lagi er brýnt að laða fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa svo hægt sé að fullnýta skurðstofur og legurými. Nú eru kjarasamningar lausir og þar skapast tækifæri til að fá fleiri hjúkrunarfræðinga til starfa. Það þarf að bregðast við strax.

Fyrir hönd stjórnar fagdeildar bæklunarhjúkrunarfræðinga
Jóhanna Sigríður Sveinsdóttir, formaður

 

 

Heilbrigðiskerfið

Landspítali

Ályktanir

Til bakagreinasafn

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála