Fara á efnissvæði
Hlaðvarp

Rapportið - Þórunn Bjarney Garðarsdóttir

Gestur Rapportsins er Þórunn Bjarney Garðarsdóttir, hjúkrunarfræðingur og forstöðumaður í Hlíðabæ og Múlabæ, dagþjálfun aldraðra og öryrkja.

„Námið er svo fjölþætt og reynslan okkar úr verknámi og vinnu er þannig að hjúkrunarfræðingar geti nánast gengið í hvaða starf sem er. Þeir eru yfirleitt gríðarlega fljótir að tileinka sér breytingar og nýjar aðstæður. Þeir eru langflestir verkstjórar, það eru mjög fjölbreytt verkefni sem þeir taka að sér og engir tveir dagar eru eins, ég hef a.m.k. ekki enn upplifað það á mínum ferli,“ segir Þórunn.

„Þú ert stöðugt að taka að þér ný verkefni og finna leiðir til að leysa þau. Ég tala alltaf um verkefni, ekki vandamál, heldur verkefni til að leysa. Ég tala nú ekki um þegar maður er með öflugt teymi samstarfsfólks. Bæði í Hlíðabæ og hér í Múlabæ er ég með frábært teymi fólks, við erum öll í sama bátnum að leysa saman verkefnin.“

Múlabær sinnir dagþjálfun aldraðra og öryrkja, Hlíðabær sinnir sérhæfðri dagþjálfun fyrir fólk sem hefur greinst með heilabilunarsjúkdóm. Það eru rúmlega 130 skjólstæðingar í Múlabæ, unnið er að því að stækka húsnæðið í Síðumúla, meðalaldurinn er 84 ár og koma flestir þrjá daga í viku.

„Þetta úrræði er hugsað sem stuðningur við fólk í sjálfstæðri búsetu. Það er mjög misjafnt hvað fólk þarf stuðning við, sumir eru að kljást við kvíða og líður vel í skipulögðu umhverfi,“ segir hún.

„Þú skuldbindur þig til að mæta. Hér er alveg toppmæting, ég myndi ráða þau öll vinnu ef það væri í boði. Þau eru að leggja sig fram. Margir eru búnir að vera einir heima jafnvel árum saman og lítið farið út á meðal fólks, ekki hjálpaði kóvidið til. Rannsóknir hafa sýnt að þetta er eitt af þeim mikilvægu þáttum að ef maður ætlar að eldast vel þá er að vera virkur, hitta fólk og vera virkur í samfélaginu. Það er umhverfið sem við búum fólki hér í Múlabæ og í Hlíðabæ.“