Fara á efnissvæði
Frétt

Ný lög samþykkt um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana

Höfundar: Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, Helga Rósa Másdóttir, sviðsstjóri fagsviðs Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og Jón Sigurðsson, hrl. lögmaður Fíh. Grein birt í Tímariti hjúkrunarfræðinga 1. tbl. 2024.

Í desember síðastliðnum samþykkti Alþingi frumvarp Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn alvarlegra atvika. Markmið lagabreytinganna er að auka öryggi sjúklinga, efla öryggismenningu innan heilbrigðiskerfisins og fækka alvarlegum atvikum. Einnig er verið að skýra og auka réttaröryggi heilbrigðisstarfsfólks og bæta þannig starfsumhverfi þeirra. Þessar lagabreytingar eru í raun ekki heildstæð lög heldur breytingar á nokkrum öðrum lögum þ.e. lög nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu, lög nr. 41/2007 um landlækni og lýðheilsu og lög nr. 74/1997 um réttindi sjúklinga.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar þessari lagasetningu og hefur lengi barist fyrir henni enda mikið réttlætismál fyrir hjúkrunarfræðinga og annað heilbrigðisstarfsfólk, sem og þeirra skjólstæðinga.

Að mati félagsins var þó hægt að ganga lengra í lagasetningunni en gert var og þykir miður að ekki hafi verið tekið meira tillit til umsagna Fíh við gerð frumvarpsins, enda snúa aðfinnsluefnin að ýmsum atriðum er varða réttarstöðu og réttarvernd heilbrigðisstarfsfólks.

Samkvæmt nýsamþykktum lögum er nú hægt að gera heilbrigðisstofnanir refsiábyrgar í stað einstaka heilbrigðsstarfsfólk, eins og hjúkrunarfræðingar þekkja vel. Þar með er hægt að færa refsiábyrgðina frá heilbrigðisstarfsfólki yfir á heilbrigðisstofnanir, þ.e. lögaðilana, ef margir samverkandi þættir eða röð atvika eru orsök alvarlegs atviks í heilbrigðisþjónustu. Þessu fagnar Fíh en gagnrýnir að eins og lagabreytingin er úr garði gerð þá yrði þessari nýju heimild beitt helst, ef ekki væri unnt að sýna fram á sök hjá tilteknum heilbrigðisstarfsmanni í hverju tilfelli fyrir sig. Þetta þýðir að ekki er hægt að koma í veg fyrir að ákæruvaldið geti sótt heilbrigðisstarfsfólk til saka þegar um ræðir röð atvika sem leiða til alvarlegs atviks. Þetta fyrirkomulag er notað í Noregi en Fíh hefur gagnrýnt að ekki skuli hafa verið gengið alla leið og lokað fyrir þennan möguleika.

Réttarvernd heilbrigðisstarfsfólks er skýrari nú eftir lagasetningu þegar um er að ræða eftirlitsmál hjá Embætti landlæknis. Þá er tryggt að gögn úr eftirlitsmálum landlæknis, þ.m.t. það sem starfsfólk upplýsa um við rannsókn Embættis landlæknis í slíkum málum, verða ekki notuð í sakamálum hjá lögreglu og er það réttarbót sem styrkir hlutverk landlæknis við að finna frumorsakir atvika með umbætur að leiðarljósi.

Fíh gerði margskonar athugasemdir við frumvarp heilbrigðisráðherra. Ber þar að nefna helst tvennt sem Fíh gerði alvarlegar og ítrekaðar aðfinnslur við en ekki var tekið tillit til þeirra við lagasetninguna.

Hið fyrra er að mati Fíh stærsta aðfinnsluefnið vegna hinna nýsamþykktu laga og varðar kvörtunarmál sjúklinga og aðstandenda. Að ekki hafi verið gerðar sömu breytingar á kvörtunarmálum og gerðar voru varðandi gögn í eftirlitsmálum. Réttarstaða heilbrigðisstarfsfólks hvað eftirlitsmál landlæknis varðar er bætt samkvæmt nýsamþykktum lögum eins og kom fram hér að framan. Gera lögin ráð fyrir að gögn úr eftirlitsmálum geti ekki orðið hluti af gögnum sakamáls. Kvörtunarmál eru rannsökuð af Landlæknisembættinu rétt eins og eftirlitsmál. Við rannsókn kvörtunarmála eru t.d. skýrslur teknar af heilbrigðisstarfsfólki sem borið er sökum um mistök eða vanrækslu af kvartendum. Lendi sama mál á borði lögreglu síðar, þá geta sama heilbrigðisstarfsfólk lent í þeirri stöðu að verða sakborningar við þá lögreglurannsókn. Engu að síður hafa þeir þó áður þurft að veita upplýsingar, hvort sem um skriflega málsmeðferð ræðir eða með því að gefa skýrslu fyrir stjórnvaldinu landlækni, án þess að hafa notið réttarstöðu sem sakborningar. Með öðrum orðum geta gögn sem verða til við rannsókn og úrlausn kvörtunarmáls orðið hluti síðar af málsgögnum í sakamáli. Ábendingar Fíh hvað þetta varðar hafa lotið að því að réttarskerðing heilbrigðisstarfsfólks í kvörtunarmálum fari á svig við ákvæði mannréttindasáttmála sem lögfest eru hérlendis.

