Fara á efnissvæði
Frétt

Viðhorfskönnun 2023

Tæplega 80% hjúkrunarfræðinga hafa áhyggjur af því að lenda í alvarlegu atviki í starfi. Tölurnar eru enn meira sláandi þegar horft er til hjúkrunarfræðinga sem vinna vaktavinnu sem kallar á viðbrögð um bætt starfsumhverfi þeirra.

Þrír fjórðu hjúkrunarfræðinga hafa tekið að sér aukna vinnu þar sem höfðað var til samvisku þeirra, ef þeir myndu ekki mæta til vinnu þá yrði um alvarlega undirmönnun að ræða á vinnustaðnum. Í könnuninni var jafnframt spurt um ýmis atriði sem varða viðhorf hjúkrunarfræðinga til komandi kjarasamninga.

Viðhorfskönnun félagsins var framkvæmd af Maskínu dagana 20. september til 10. október 2023 og var svarhlutfallið 64,4%. Um var að ræða netkönnun sem lögð var fyrir starfandi hjúkrunarfræðinga. Niðurstöður úr könnuninni verða meðal annars nýttar til undirbúnings fyrir komandi kjaraviðræður en flestir kjarasamningar félagsins eru lausir þann 1. apríl 2024.

Áfram mikil áhersla á að hækka grunnlaunin

Afstaða hjúkrunarfræðinga til hækkunar grunnlauna er afgerandi þar sem 98,5% hjúkrunarfræðinga leggur grunnlaunahækkun til sem eina af megináherslum í komandi kjarasamningsviðræðum. Er það í samræmi við niðurstöður fyrri kannana. Þá telur um helmingur hjúkrunarfræðinga sem sinna almennum störfum hjúkrunarfræðinga að dagvinnulaun þeirra fyrir fullt starf á mánuði ættu að vera 900 þúsund krónur eða meira. Rétt innan við 60% hjúkrunarfræðinga sem sinna stjórnendastörfum telja hins vegar að dagvinnulaun þeirra á mánuði fyrir fullt starf ættu að vera ein milljón eða meira.

Þegar spurt var um hvaða starfstengd réttindi ætti að leggja áherslu á í næstu kjarasamningum, þá nefndu flestir mönnunarviðmið. Þar á eftir kom öryggi á vinnustað og svo bætt vinnuaðstaða. Þetta kemur félaginu ekki á óvart þar sem lögbundin mönnunarviðmið hjúkrunarfræðinga snúast um að mönnun sé í takti við þjónustuþörf. Alþjóðlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að þar sem mönnun er nægjanleg, eru hjúkrunarfræðingar líklegri til að vilja starfa áfram og mönnunarviðmiðin því lykilatriði í því að bæta starfsaðstæður.

Ánægja í starfi en margir íhugað að hætta

Það eru ánægjulegar niðurstöður að 74% hjúkrunarfræðinga segjast vera nokkuð eða mjög ánægðir í starfi sínu, þegar á heildina er litið. Starfsaldur þeirra er almennt langur en 61,3% hafa starfað í 11 ár eða lengur sem hjúkrunarfræðingar.

Það vekur athygli að í heildina hafa 64,1% hjúkrunarfræðinga alvarlega íhugað að hætta í starfi á síðustu árum en hlutfallið er lægra hjá þeim sem eru í fullu starfi eða 56,4%. Sem helstu ástæður þess að þeir hafi íhugað að hætta í starfi, nefna 40% starfstengt álag og 32% launakjör. Þetta er félaginu mikið áhyggjuefni því á sama tíma eru 74% hjúkrunarfræðinga ánægð í starfi.

Ánægjan mælist ívið minni núna en hún mældist í könnuninni sem var gerð árið 2020. Eins og í fyrri könnunum er því enn og aftur birtingarmyndin sú að hjúkrunarfræðingar eru ánægðir með að vinna við hjúkrun en sjá sér ekki endilega fært að gera það, við það starfstengda álag og launakjör sem stéttin býr við í dag. Hér er því sóknartækifæri fyrir yfirvöld og heilbrigðisstofnanir til að koma í veg fyrir flótta úr stéttinni og halda hjúkrunarfræðingum í starfi með því að bæta launakjörin og starfsumhverfið.

Áhyggjur um að lenda í alvarlegu atviki í starf

Ef svör hjúkrunarfræðinga í heild eru skoðuð þá hefur tæplega 80% þeirra áhyggjur af því að lenda í alvarlegu atviki í starfi sínu en hlutfallið er enn hærra hjá þeim sem vinna vaktavinnu, eða 85%. Aðeins 13,7% hjúkrunarfræðinga í vaktavinnu hafa sjaldan slíkar áhyggjur og einungis 1,5% þeirra svara að þeir séu aldrei með áhyggjur af því að lenda í alvarlegu atviki við störf. Þetta er gífurlegt áhyggjuefni en kemur félaginu ekki á óvart.

