Fara á efnissvæði

Kafli I – Nafn félagsins og tilgangur

1. gr. Nafn, heimili og varnarþing
Félagið heitir Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, skammstafað Fíh. Starfssvæði þess er allt landið. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2.gr. Tilgangur
Félagið er fag- og stéttarfélag. Tilgangur þess er að vinna að framgangi hjúkrunar, faglegri þróun og kjörum hjúkrunarfræðinga með því að:

 • Efla þróun hjúkrunar og þekkingu og hæfni hjúkrunarfræðinga.
 • Gæta hagsmuna og standa vörð um sjálfstæði, réttindi, skyldur, kjör og starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga.
 • Hafa siðareglur félagsins að leiðarljósi.
 • Taka þátt í stefnumótun um heilbrigðisþjónustu með samfélagslega ábyrgð og hagsmuni almennings í fyrirrúmi.

Kafli II – Aðild

3. gr. Full aðild, fagaðild og aukaaðild
Rétt til aðildar að félaginu eiga þeir sem á grundvelli laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 og reglugerðar um hjúkrunarfræðinga, hafa leyfi til þess að stunda hjúkrun hér á landi og kalla sig hjúkrunarfræðing. Ennfremur eiga rétt til aðildar nemendur í hjúkrunarfræði sem lokið hafa fyrsta námsári í hjúkrunarfræði við viðurkenndan háskóla.

Aðild hjúkrunarfræðinga að félaginu getur verið með eftirfarandi hætti:

Full aðild: Hjúkrunarfræðingur sem greiðir félagsgjöld samkvæmt ákvörðun aðalfundar af launum sínum og atvinnuveitandi greiðir tilskilin gjöld í sjóði félagsins fyrir hans hönd.

Fagaðild: Hjúkrunarfræðingur sem greiðir ekki félagsgjöld, en hefur sótt um fagaðild að félaginu og greiðir sérstakt fagaðildargjald árlega til félagsins sem ákveðið er á aðalfundi.

Lífeyrisaðild: Hjúkrunarfræðingur sem hefur hafið töku lífeyris, er hættur störfum og greiðir ekki félagsgjald.

Nemaaðild: Rétt til nemaaðildar að félaginu eiga nemendur í hjúkrunarfræði sem lokið hafa fyrsta námsári í greininni við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri eða annan viðurkenndan háskóla. Nemendur í hjúkrunarfræði sem þiggja laun samkvæmt kjarasamningi sem félagið hefur gert fyrir þeirra hönd hafa rétt á að greiða atkvæði um viðkomandi kjarasamning og í sjóði félagsins. Sækja þarf sérstaklega um aðild að félaginu.

4.gr. Umsókn um aðild
Sækja skal um aðild að Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga með skriflegum eða rafrænum hætti. Með umsókn skulu fylgja gögn sem sanna að skilyrðum til inngöngu sé fullnægt, sbr. 3.gr. Aðild miðast við dagsetningu móttöku umsóknar.

5.gr. Úrsögn
Úrsögn úr félaginu skal fara fram með skriflegri eða rafrænni tilkynningu og öðlast hún gildi þegar liðnir eru 3 mánuðir frá því að tilkynningin barst.

Úrsögn öðlast þó ekki gildi eftir að lögmæt ákvörðun um verkfall hefur verið tekin og á meðan á verkfalli stendur, heldur frestast gildistaka hennar þar til verkfalli er lokið.

6.gr. Brottvikning
Stjórn félagsins getur gripið til viðurlaga gagnvart félagsmanni ef hann hefur að mati stjórnar brotið gegn lögum félagsins, trúnaði, siðareglum, öðrum reglum, samþykktum eða ákvörðunum. Viðurlögin geta verið frá áminningu til brottvikningar ef brotið er talið alvarlegt. Viðkomandi félagsmanni skal veittur hæfilegur frestur til að skýra mál sitt skriflega og munnlega fyrir stjórn áður en ákvörðun um viðurlög eru tekin og er honum heimilt að koma með talsmann með sér á fund stjórnar óski hann þess. Ákvörðun stjórnar skal tilkynnt félagsmanni skriflega.