Seinni alvarlega aðfinnslan varðar óvænt dauðsfall, tilkynningaskyldu í upphafi slíkra mála og réttarstöðu heilbrigðisstarfsfólks. Við tilkynningu um óvænt dauðsfall ber lögreglu að framkvæma nauðsynlegar rannsóknaraðgerðir til þess að tryggja sönnunargögn og upplýsingaöflun í þágu máls. Samkvæmt því ætti lögreglu að vera rétt og skylt að ákveða réttarstöðu sakborninga strax í upphafi, í þeim tilgangi að tryggja réttarstöðu þess heilbrigðisstarfsfólks sem grunur beinist að í málum. Sú staða er uppi nú samkvæmt nýsamþykktum lögum að tiltekið heilbrigðisstarfsfólk fá ekki stöðu sakbornings hjá lögreglu ef máli er vísað til landlæknis sem eftirlitsmáli, þrátt fyrir að lögregla hafi áður framkvæmt rannsóknaraðgerðir. Ekki er útilokað að sama málið endi aftur á borði lögreglu og er þá réttarstaða heilbrigðisstarfsfólks óskýr á meðan málið er eftirlitsmál hjá landlækni, sérstaklega hvað varðar skýrslugjöf hjá landlækni. Telur Fíh miður að löggjafinn hafi ekki brugðist við ábendingu Fíh hvað þetta varðar við meðferð málsins á Alþingi og tryggt réttarstöðu heilbrigðisstarfsfólks fyllilega hvort sem um eftirlitseða kvörtunarmál ræðir.

Því vill Fíh árétta það við allt sitt félagsfólk að leita til Fíh, sé það kallað til viðtals eða beðið að skila skýrslu/greinargerð vegna atviks eða kvörtunar hjá yfirmanni, Embætti landlæknis eða öðrum, þar sem Fíh veitir ráðgjöf og stuðning í slíkum málum.

Fíh benti á fleiri atriði í umsögnum sínum sem hin nýsamþykktu lög hefðu getað tekið betur á en ekki var tekið tillit til. Má þar nefna að huga mætti að því hvort rétt væri að kljúfa rannsóknarhluta mála frá starfsemi landlæknis og fela sérstöku stjórnvaldi þau verkefni. Að auki benti Fíh á þörf á endurskoðun á viðurlagaákvæði laga um landlækni og lýðheilsu. Snýr sú ábending m.a. að þeim tilvikum þegar landlæknir hefur svipt heilbrigðisstarfsmann, sem grunur beinist að, starfsleyfi varanlega á meðan enn hefur ekki verið skorið úr hvort viðkomandi hefur gerst sekur um brot á lögum eða um refsivert athæfi. Telur Fíh nauðsynlegt að mælt verði fyrir um í lögum að einungis bráðabirgðasvipting starfsleyfis komi til á meðan dómur í refsimáli vegna atviks liggur ekki fyrir.

Þá telur Fíh ekki hafa verið nægilega vel gætt að mögulegri tvöfaldri refsingu heilbrigðisstarfsmanns, þegar að landlæknir ákveður sem dæmi að áminna heilbrigðisstarfsmann eða svipta hann starfsleyfi varanlega, en þar að auki kemur til refsing fyrir dómi vegna sama verknaðar. Þegar landlæknir hefur beitt slíkum viðurlögum og mál leiðir síðar til refsidóms yfir sama starfsmanni hefur átt sér stað tvöföld refsing. Að mati Fíh verður að tryggja að í löggjöf sé komið í veg fyrir tvöföld viðurlög vegna sama verknaðar.

Loks gerði Fíh athugasemd við að að ekki væru gerðar breytingar á faglegri og starfsmannaréttarlegri ábyrgð þegar brot á reglum sem tengjast henni af hálfu heilbrigðisstofnunar leiða til óvæntra og alvarlegra atvika. Fíh telur að frumvarpshöfundar og löggjafinn átti sig ekki fyllilega á því hversu mikið samspil er milli þess óhóflega álags og mönnunarvanda sem ríkir á heilbrigðisstofnunum annars vegar og þeirra alvarlegu atvika sem frumvarpið fjallar um hins vegar. Mönnunarvandi og óhóflegt starfsálag hjúkrunarfræðinga, sem og álag á annað heilbrigðisstarfsfólk, leikur stórt hlutverk. Atvik, m.a. óvænt atvik, hafa í einhverjum hluta tilvika hlotist af þessu og heilbrigðisstofnun þannig við útfærslu starfseminnar brotið í bága við ákvæði laga og reglugerða sem snúa að umræddri ábyrgð. Ábyrgðin liggur vitaskuld hjá heilbrigðisstofnuninni einni hvað þetta varðar, en er ekki unnt að yfirfæra á heilbrigðisstarfsmanninn. Telur Fíh að mótsagnir kunni að felast í því að stjórnvöld segi annars vegar að rétt sé að refsiábyrgð hvíli hjá heilbrigðisstofnun vegna óvæntra atvika, en ætli sér svo hins vegar enga breytingu að gera á faglegri og starfsmannaréttarlegri ábyrgð þegar brot á reglum henni tengdri af hálfu heilbrigðisstofnunar leiða til óvæntra og alvarlegra atvika.

Þrátt fyrir gagnrýni félagsins og það mat að lengra hefði mátt ganga við lagasetninguna þá fagnar Fíh þó þeirri mikilvægu vörðu sem felst í lögum um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og væntir þess að í því felist loforð stjórnvalda um áframhaldandi umbætur á réttarstöðu hjúkrunarfræðinga.