Fara á efnissvæði

Nám og starf

Hjúkrunarfræði er fjögurra ára nám sem kennt er í Háskóla Ísland og Háskólanum á Akureyri. Fjölmargir íslenskir hjúkrunarfræðingar hafa unnið eða stundað nám í öðrum löndum.

Nám á Íslandi

Hjúkrunarfræði er fjögurra ára nám sem kennt er í Háskóla Ísland og Háskólanum á Akureyri. Námið er bæði fræðilegt og verklegt og lýkur með 240 eininga BS gráðu.

Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands býður upp á grunnnám og framhaldsnám í hjúkrunarfræði.

Hjúkrunarfræðideild Háskólans á Akureyri býður upp á staðarnám og sveigjanlegt nám til BS prófs í hjúkrunarfræði og diplóma- og meistaranám í heilbrigðisvísindum.

Að námi loknu þarf að sækja um hjúkrunarleyfi sem er forsenda þess að fá að kalla sig hjúkrunarfræðing og starfa sem slíkur hér á landi. Embætti landlæknis veitir hjúkrunarleyfi.

Hjúkrunarfræðingur sem lokið hefur meistaraprófi eða doktorsprófi í hjúkrunarfræði frá viðurkenndum háskóla eða sambærilegri menntun getur sótt um sérfræðileyfi á klínísku sérsviði hjúkrunar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Skilyrði fyrir veitingu sérfræðileyfis er að finna í reglugerð um menntun, réttindi og skyldur hjúkrunarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi og sérfræðingsleyfi nr.512, 22.maí 2013.

Nám og starf innan EES

Með gildistöku EES-samningsins hafa íslenskir hjúkrunarfræðingar leyfi til að starfa í aðildarríkjum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið án sérstaks atvinnuleyfis, uppfylli þeir skilyrði um menntun skv. tilskipunum um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfni. Ef ætlunin er að dveljast lengur en 3 mánuði í landinu þarf að sækja um dvalarleyfi hjá viðkomandi innflytjendayfirvöldum, sem er veitt til allt að 5 ára í fyrsta sinn en skemur fyrir þá sem dvelja eða starfa í styttri tíma en eitt ár eða eru í námi.

Umsókn skal send heilbrigðisráðuneyti viðkomandi lands eða þeim sem það vísar til.

Umsókninni fylgi:

  • Sönnun ríkisfangs á Íslandi (staðfest afrit af vegabréfi eða vottorð frá Þjóðskrá www.thjodskra.is).
  • Staðfest afrit af prófskírteininu sem þýtt hefur verið yfir á ensku. Ýtarlegar upplýsingar um stundafjölda, bæði í bóklegu og verklegu námi, þurfa að fylgja með umsókninni til landa utan Norðurlandanna.
  • Staðfest afrit af íslenska hjúkrunarleyfinu (Embætti landlæknis). Skal þessi staðfesting ekki vera eldri en þriggja mánaða gömul. Samkvæmt lögum er ekki hægt að mismuna hjúkrunarfræðingum frá EES-ríkjum með kröfum um tungumálakunnáttu. Hins vegar geta stofnanir sett tungumálakunnáttu sem skilyrði fyrir ráðningu.

Nám og starf utan EES

Íslenskir hjúkrunarfræðingar sem hafa hug á að vinna eða fara í nám í landi utan Evrópska efnahagssvæðissins (EES) þurfa að hafa hjúkrunarleyfi í viðkomandi landi. Atvinnurekandi sér í flestum tilfellum um að sækja um atvinnu-og dvalarleyfi sem er veitt með því skilyrði að kunnáttumenn fáist ekki innanlands eða ef aðrar sérstakar ástæður mæli með leyfisveitingu.