Félagsmaður getur, innan fjögurra vikna frá dagsetningu tilkynningar um ákvörðun stjórnar um brottvikningu, skotið ákvörðuninni til næsta félagsfundar. Skal þar greiða atkvæði um ákvörðun stjórnarinnar. Gefa skal félagsmanni kost á að skýra mál sitt á fundinum ef hann æskir þess. Verði ákvörðun stjórnar felld með einföldum meirihluta skal líta svo á að engin brottvísun hafi átt sér stað.

Sæki fyrrverandi félagsmaður um aðild að félaginu skv. 4. gr. laga þessara, eftir að honum hefur verið vikið brott skv. grein þessari, þarf samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra félagsmanna á félagsfundi til að veita honum aðild á ný.

Kafli III – Skipulag félagsins

7.gr. Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í maímánuði ár hvert. Tímasetningu aðalfundar skal auglýsa með minnst 8 vikna fyrirvara. Heimilt er að boða til framhaldsaðalfundar ef 2/3 aðalfundarmanna krefjast þess.

Stjórn félagsins skipuleggur og ber ábyrgð á undirbúningi og framkvæmd aðalfundar.

Rétt til setu á fundinum eiga allir félagsmenn. Félagsmenn sem hafa skráð sig til þátttöku á fundinn með minnst viku fyrirvara hafa atkvæðisrétt á fundinum skv. því sem greinir um þann rétt í 13. gr. Aðrir fundarmenn hafa þar ekki atkvæðisrétt.

Boða skal til aðalfundar með minnst tveggja vikna fyrirvara. Fundarboði skal fylgja dagskrá fundarins og skal frestur til skráningar þátttöku á fundinn koma þar fram. Aðalfundur er lögmætur ef réttilega er til hans boðað.

Skriflegar tillögur til lagabreytinga og önnur mál sem félagsmenn óska eftir að tekin verði fyrir á aðalfundi, skulu hafa borist stjórn félagsins minnst fjórum vikum fyrir aðalfund. Mál, sem ekki er tilgreint á útsendri dagskrá aðalfundar verður því aðeins tekið þar fyrir að meiri hluti atkvæðisbærra fundarmanna á fundinum samþykki það. Lagabreytingar verða ekki teknar fyrir nema þær fylgi fundarboði. Formlegar tillögur til breytinga á fyrirliggjandi lagabreytingatillögum sem fram koma á aðalfundi verða bornar undir fundinn. Þær skulu vera skriflegar.

Viku fyrir aðalfund hið skemmsta skulu fundargögn ásamt tillögum til lagabreytinga vera aðgengileg félagsmönnum á rafrænu formi á vefsvæði félagsins.

Mál sem taka skal fyrir á aðalfundi eru:

 1. Kosning fundarstjóra og ritara, eftir tilnefningu stjórnar.
 2. Skýrsla stjórnar.
 3. Reikningar félagsins og sjóða á vegum þess.
 4. Ákvörðun um félagsgjöld.
 5. Starfsáætlun næsta starfsárs lögð fram til samþykktar.
 6. Tillögur til lagabreytinga.
 7. Formannskjöri lýst.
 8. Kosning 3 stjórnarmanna og 1 varamanns í stjórn.
 9. Kosning skoðunarmanna.
 10. Kosning í nefndir og sjóði félagsins.
 11. Önnur mál.

Skrá skal fundargerð og bóka skal sérstaklega allar samþykktir og ákvarðanir fundarins. Fundarritarar ganga frá fundargerð að loknum aðalfundi og undirrita ásamt fundarstjóra.

