Fara á efnissvæði

Fagdeild hjartahjúkrunarfræðinga

Fagdeild hjartahjúkrunarfræðinga stuðlar að bættri hjúkrun hjartasjúklinga, auk þess að viðhalda og auka þekkingu hjúkrunarfræðinga sem hjúkra hjartasjúklingum

Um fagdeildina

Fagdeild hjartahjúkrunarfræðinga var formlega stofnuð 25. maí 1994. Fjöldi félaga í september 2012 eru 76 hjúkrunarfræðingar sem starfa við hjartahjúkrun víðsvegar um landið. Hjúkrunarfræðingar sem eru félagsmenn innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, starfa við hjúkrun hjartasjúklinga og hafa sérmenntun á sviðinu eða brennandi áhuga á hjúkrun hjartasjúklinga geta gerst aðilar að Fagdeild hjartahjúkrunarfræðinga. Allir félagar hafa tillögu og atkvæðarétt.

Fagdeildin starfar skv. reglum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um fagdeildir innan þess.

Fagdeildin vinnur að eftirtöldum verkefnum:

  • Heldur fræðslufundi árlega í tengslum við aðalfund sem allir hjúkrunarfræðingar eru hvattir til að sækja
  • GoRed-samstarfsverkefni og alheimsátak um hjarta- og æðasjúkdóma meðal kvenna
  • Sendir út Fréttabréf fagdeildarinar með fréttum um starfsemi fagdeildarinnar
  • Heldur úti heimasíðu fagdeildarinnar á hjukrun.is og uppfærir hana reglulega ásamt Facebook síðu fagdeildarinnar

Styrktarsjóður

Starfsreglur sjóðsins

  1. Stjórn fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga hefur umsjón með styrkveitingum.
  2. Styrkveitingar eru einu sinni á ári. Síðasti skiladagur umsókna er 1. október ár hvert. Umsóknum er svarað í síðasta lagi mánuði eftir að umsóknarfrestur rennur út. Umsóknum skal skila rafrænt gegnum heimasvæði fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga og skal umsóknareyðublað sbr. lið 3 fylgja umsókn sem fylgiskjal.
  3. Umsóknareyðublað fyrir styrkumsókn má nálgast hér að ofan.
  4. Umsækjendur skulu vera skuldlausir við fagdeildina og hafa verið félagar í fagdeildinni í að minnsta kosti tvö ár.
  5. Í umsókn skal segja frá tilgangi og markmiði með styrkbeiðni.
  6. Félagsmenn geta fengið styrk vegna símenntunar, námskeiða, ráðstefna, málþinga og faglega skipulagðra heimsókna á sviði hjartahjúkrunar. Að öllu jöfnu eru ekki veittir rannsóknarstyrkir. Eldri verkefni en tveggja ára eru ekki styrkhæf.
  7. Styrkþegar mega vænta þess að vera beðnir um að kynna verkefni sín fyrir fyrir fagdeildinni. Kynningin getur meðal annars verið í formi greinar í fréttabréfi fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga eða með því að kynna verkefnið á fundum deildarinnar
  8. Styrkjum verður úthlutað samkvæmt framlögðum reikningi í frumriti. Sé styrks ekki vitjað fyrir 31. desember sama ár og hann er veittur, fellur hann niður.
  9. Greiðsla styrks er alltaf endurgreiðsla útlagðs kostnaðar samkvæmt reikningi.
  10. Hægt er að sækja um hámarksstyrk að upphæð kr. 40.000. Þrjú ár þurfa að líða á milli styrkveitinga til sama aðila. Umsóknum verður raðað í forgangsröð og njóta þeir forgangs sem ekki hafa hlotið styrk áður. Umsóknir til að sækja vísindaþing, einkum þar sem styrkþegi kynnir rannsóknarniðurstöður ganga fyrir. Veittir eru að hámarki 8 styrkir á ári að því gefnu að þeir séu allir að hámarksupphæð.
  11. Stjórn fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga áskilur sér rétt til að taka tillit til fjárhagsstöðu fagdeildarinnar á hverjum tíma fyrir sig og úthluta eftir því.
  12. Styrktarsjóðurinn er í vörslu gjaldkera fagdeildarinnar. Reikningsár sjóðsins er 1. janúar til 31. desember ár hvert. Reikningar sjóðsins verða yfirfarnir af skipuðum endurskoðendum fagdeildarinnar.
  13. Reglur sjóðsins skal endurskoða árlega, fyrir aðalfund fagdeildarinnar.

Stjórn

Formaður

Inga Valborg Ólafsdóttir

Varaformaður

Ása María Guðjónsdóttir

Gjaldkeri

Arndís Kristjánsdóttir

Ritari

Elna Albrechtsen

Skoðunarmaður reikninga

Bylgja Kærnested

Skoðunarmaður reikninga

Eva Hrönn Petersen

Fræðslunefnd

Hallveig Broddadóttir

Fræðslunefnd

Hulda Halldórsdóttir

Fræðslunefnd

María Vesterg. Guðmundsdóttir

Fræðslunefnd

Steinunn Ruth T. Guðmundsdóttir

Starfsreglur

Nafn
Fagdeildin heitir: Fagdeild hjartahjúkrunarfræðinga. Heimili og varnarþing er í Reykjavík.

