Fara á efnissvæði
Frétt

Góðar umræður um framtíð hjúkrunarfræðimenntunar

Miklar og frjóar umræður sköpuðust á málþingi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri um framtíð hjúkrunarfræðimenntunar á Íslandi.

Málþingið fór fram 21. mars á Grand hóteli í Reykjavík og mættu rúmlega 80 hjúkrunarfræðingar frá fagdeildum Fíh, HÍ og HA ásamt hjúkrunarstjórnendum og fulltrúum nemendafélaganna Curator og Eir.

Hjúkrunarfræði hefur nú verið grein í háskóla á Íslandi í hálfa öld og hefur námið ávallt verið þróað út frá þörfum samfélags og alþjóðlegum viðmiðum um innihald og gæði. Á sama tíma hafa viðmið um annað háskólanám og prófgráður þróast frekar sem hvetur til þess að skoða og ígrunda samræmi milli faggreina.

Málþingið var mikilvægur áfangi í umræðunni um nám hjúkrunarfræðinga þar sem einungis hjúkrunarfræðingar sjálfir ræddu hvernig þeir sjá námið fyrir sér. Mikilvægt er að þeir leiði þá vinnu. Mörg sjónarhorn komu fram og voru rík skoðanaskipti.

Í framhaldinu verður unnið úr vinnustofunni á málþinginu og verða þær niðurstöður kynntar hjúkrunarfræðingum. HÍ og HA munu halda áfram að efla samvinnu sína varðandi nám hjúkrunarfræðinga.