Fundargerð aðalfundar skal birt á vefsvæði félagsins ekki seinna en viku eftir fundinn og veittur tveggja vikna frestur til athugasemda. Að þeim fresti liðnum telst fundargerð samþykkt og skal hún ásamt athugasemdum birt á vefsvæði félagsins.

8.gr. Stjórn félagsins
Stjórn félagsins skal skipuð félagsmönnum með fulla aðild: Formanni félagsins, sex stjórnarmönnum og tveimur varamönnum úr hópi félagsmanna með fulla aðild.

Formaður er kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu sbr. 10. gr. laga þessara.

Á aðalfundi ár hvert skal kjósa þrjá stjórnarmenn og einn varamann.

Stjórnarmenn, bæði aðal- og varamenn eru kosnir á aðalfundi. Kjörnefnd skal kalla eftir framboðum eigi síðar en í janúarlok. Framboðsfrestur skal eigi vera skemmri en 4 vikur fyrir aðalfund.

Kjörtímabil stjórnarmanna er tvö ár. Hámarks seta í stjórn félagsins er fjögur kjörtímabil samfellt.

Nýskipuð stjórn skiptir með sér verkum og kýs úr sínum hópi varaformann, ritara og gjaldkera stjórnar. Ritari skráir fundargerðir stjórnar.

Stjórn félagsins fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda. Hlutverk stjórnar er að móta stefnu og megináherslur félagsins í samræmi við stefnumörkun og ákvarðanir aðalfundar. Stjórn ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins og starfseminni gagnvart aðalfundi.

Stjórn félagsins skal funda að jafnaði einu sinni í mánuði. Boða skal til stjórnarfundar með minnst viku fyrirvara. Ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi er þó heimilt að boða stjórnarfund með skemmri fyrirvara. Formanni er skylt að boða til stjórnarfundar innan viku ef þrír eða fleiri stjórnarmenn æskja þess. Sinni formaður ekki slíkri beiðni innan hins tilgreinda frests er stjórnarmönnum þeim sem óskuðu eftir stjórnarfundi heimilt að boða til fundarins með eins sólarhrings fyrirvara. Stjórnarfundir eru lögmætir ef mættur er meirihluti stjórnarmanna.

Afl atkvæða ræður úrslitum í stjórn en falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns. Stjórn félagsins getur efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu um mikilvæg málefni sem eigi falla sérstaklega undir aðalfund.

9. gr. Formaður félagsins
Formaður ber ábyrgð á daglegri stjórn félagsins í samræmi við stefnu félagsins og stjórnar. Formaður félagsins er jafnframt formaður stjórnar. Hann er talsmaður félagsins og stjórnar þess.

Formaður kallar saman stjórn félagsins og stjórnar fundum hennar.

Kjörtímabil formanns er fjögur ár.

Formaður skal vera í fullu starfi hjá félaginu.

10. gr. Formannskjör
Formaður félagsins er kjörinn í allsherjaratkvæðagreiðslu. Einungis félagsmenn með fulla aðild eru kjörgengir í embætti formanns.

Kjörnefnd skal auglýsa eftir frambjóðendum til formannskjörs eigi síðar en í janúarlok. Framboðsfrestur skal eigi vera skemmri en 4 vikur.

Frambjóðendur til embættis formanns skulu skila til kjörnefndar skriflegu framboði ásamt meðmælaskrá með a.m.k. 0,6% félagsmanna.

Hljóti enginn frambjóðenda til formanns meira en 50% greiddra atkvæða í allsherjaratkvæðagreiðslu um formannskjör skal kosið að nýju milli þeirra tveggja sem flest atkvæði hlutu. Niðurstaða formannskosningar skal liggja fyrir a.m.k 8 vikum fyrir aðalfund.

Kjörtímabil formanns er fjögur ár og getur sami einstaklingur að hámarki gegnt starfi formanns félagsins í tvö kjörtímabil samfellt.

