Um fagdeildina
Fagdeild gjörgæsluhjúkrunarfræðinga var stofnuð árið 1994 á grunni Deildar gjörgæsluhjúkrunarfræðinga sem stofnuð var innan Hjúkrunarfélags Íslands árið 1982. Hlutverk Fagdeildar gjörgæsluhjúkrunarfræðinga er að vinna að eflingu og framgangi hjúkrunar innan sérsviðs gjörgæslunnar, veita fræðslu um viðfangsefni gjörgæsluhjúkrunar og efla fag- og félagsheild meðal gjörgæsluhjúkrunarfræðinga. Auk þess sem deildin skal vera stjórn og nefndum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga til ráðgjafar.
Árleg hefð er fyrir jólafundi fagdeildar gjörgæsluhjúkrunarfræðinga þar sem blandað er saman fræðslu og skemmtun fyrir meðlimi deildarinnar, auk þess sem haldið er málþing/ráðstefna á vori hverju.
Félagar fagdeildar gjörgæsluhjúkrunarfræðinga eru um 100 talsins.
Hjúkrunarfræðingar sem starfa á gjörgæsludeildum taka að sér hjúkrun mikið veikra sjúklinga og þurfa því að vera með víðtæka þekkingu á lífeðlisfræði mannslíkamans, geta unnið vel undir miklu álagi og búa yfir hæfni í mannlegum samskiptum. Gjörgæslusjúklingar þurfa alla jafnan einn hjúkrunarfræðing með sér allan sólarhringinn sem þarf að vera í stakk búinn til að fást við lífshættuleg vandamál sem upp kunna að koma.
Gjörgæsluhjúkrunarfræðingar taka sjálfstæða ábyrgð á klínískri hjúkrun sjúklinga en fylgja fyrirmælum læknis um læknismeðferð. Auk þess þurfa hjúkrunarfræðingarnir að kunna skil á og nota flókinn tækjabúnað og nota sérþekkingu sína til að framkvæma nauðsynlega gjörgæslumeðferð samkvæmt verklagsreglum og klínískum leiðbeiningum.
Á Íslandi eru starfræktar þrjár gjörgæsludeildir; á Landspítalanum í Fossvogi, Landspítalanum við Hringbraut og Sjúkrahúsinu á Akureyri. Á deildirnar leggjast inn sjúklingar með margvísleg bráð og lífshættuleg vandamál. Gjörgæsludeildir Landspítalans skipta með sér sérsviðum þar sem Fossvogur tekur á móti sjúklingum sem hlotið hafa alvarlega áverka eftir slys, hafa alvarleg einkenni frá heila og taugakerfi og/eða með lífshættulega brunaáverka, en á Hringbraut koma sjúklingar með alvarleg vandamál frá hjarta, meltingarkerfi og/eða nýrum.
Stærsti sjúklingahópur gjörgæsludeildanna eru fullorðnir en einnig leggjast þar inn alvarlega veik og/eða slösuð börn og unglingar.
Stjórn
Formaður
Anna Halla Birgisdóttir
Varaformaður
Aníta Aagestad
Gjaldkeri
Anna Marín Kristjánsdóttir
Ritari
Kristín Halla Lárusdóttir
Meðstjórnandi
Brynhildur Elvarsdóttir
Skoðunarmaður reikninga
Regína Böðvarsdóttir
Erlent samstarf
Fagdeildin er meðlimur í Evrópusamtökum gjörgæsluhjúkrunarfélaga (EfCCNa), Heimssamtökum gjörgæsluhjúkrunarfræðinga (WFCCN) og verður þátttakandi í Norrænu þingi gjörgæslu- og svæfingahjúkrunarfræðinga (NOKIAS) árið 2019.
Rannveig Jóna Jónasdóttir gegnir hlutverki alþjóðafulltrúa Fagdeildar gjörgæsluhjúkrunarfræðinga og sækir fundi og ráðstefnur á erlendri grundu fyrir hönd fagdeildarinnar.