Fara á efnissvæði

Átak um fjölgun karlmanna í hjúkrun

Uppræta þarf kynbundið náms- og starfsval, frelsa karlmenn undan gömlum staðalímyndum og fordómum og kynna hjúkrun fyrir körlum.

Nokkur umræða hefur skapast um átak Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga um að fjölga karlmönnum í hjúkrunarfræði. Þar er karlmönnum sem klára námsár í faginu gert kleift að sækja um styrk fyrir 75.000 króna skráningargjaldi í Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Spurningar hafa vaknað hvort hér sé ekki verið að brjóta jafnréttislög, aðrir spurt af hverju þetta fé sé ekki frekar notað til að hækka laun og enn aðrir spurt hvers vegna félagsgjöld séu notuð í átak sem þetta.

Félagið hefur tekið saman lista með algengum spurningum og svörum við þeim hér fyrir neðan.

Nauðsynlegt átak

Skemmst er frá því að segja að átak sem þetta er nauðsynlegt, enda sýna rannsóknir að blandaðir vinnustaðir skila bestum árangri og starfsfólki líður betur. Grípa þarf til margvíslegra aðgerða til að koma í veg fyrir skort á hjúkrunarfræðingum í framtíðinni. Laun og vinnuaðstæður skipta auðvitað miklu máli, en jafnframt þarf að grípa til sértækari aðgerða eins og að sýna fram á og kynna að hjúkrun henti báðum kynjum. Uppræta þarf kynbundið náms- og starfsval, frelsa karlmenn undan gömlum staðalímyndum og fordómum og kynna hjúkrun fyrir körlum.

Fundað var með framkvæmdastýru Jafnréttisstofu áður en lagt var af stað og kom þar m.a. fram að samkvæmt jafnréttislögum má beita jákvæðri mismunum ef hallar á annað kynið, t.d. með því að veita námsstyrki til þess kyns sem hallar á.

Útilokar ekki aðrar aðgerðir

Stöðugt er unnið að því að hækka laun félagsmanna en hér verður að gæta þess að bera ekki saman epli og appelsínur enda útilokar ekki sértæk aðgerð á kynjasviði aðgerðir á sviði launa- og aðstöðumála. Kjara- og réttindasvið félagsins vinnur stöðugt að hækkun launa en félagið er bundið gerðardómi frá 2015 sem rennur ekki út fyrr en í mars 2019. Lítið sem ekkert gengur í endurnýjun stofnanasamninga við hinar ýmsu stofnanir. Eini árangurinn sem náðst hefur er gagnvart Landspítala með framkvæmd Hekluverkefnisins. Aðrar stofnanir bera fyrir sig fjárskorti.

Allt sem félagið gerir er greitt með félagsgjöldum. Þau eru tekjustofn þess. Fyrri aðgerðir hafa verið greiddar með félagsgjöldum félagsmanna. Þaðan koma þeir fjármunir sem félagið notar í starfsemi sína eins og t.d. málþing, kjaramál, laun, vefsíðu, námskeið, skrifstofukostnað, fundarhöld, tímarit, ráðstefnur og erlent samstarf.

Spurningar og svör