Láti formaður af embætti áður en kjörtímabili lýkur skal varaformaður taka við embætti formanns og gegna því embætti fram að næsta aðalfundi félagsins, en á þeim aðalfundi skal kosinn nýr formaður félagsins.

11. gr. Skipulag starfsemi félagsins
Félagið rekur skrifstofu til þjónustu við félagsmenn. Stjórn félagsins ber ábyrgð á að skipulag skrifstofunnar endurspegli starfsskyldur skrifstofu gagnvart félagsmönnum.

Meginstoðir í starfsemi félagsins varða kjara- og réttindamál og fagleg málefni sbr. 2. gr. laga þessara. Stjórn félagsins ræður aðra starfsmenn skrifstofunnar eftir tillögum formanns.

12. gr. Deildir
Félagsmönnum, þó að lágmarki 25, er heimilt að stofna deild tengda fagsviði eða landsvæði. Fagdeildir skulu starfa á landsvísu.

Deildir félagsins bera ábyrgð á innra skipulagi sínu og skulu starfa í samræmi við starfsreglur sem stjórn félagsins og aðalfundur hefur samþykkt.

Deildir félagsins vinna að eflingu og framgangi hjúkrunar innan fagsviðs eða landsvæðis, veita fræðslu um viðfangsefni hjúkrunar og efla fag- og félagsheild. Þær skulu vera stjórn og nefndum félagsins til ráðgjafar. Þeim er skylt er að skila skýrslu um starfsemi sína fyrir lok marsmánaðar ár hvert. Skili deild ekki slíkri skýrslu tvö ár í röð getur aðalfundur félagsins ákveðið að leggja hana niður.

Heimilt er að starfrækja deild öldunga og deild ungliða innan félagsins. Um þær gildir sami lágmarksfjöldi félagsmanna og annarra deilda félagsins. Þær bera ábyrgð á innra skipulagi sínu og skulu starfa í samræmi við starfsreglur sem stjórn félagsins og aðalfundur hefur samþykkt.

Kafli IV –Félagsmenn

13. gr. Réttindi og skyldur
Félagsmenn með fulla aðild, fagaðild, lífeyrisaðild og nemendur í hjúkrunarfræði sem þiggja laun samkvæmt kjarasamningi sem félagið hefur gert fyrir þeirra hönd, hafa málfrelsi, tillögurétt og rétt til að greiða atkvæði á aðalfundi, félagsfundum og í allsherjaratkvæðagreiðslum ef lög þessi kveða ekki á um aðra skipan. Réttur til að greiða atkvæði á aðalfundi er háður því að félagsmaður hafi skráð sig til þátttöku á fundinn.

Félagsmenn með fulla aðild eru kjörgengir í sjóði, nefndir og ráð á vegum félagsins ef lög þessi kveða ekki á um aðra skipan.

Félagsmenn með fagaðild og lífeyrisaðild eru kjörgengir í nefndir og ráð á vegum félagsins ef lög þessi kveða ekki á um aðra skipan.

Félagsmenn með fulla aðild en þiggja ekki laun skv. kjarasamningi Fíh hafa ekki ákvörðunarvald um kjaramál.

Félagsmenn með fagaðild og lífeyrisaðild hafa ekki ákvörðunarvald um kjaramál.

Félagsmenn með nemaaðild hafa málfrelsi og tillögurétt á fundum í félaginu en hafa ekki atkvæðisrétt og eru ekki kjörgengir.

Um rétt félagsmanna til að sækja um styrki úr sjóðum félagsins og sjóðum sem félagið hefur umsjón með fer samkvæmt þeim reglum sem gilda um viðkomandi sjóði, sbr. VII. kafla laga þessara.

Öllum félagsmönnum ber að virða lög og reglur félagsins, samþykktir og ákvarðanir funda þess og stjórnar og siðareglur félagsins.

