Hjukrun.is-print-version

Ályktun aðalfundar 2020

RSSfréttir
17. september 2020

Aðalfundur Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) haldinn 17. september 2020 lýsir yfir miklum vonbrigðum með niðurstöðu gerðadóms frá 1. september sl.
Gerðadómur lagði í greinargerð sinni fram ýmis rök sem hefði mátt nýta til að bæta laun hjúkrunarfræðinga, meðal annars að stéttin sé vanmetin til launa miðað við ábyrgð í starfi. Niðurstaðan er fjarri því að bæta launasetningu hjúkrunarfræðinga til hækkunar í samræmi við þessa ábyrgð.

Hjúkrunarfræðingar eru hryggjarstykki heilbrigðiskerfisins og hefur stéttin meðal annars verið í lykilhlutverki undanfarna mánuði í baráttunni við COVID-19 faraldurinn. Þrátt fyrir mikilvægi stéttarinnar hefur íslenska ríkinu ekki tekist að semja um laun við stéttina síðustu ár og hefur gerðardómur í tvígang þurft að úrskurða um laun hjúkrunarfræðinga.

Aðalfundur Fíh krefst þess að hjúkrunarfræðingar fái laun í samræmi við menntun, ábyrgð í starfi og framlag þeirra til heilbrigðisþjónustu. Nýfallinn úrskurður gerðardóms bætir ekki þar úr. Góð laun hjúkrunarfræðinga bæta samkeppnishæfni íslensks heilbrigðiskerfis um starfskrafta hjúkrunarfræðinga og nýliðun verður auðveldari. Íslenskar heilbrigðisstofnanir verða þannig betur í stakk búnar til þess að takast á við fyrirsjáanlega aukningu á þörf fyrir heilbrigðisþjónustu á komandi árum.


Til baka

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála