Um fagdeildina
Fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga var stofnuð 29. nóvember 1994. Fagdeildin vinnur að framgangi heilsugæsluhjúkrunar í samvinnu við fagsvið Fíh og er stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og nefndum til ráðgjafar um málefni á sérsviði fagdeildarinnar. Sérsvið fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga er hjúkrun í heilsugæslu og hverskonar hjúkrun í samfélaginu.
Markmið Fagdeildar heilsugæsluhjúkrun er að standa vörð um fagmennsku í heilsugæsluhjúkrun; stuðla að þróun þekkingar í heilsugæsluhjúkrun; vera málsvari hjúkrunar á vettvangi heilsugæsluhjúkrunar og efla rannsóknir á sérsviði fagdeildarinnar. Fagdeildin er virkur þáttakandi í þverfaglegu samstarfi og er í virkum tengslum við fagfélög erlendis.
Félagar í fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga voru 218 í mars 2024. Mikil samskipti eiga sér stað í gegnum Facebook síðu fagdeildarinnar. Allir sem hafa áhuga á samfélagshjúkrun geta fylgt síðu fagdeildarinnar.
Norrænt samstarf
Fagdeildin tekur þátt í norrænu samstarfi hjúkrunarfræðinga sem vinna með börn og unglinga (NoSB). NoSB er með heimasíðu www.sykepleierforbundet.no/nosb
Hreysti 2020
Stjórn Fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga hefur samþykkt að leggja áherslu á heilsueflandi aðgerðir til að hafa jákvæð áhrif á þróun samfélagsheilsu með skipulagningu og framkvæmd heilsuverkefnis sem stjórnað er af Sólfríði Guðmundsdóttur, PhD lýðheilsu og hjúkrunarfræðingur og kallað hefur verið Hreysti 2020. Á fræðslufundi fagdeildarinnar þann 15.11.11 voru eftirfarandi atriði Hreysti 2020 forgangsröðuð samkvæmt óskum meirihluta fundarmanna (sjá Töflu 1 í fylgiskjali 1).
Lögð er áhersla á að hjúkrunarfræðingar gangi á undan með góðu fordæmi með eigin heilsueflingu og sinna nánustu. Einnig noti þeir öll tækifæri í samskiptum sínum við skjólstæðinga til að hvetja fólk til heilsueflingar. Ætlunin er að draga úr aukinni tíðni áunninna sjúkdóma með vel skipulagðri heilsuvæðingu í þverfaglegri samvinnu fagfólks við stjórnvöld og almenning eins og sjá má á líkani Hreysti 2020 sem byggt er á kerfakenningunni (sjá fylgiskjal 2). Úrræði verkefnisins munu hvetja einstaklinga, fjölskyldur, vinnustaði og stjórnvöld til að taka aukna ábyrgð á áhrifaþáttum á heilsufar og innleiða breytingar sem gera þjóðinni auðveldara að velja heilsusamlegt líf til að fyrirbyggja vaxandi heilsuvá í landinu.
Áætlun um framkvæmd heilsugæsluhjúkrunarfræðinga er í stöðugri mótun og vænst er virkrar þátttöku allra í þessu mikilvæga verkefni, því sameinaðir getum við lyft forvarnarþjónustu á hærra plan. Þú lesandi góður ert því hvattur til að láta þitt ekki eftir liggja og „smita“ fólk í kringum þig af jákvæðum hugsunum til að efla heilbrigði.
Stjórn Fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga mun leggja grunn að framkvæmdum sem byggður er á stefnu félagsins í heilbrigðismálum til 2020 og áðurnefndri forgangsröðun fagdeildarinnar. Nánari áætlun stjórnarinnar mun birtast hér á síðunni með haustinu 2012.
Ef þú ert með hugmyndir og tillögur endilega sendu þær til stjórnar fagdeildarinnar eða á verkefnastjórann, solfridur@heil.is
Styrktarsjóður
Starfsreglur sjóðsins
- Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður Fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga.
- Stjórn Fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga hefur umsjón með sjóðnum.
- Umsóknir skal senda á netfang fagdeildarinnar. Umsóknareyðublöð eru á heimasíðu fagdeildar.
- Umsækjendur skulu vera félagar í Fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga vera skuldlausir við deildina og hafa greitt árgjald umsóknarár.
- Stjórnarmenn fagdeildarinnar skulu ekki sækja um eða hljóta styrki.
- Styrkir verða eingöngu veittir til verkefna og símenntunar á sviði heilsugæsluhjúkrunar (samfélagshjúkrunar).
- Umsóknir þurfa að berast fyrir 15. nóvember ár hvert. Umsækjandi getur einungis sótt um styrk annað hvert ár.
- Eldri verkefni en 12 mánaða eru ekki styrkhæf.
- Styrkjum verður úthlutað samkvæmt framlögðum reikningum í frumriti.