14. gr. Félagsgjöld
Félagsmönnum er skylt að greiða það félagsgjald sem ákveðið er á aðalfundi en stjórn félagsins gerir tillögu um félagsgjald vegna fullrar aðildar, fagaðildar og nemaaðildar til aðalfundar.

Stjórn félagsins er þó heimilt að undanþiggja einstaka félagsmenn skyldu til greiðslu félagsgjalda að fullu ef gildar ástæður mæla með því.

Heiðursfélagar greiða ekki félagsgjöld en njóta allra þeirra réttinda sem lög þessi leyfa.

15. gr. Heiðursfélagar
Stjórn félagsins getur tilnefnt þann sem félagið vill sýna sérstaka virðingu heiðursfélaga og gert um það tillögu til aðalfundar. Tillagan telst samþykkt fái hún atkvæði meiri hluta atkvæðisbærra fundarmanna á fundinum. Félagsmenn geta komið með tillögu að tilnefningu heiðursfélaga til stjórnar. Tillögunni skal fylgja skriflegur rökstuðningur og stuðningur að minnsta kosti 0,6% félagsmanna.
Um heiðursfélaga gilda ákveðnar reglur.

16.gr. Félagsfundir
Félagsfund skal halda hvenær sem stjórn félagsins eða formaður þess álítur það nauðsynlegt, svo og ef 50 eða fleiri félagsmenn æskja þess skriflega.

Félagsfund skal boða með ekki skemmri en viku fyrirvara. Ef nauðsyn krefur má þó boða félagsfund með 24 klukkustunda fyrirvara. Félagsfund skal boða á þann hátt sem nær til flestra félagsmanna. Skrá skal fundagerð um það sem fjallað er um á félagsfundum. Bóka skal sérstaklega allar samþykktir og ákvarðanir fundarins.

Heimilt er að halda félagsfund með notkun fjarfundabúnaðar. Stjórn skal setja nánari reglur um framkvæmd slíkra funda.

17.gr. Hjúkrunarþing
Á hjúkrunarþingi skal fjallað um fagleg og stefnumótandi viðfangsefni í hjúkrunar- og heilbrigðismálum. Skal slíkt þing haldið að jafnaði annað hvert ár.

Kafli V – Nefndir

18. gr. Kjörnefnd
Starfandi skal vera kjörnefnd skipuð þremur fulltrúum og einum til vara sem kosnir eru á aðalfundi til tveggja ára í senn þegar ártal er oddatala. Hámarks seta í kjörnefnd er fjögur kjörtímabil samfellt.

Kjörnefnd skal annast undirbúning og framkvæmd formannskjörs og kosninga til stjórnar félagsins, í nefndir þess og önnur þau störf sem kosið er um. Nefndin tilkynnir um framboðsfrest, veitir framboðum viðtöku og tryggir að unnt sé að manna embætti á vegum félagsins. Nefndin útbýr lista yfir frambjóðendur og önnur kjörgögn eftir því sem þörf er á. Framboð til stjórnar og annarra embætta sem kosið er í á aðalfundi skulu birt á vefsvæði félagsins minnst tveimur vikum fyrir aðalfund.

Kjörnefnd annast jafnframt aðrar atkvæðagreiðslur á vegum félagsins sem stjórn felur henni. Kjörnefnd annast talningu atkvæða og sker úr vafamálum.

Kjörnefnd skal skila ársskýrslu fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.

19. gr. Ritnefnd
Ritnefnd skal skipuð sjö félagsmönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Á hverju ári skal kjósa hluta ritnefndar þannig að annað árið þegar oddatala er, eru kjörnir 4 fulltrúar og þegar jöfn tala er eru kjörnir 3 fulltrúar. Kjörtímabil ritnefndarfulltrúa er tvö ár. Hámarks seta í ritnefnd er fjögur kjörtímabil samfellt.

Ritnefnd markar ásamt ritstjóra stefnu tímaritsins og annast umsjón með útgáfu þess. Hún velur sér formann og skiptir með sér verkum að öðru leyti.