Markmið

  1. Að vera stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og nefndum til ráðgjafar í öllu því er snýr að viðkomandi fagi.
  2. Að stuðla að bættri hjúkrun í viðkomandi fagi.
  3. Viðhalda og auka þekkingu hjúkrunarfræðinga á hjartadeildum á því sem efst er á baugi hverju sinni.
  4. Koma á faglegum tengslum við hjúkrunarfræðinga sem starfa á hjartadeildum heima og erlendis.
  5. Hvetja til framþróunar á sviði hjartahjúkrunar og rannsóknarvinnu.
  6. Efla fræðslu til almennings og skjólstæðinga um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma.
  7. Að stuðla að góðu samstarfi við aðrar fagdeildir og aðrar starfsstéttir.

Aðild
Aðilar geta orðið allir félagsmenn innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem starfa við hjúkrun hjartasjúklinga, hafa sérmenntun á sviðinu eða hafa brennandi áhuga á hjúkrun hjartasjúklinga.

Allir félagar hafa tillögu- og atkvæðarétt.

Æskilegt er að einn stjórnarmeðlimur sé fulltrúi fagdeildarinnar í norrænu samstarfi.

Sjóður
Á stofnfundi fagdeildarinnar skal stjórnin stofna sjóð sem hefur þann tilgang að kosta ferðir erlendra fyrirlesara til landsins og auðvelda þátttöku í erlendu samstarfi. Stofnfé sjóðsins skal fengið með fjárframlögum og skal geymt í banka til ávöxtunar. Gjaldkeri í samráði við stjórn fagdeildarinnar fer með fésýslu.

Styrkveitingar
Þeir einir geta sótt um styrk úr sjóðnum sem hafa hjúkrunarfræðimenntun, eru aðilar að fagdeildinni og starfa sérhæft við hjúkrun hjartasjúklinga. Ákvörðun um styrkveitingu er háð samþykki stjórnar fagdeildarinnar og til hennar þurfa umsóknir að berast. Í umsókn skal segja frá tilgangi og markmiði með styrkbeiðni og fylgja þarf kostnaðaráætlun þar að lútandi. Styrkhafi skal skila öllum reikningum til gjaldkera fagdeildarinnar. Lánastarfsemi úr sjóðnum er ekki heimil. Verði ágreiningur innan stjórnarinnar um styrkveitingu skal meirihluti hennar ráða.

Aðalfundur
Aðalfund skal halda á síðasta þriðjungi ár hvert. Til hans skal boða með skriflegu fundarboði með minnst tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla stjórnar.
  3. Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram.
  4. Árgjald ákveðið.
  5. Lagabreytingar.
  6. Kosning stjórnar og nefnda skv. 4., 10. og 11. gr.
  7. Kosnir tveir endurskoðendur.
  8. Önnur mál.

Reikningar
Reikningsárið er almanaksárið. Reikningsskilum skal lokið eigi síðar en 01.04. næsta ár á eftir reikningsári. Leggja skal endurskoðaða reikninga fyrir aðalfund hverju sinni. Á aðalfundi skulu tveir endurskoðendur kosnir.

Fræðslunefnd
Á aðalfundi skal kjósa í fræðslunefnd, skipaðri fimm félagsmönnum til a.m.k. eins árs í senn. Tilkynningum um framboð skal koma til stjórnar fyrir aðalfund. Fræðslunefnd skal í samráði við stjórn fagdeildarinnar skipuleggja fyrirlestra og fræðslu fyrir fagfólk og almenning. Áhersla skal lögð á forvarnir. Fræðslunefnd skal hafa yfirlit yfir fagtímarit er fjalla um hjúkrun hjartasjúklinga. Fræðslunefnd skal skila skriflegri ársskýslu til stjórnar fyrir aðalfund ár hvert. Æskilegt er að einn aðili úr fræðslunefnd sé fulltrúi fagdeildarinnar í norrænu samstarfi.

Norrænt samstarf
Á aðalfundi skal kjósa í norrænt samstarf 1-2 félagsmenn til tveggja ára í senn. tilkynningum um framboð skal koma til stjórnar fyrir aðalfund. Æskilegt er að annar eða báðir eigi einnig sæti í stjórn fagdeildarinnar og / eða fræðslunefnd. Þeir skulu sækja fundi norrænu nefndarinnar og taka þátt í undirbúningi norrænna hjartaþinga. Þeir skulu skila inn skriflegri ársskýrslu til stjórnar fyrir aðalfund ár hvert.

Árgjald og innheimta
Félagsmenn greiða árgjald sem ákveðið er á aðalfundi. Gjaldkeri fagdeildar sér um innheimtu. Greiði félagsmaður ekki árgjald tvö ár í röð telst hann ekki lengur félagi fagdeildarinnar.

Breytingar á starfsreglum fagdeildar
Breytingar á starfsreglum fagdeildarinnar skulu teknar fyrir á aðalfundi og taka þær gildi að honum loknum. Tillögur að breytingum á starfsreglum skulu berast skriflega til stjórnar a.m.k viku fyrir aðalfund. Til að hljóta samþykki þarf breytingartillaga að hljóta 2/3 hluta greiddra atkvæða.