- Sjóðurinn er í vörslu gjaldkera fagdeildarinnar. Reikningsár sjóðsins er 1. janúar til 31. desember ár hvert. Reikningar sjóðsins verða yfirfarnir af skipuðum endurskoðendum fagdeildarinnar.
- Reglur sjóðsins skal endurskoða árlega fyrir aðalfund.
- Fyrsti fundur nýrrar stjórnar tekur ákvörðun um styrkupphæð og fjölda styrkja.
Stjórn
Formaður
Ása Sæunn Eiríksdóttir
Varaformaður
Eygló Björg Helgadóttir
Ásdís Eckardt
Ingibjörg Guðmunda Sveinsdóttir
Íris Dröfn Björnsdóttir
Sunneva Björk Helgadóttir
Starfsreglur
Nafn
Fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga
Hlutverk
- Fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga vinnur að framgangi hjúkrunar á viðkomandi sérsviði í samvinnu við fagsvið Fíh og er stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og nefndum til ráðgjafar um málefni á sérsviði fagdeildar (sbr. Lög Fíh, 16. gr Fagdeildir).
- Sérsvið fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga er hjúkrun í heilsugæslu og hverskonar hjúkrun í samfélaginu
- Markmið og stefna:
a. Vinna að framgangi hjúkrunar á sérsviði fagdeildarinnar
b .Standa vörð um fagmennsku í hjúkrun á sérsviði fagdeildarinnar
c. Stuðla að þróun þekkingar í hjúkrun á sérsviði fagdeildarinnar
d. Vera málsvari hjúkrunar á vettvangi sérsviðs fagdeildarinnar
e. Stuðla að fræðslu félagsmanna
f. Efla rannsóknir á sérsviði fagdeildarinnar
g. Vera virkir þátttakendur í þverfaglegu samstarfi
h. Vera í virkum tengslum við fagfélög erlendis
i. Fagdeild bjóði fram fulltrúa sem kosinn er til setu í félagsstjórn Fíh - Fagdeild ber að halda utan um skjöl deildarinnar og skrá fundargerðir
- Stjórn fagdeildar ber ábyrgð á fjárreiðum deildarinnar
Aðild
Hjúkrunarfræðingar í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem starfa, hafa starfað eða hafa áhuga á heilsugæslu og hverskonar hjúkrun í samfélaginu geta orðið aðilar að fagdeild heilsugæsluhjúkrunarfræðinga. Óskað er aðildar til stjórnar fagdeildar heilsugæsluhjúkrunarfræðinga.
Stjórn
Stjórn fagdeildarinnar skal skipuð fimm félögum og tveimur varamönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Stjórnarmenn og varamenn eru kosnir til tveggja ára í senn. Kjósa skal formann sérstaklega. Að öðru leyti skipta hinir með sér verkum, varaformaður, ritari og meðstjórnandi. A.m.k einn stjórnarmaður skal vera með viðbótar- eða framhaldsnám á sérsviði fagdeildarinnar. Eigi skulu fleiri en þrír ganga úr stjórn hverju sinni.
Kosning stjórnar skal vera skrifleg og leynileg eftir tilnefningu og fara fram eftir venjulegum reglum meirihluta atkvæða.
Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn í febrúar eða mars ár hvert og skal boða til hans með minnst tveggja vikna fyrirvara. Aðalfundarboði skal fylgja dagskrá ásamt tillögum til breytinga á starfsreglum. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað.
Dagskrá aðalfundar skal vera
- Kosning fundarstjóra og fundarritara
- Skýrsla stjórnar
- Endurskoðaðir ársreikningar lagðir fram
- Árgjald ákveðið
- Breytingar á hlutverki og starfsreglum deildarinnar
- Stjórnarkjör
- Kosning endursloðanda
- Önnur mál
Ársskýrsla
Fagdeildin skal skila skýrslu um starfsemi sína til sviðsstjóra fagsviðs Fíh fyrir lok marsmánaðar ár hvert
Merki fagdeildar
Merki fagdeildarinnar er grænt (sjá haus). Hönnun; Örn Guðnason hjá Litróf.
Breytingar á hlutverki og starfsreglum
Má aðeins gera á aðalfundi og skulu tillögur um breytingar berast stjórn fagdeildarinnar fyrir 1. febrúar ár hvert. Tillögur að breytingum skulu fylgja aðalfundarboði.
Slit fagdeildarinnar
- Fagdeild er hægt að leggja niður á aðalfundi fagdeildar sé það samþykkt af ¾ hluta greiddra atkvæða á aðalfundi fagdeildar.
- Skili fagdeild ekki ársskýrslu til stjórnar Fíh tvö ár í röð getur aðalfundur Fíh ákveðið að leggja hana niður.
Starfsreglur þessar voru lagðar fyrir og samþykktar á aðalfundi 11. nóv 2010