Ritnefnd gerir fjárhagsáætlun fyrir hvert útgáfuár.

Ritnefnd skal skila ársskýrslu fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.

20. gr. Samninganefnd
Starfandi skulu vera samninganefndir skipaðar af stjórn félagsins. Starfstími samninganefnda hverju sinni skal ákveðinn af stjórn.

Samninganefndir annast gerð kjarasamninga við viðsemjendur félagsins og skal starfa með kjara- og réttindasviði og trúnaðarmönnum í hverju umdæmi.

Stjórn félagsins skal setja samninganefndum starfsreglur.

Samninganefndir skulu skila ársskýrslu fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.

21. gr. Siðanefnd
Starfandi skal vera siðanefnd skipuð sjö hjúkrunarfræðingum. Stjórn félagsins skal skipa fulltrúa í siðanefnd til tveggja ára í senn þegar ártal er oddatala, þar af a.m.k. einn með viðurkennt framhaldsnám í siðfræði. Stjórnin tilnefnir einn þeirra sem formann en að öðru leyti skiptir nefndin með sér verkum. Hámarks seta í siðanefnd er fjögur tímabil samfellt.

Siðanefnd skal vera stjórn félagsins, fagdeildum og félagsmönnum til ráðgjafar varðandi siðferðileg álitamál. Hún skal einnig fjalla um kærumál, sem vísað er til hennar, er varða meint brot félagsmanna á siðareglum félagsins. Hún úrskurðar í málinu og sendir niðurstöður sínar skriflega til málsaðila og formanns Fíh til vitundar og varðveislu.

Siðanefnd skal skila ársskýrslu fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.

22. Sérskipaðar nefndir
Heimilt er stjórn að skipa sérstakar nefndir um einstök málefni eða málaflokka. Skal þá jafnframt setja nefndarmönnum skipunarbréf þar sem hlutverk þeirra, starfsskyldur, skipunartími og umboð er skilgreint.

Kafli VI – Stjórnir sjóða

23. gr. Vísindasjóður
Til Vísindasjóðs renna framlög vinnuveitenda á grundvelli kjarasamninga.
Í stjórn Vísindasjóðs sitja fjórir fulltrúar skipaðir af stjórn félagsins.
Stjórn Vísindasjóðs skal skipuð til tveggja ára í senn. Hámarks seta í stjórn Vísindasjóðs er fjögur kjörtímabil samfellt.

Stjórn sjóðsins skal setja starfsreglur um sjóðinn sem lagðar skulu fyrir stjórn félagsins til samþykktar. Stjórn Vísindasjóðs skal skila ársskýrslu fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.

24. gr. Orlofssjóður
Til Orlofssjóðs renna framlög vinnuveitenda á grundvelli kjarasamninga.
Stjórn Orlofssjóðs skal skipuð fimm fulltrúum úr hópi þeirra félagsmanna sem rétt eiga, samkvæmt starfsreglum, til úthlutunar úr sjóðnum. Stjórn Orlofssjóðs skal kjörin á aðalfundi til tveggja ára í senn, þegar ártal er oddatala. Hámarks seta í stjórn Orlofssjóðs er fjögur kjörtímabil samfellt.
Stjórn sjóðsins skal setja starfsreglur um sjóðinn sem lagðar skulu fyrir stjórn félagsins til samþykktar. Stjórn Orlofssjóðs skal skila ársskýrslu fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.