Staðan er óásættanleg enda greinilegt að hjúkrunarfræðingar telja vinnuvernd vera ábótavant og starfsumhverfið ófullnægjandi. Mjög brýnt er að yfirvöld klári og samþykki sem fyrst nýtt frumvarp til laga um breytta refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks og fylgi enn frekar eftir eigin stefnu í heilbrigðismálum þar sem tíundað er mikilvægi mannauðsins og honum sé boðið upp á gott og öruggt starfsumhverfi í heilbrigðisþjónustunni.

Þegar hjúkrunarfræðingar voru spurðir hvort það væru til staðar úrræði á vinnustaðnum þegar upp kæmu alvarleg atvik svöruðu 50,6% játandi og 11,2% neitandi en 38,2% sögðust ekki vita hvort úrræði væru til staðar. Mikil þörf er á að stjórnendur stofnana kynni betur fyrir hjúkrunarfræðingum og öðru starfsfólki þau úrræði sem eru til staðar. Ef þau eru það ekki, þá er brýnt að þau séu sett fram hið fyrsta og tryggt sé að starfsfólk þekki þau vel.

Einungis fjórðungur hjúkrunarfræðinga mætir sjaldan eða aldrei til vinnu við aðstæður þar sem mönnun var ekki næg til að tryggja lágmarksöryggi skjólstæðinga. Hins vegar höfðu 73,5,% mætt stundum, fremur eða mjög oft, við slíkar aðstæður og telja greinarhöfundar niðurstöðuna grafalvarlega.

Í ljósi heilbrigðisstefnu yfirvalda til 2030, þar sem m.a. er fjallað um öryggi í heilbrigðisþjónustu, er ljóst að bregðast þarf við án tafar með því að lögfesta mönnunarviðmið og skapa ásættanlegt starfsumhverfi fyrir stéttina. Eins og þegar hefur komið fram hafa báðir þessir þættir mikið að segja þegar halda þarf hjúkrunarfræðingum í starfi.

Þrír fjórðu, eða 75% hjúkrunarfræðinga, svöruðu að höfðað hefði verið til samvisku þeirra um að taka að sér aukna vinnu, þar sem annars yrði um alvarlega undirmönnun að ræða á vinnustaðnum. Það er mikið áhyggjuefni að höfðað sé til samvisku hjúkrunarfræðinga til að fá þá til auka við sig yfirvinnu. Með þessu er vegið m.a. að sálfræðilegu öryggi hjúkrunarfræðinga í starfi. Sífelld truflun vegna beiðni um yfirvinnu hefur nú þegar fælt hjúkrunarfræðinga úr starfi og því mikilvægt að mörk milli vinnu og einkalífs séu betur virt af stjórnendum.

Tæpur helmingur hjúkrunarfræðinga hefur nýtt sér faglegan stuðning á sínum vinnustað og um fjórðungur hefur nýtt sér faglegan stuðning oftar en einu sinni. Um 34% svöruðu neitandi og sögðust ekki hafa þurft á því að halda, aftur á móti voru 18% hjúkrunarfræðinga sem sögðust ekki hafa nýtt sér faglegan stuðning en töldu sig hafa þurft á því að halda. Að mati greinarhöfunda er ánægjulegt að sjá að hjúkrunarfræðingar nýti sér þann stuðning sem í boði er en áhyggjuefni að tæpur fimmtungur gerði það ekki, þrátt fyrir þörfina. Niðurstöðurnar undirstrika í raun álagið og ábyrgðina sem liggur í starfi stéttarinnar. Enn og aftur er mikilvægt að stjórnendur kynni vel fyrir starfsfólki þau úrræði og stuðning sem í boði eru svo allir hjúkrunarfræðingar geti nýtt sér hann, sbr. bókun 8 í síðasta kjarasamningi hjúkrunarfræðinga þar sem samið var um faglegan stuðning í starfi.

Nafn félagsins óbreytt

Hjúkrunarfræðingar voru spurðir hvort breyta ætti nafni félagsins vegna breyttrar þjóðfélagsumræðu. Mikill meirihluti, eða rúm 72%, vildi halda nafninu, Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga. Lítill munur var á afstöðu fólks eftir bakgrunnsbreytum.

Allir, óháð afstöðu til fyrri spurningar, voru spurðir hvaða nafn þeim litist best á ef svo færi að nafni félagsins yrði breytt. Margir, eða 23,5%, tóku ekki afstöðu til þeirrar spurningar. Tæpur helmingur þeirra sem svöruðu, eða 46,7%, sögðu Félag hjúkrunarfræðinga á Íslandi. Tæpur þriðjungur, eða 31,2%, sögðu Félag hjúkrunarfræðinga og 18,1% sögðu Hjúkrunarfræðingafélag Íslands.