25. gr. Starfsmenntunarsjóður
Til Starfsmenntunarsjóðs renna framlög vinnuveitanda á grundvelli kjarasamninga.
Í stjórn Starfsmenntunarsjóðs sitja fjórir fulltrúar, þar af eru tveir fulltrúar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Stjórn félagsins skipar tvo fulltrúa úr hópi félagsmanna sem við skipun eiga rétt til úthlutunar úr sjóðnum samkvæmt starfsreglum hans.
Stjórnarmenn f.h. félagsins eru skipaðir til tveggja ára í senn. Hámarks seta í stjórn Starfsmenntunarsjóðs er fjögur kjörtímabil samfellt.
Stjórn sjóðsins skal setja starfsreglur um sjóðinn sem lagðar skulu fyrir stjórn félagsins til samþykktar. Stjórn Starfsmenntunarsjóðs skal skila ársskýrslu fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.

26. gr. Vinnudeilusjóður
Starfrækja skal Vinnudeilusjóð innan félagsins.
Stjórn félagsins skipar þrjá félagsmenn og tvo til vara í stjórn sjóðsins til tveggja ára í senn. Hámarks seta í stjórn Vinnudeilusjóðs er fjögur kjörtímabil samfellt.
Stjórn sjóðsins skal setja starfsreglur um sjóðinn sem lagðar skulu fyrir stjórn félagsins til samþykktar. Stjórn Vinnudeilusjóðs skal skila ársskýrslu fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.

27. gr. Styrktarsjóður
Til Styrktarsjóðs renna framlög vinnuveitanda á grundvelli kjarasamninga.
Stjórn Styrktarsjóðs skal skipuð þremur fulltrúum og tveimur til vara sem kjörnir eru á aðalfundi úr hópi þeirra félagsmanna sem rétt eiga, samkvæmt starfsreglum, til úthlutunar úr sjóðnum.
Stjórn Styrktarsjóðs skal skipuð til tveggja ára í senn þegar ártal er oddatala. Hámarks seta í stjórn Styrktarsjóðs er fjögur kjörtímabil samfellt.
Stjórn sjóðsins skal setja starfsreglur um sjóðinn sem lagðar skulu fyrir stjórn félagsins til samþykktar. Stjórn Styrktarsjóðs skal skila ársskýrslu fyrir lok aprílmánaðar ár hvert.

Kafli VII – Útgáfustarfsemi

28. gr. Almennt
Allt efni sem birtist á prenti, í rafrænum miðlum, ljósvakamiðlum, á ráðstefnum o.fl. auk minjagripa telst vera útgáfa félagsins.
Stjórn félagsins setur reglur um útgáfumál.

29. gr. Tímarit hjúkrunarfræðinga og ritstjóri
Félagið gefur út tímarit sem nefnist Tímarit hjúkrunarfræðinga.
Ritstjóri skal ráðinn af stjórn félagsins. Hann markar ásamt ritnefnd stefnu tímaritsins og annast útgáfu þess.

30. gr. Önnur útgáfa
Skrifstofa félagsins sér um og ber ábyrgð á annarri útgáfu félagsins og hefur umsjón með og ber ábyrgð á vefsíðu félagsins.

Kafli VIII – Trúnaðarmenn

31. gr. Trúnaðarmenn
Stjórn félagsins skal sjá um að félagsmenn kjósi eða velji trúnaðarmenn á vinnustöðum samkvæmt því sem heimilað er í lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, eða því sem samið kann að vera um í kjarasamningum. Trúnaðarmenn skulu starfa í samstarfi við starfsmenn skrifstofu félagsins.

Kafli IX – Verkföll

32. gr. Ákvörðun um verkfall
Stjórn eða samninganefnd félagsins getur lagt fram tillögu um verkfall þeirra félagsmanna sem rétt hafa til þátttöku í því. Skal ákvörðun um verkfall tekin með þeim hætti sem mælt er fyrir um í lögum um stéttarfélög og vinnudeildur, nr. 80/1938, og lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, nr. 94/1986.

Kafli X – Lagabreytingar

33. gr. Lagabreytingar
Lögum þessum verður ekki breytt nema á aðalfundi félagsins, enda hafi tillögur til lagabreytinga verið kynntar í fundarboði. Heimilt er þó á aðalfundi að ákveða að vísa tillögum til lagabreytinga, sem mikla þýðingu hafa, til samþykktar eða synjunar félagsmanna í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Til þess að lagabreytingar öðlist gildi þarf að samþykkja þær með 2/3 hlutum greiddra atkvæða hvort sem er á aðalfundi eða í allsherjaratkvæðagreiðslu.

Ákvæði laga þessara um slit félagsins verður ekki breytt nema með samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða tveggja aðalfunda í röð.

Kafli XI - Slit félagsins

34. gr. Slit félagsins
Félaginu verður ekki slitið nema það sé samþykkt með 3/4 hlutum greiddra atkvæða í allsherjaratkvæðagreiðslu. Við slit félagsins skulu eignir þess renna til arftaka félagsins eða þess lögaðila sem næst kemst því að gegna slíku hlutverki.

Kafli XII – Önnur ákvæði

35. gr. Ákvörðunartaka og kosningar
Einfaldur meirihluti atkvæða ræður úrslitum á fundum nema lög þessi kveði á um annað. Kosningar fara fram með handauppréttingu nema lög þessi kveði á um annað eða fundur ákveði að kosning verði leynileg. Jafnframt getur kosning farið fram með rafrænum hætti á fundi, enda sé tryggt að einungis þeir félagsmenn sem skráðir eru mættir á fund, geti greitt atkvæði á fundinum. Fyrirkomulag rafrænnar atkvæðagreiðslu getur t.d. falist í því að félagsmenn greiði atkvæði með rafrænum skilríkjum.

36. gr. Allsherjaratkvæðagreiðsla
Allsherjaratkvæðagreiðsla er leynileg og skulu viðeigandi kjörgögn send öllum félagsmönnum ásamt kynningu á viðkomandi atkvæðagreiðslu.

Allsherjaratkvæðagreiðsla skal fara fram með rafrænum hætti, t.d. með notkun rafrænna skilríkja. Kjörskrá við allsherjaratkvæðagreiðslu skal miða við félagatal í byrjun næstliðins mánaðar er atkvæðagreiðsla fer fram. Auglýsa skal upphaf og lok atkvæðagreiðslu með a.m.k. viku fyrirvara fyrir upphaf atkvæðagreiðslu og skal atkvæðagreiðsla eigi standa skemur en í þrjá sólarhringa. Falli atkvæði jafnt skal hlutkesti varpað um niðurstöðu. Við allsherjaratkvæðagreiðslu um kjarasamninga hafa þeir einir atkvæðisrétt sem eru í starfi hjá viðkomandi vinnuveitanda.

Stjórn félagsins skal setja nánari reglur um framkvæmd rafrænna atkvæðagreiðslna og með reglunum skal leitast við að tryggja eftir föngum öryggi atkvæðagreiðslunnar og kosningaleynd miðað við þá tækni sem á hverjum tíma er aðgengileg.

Framkvæmd rafrænna atkvæðagreiðslna er í höndum kjörnefndar og skal kjörnefnd úrskurða um hvaðeina sem vafi kann að koma upp um við framkvæmd kosningar. Úrskurði kjörnefndar verður einungis hnekkt með ályktun aðalfundar.

37. gr. Reikningar og endurskoðun
Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningar félagsins, nefnda þess og sjóða skulu endurskoðaðir af löggiltum endurskoðanda og tveimur skoðunarmönnum sem aðalfundur kýs úr röðum félagsmanna til eins árs í senn.

38. gr. Skuldbinding í nafni félagsins
Stjórn félagsins og formaður geta skuldbundið félagið. Jafnframt geta aðrir skuldbundið félagið sem til þess hafa formlegt og afmarkað umboð stjórnar eða formanns.

Kafli XIII – Gildistaka

39. gr. Gildistaka og lagaskil
Lög þessi öðlast gildi á aðalfundi félagsins 26. maí 2021.