Prenta síðu

Rannsókna- og vísindasjóður//


Tilgangur sjóðsins er að styrkja hjúkrunarfræðinga til rannsókna- og vísindastarfa í hjúkrunarfræðum hér á landi. Styrkveiting miðast við stuðning á öllum stigum rannsókna. Sjóðurinn var stofnaður 12. maí 1987 af Maríu Finnsdóttur, fræðslustjóra Hjúkrunarfélags Íslands.

 

Reglur sjóðsins


 Nafn og heimili 

Nafn sjóðsins er Rannsókna- og vísindasjóður hjúkrunarfræðinga og starfar hann með því skipulagi og markmiðum sem segir í reglum þessum. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík. 


Tilgangur sjóðsins
Tilgangur sjóðsins er að styrkja hjúkrunarfræðinga til rannsókna- og vísindastarfa sem unnin verða hér á landi. 


Aðild 

Allir hjúkrunarfræðingar geta sótt um í sjóðinn. 


Stjórn sjóðsins og hlutverk hennar 

Stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga skipar þriggja manna stjórn sjóðsins, þ.e. formann og tvo meðstjórnendur til fjögurra ára í senn. Stjórn sjóðsins hefur á hendi alla framkvæmd styrkveitinga og reikningshald sjóðsins. Halda skal gerðabók um störf stjórnarinnar. Fjármálastjóri Fíh hefur umsjón með fjársýslu sjóðsins og eru reikningar hans endurskoðaðir af löggiltum endurskoðendum og yfirfarnir af skoðunarmönnum Fíh sem kjörnir eru á aðalfundi félagsins. 


Tekjur sjóðsins 

Stofnfé sjóðsins var kr. 100.000.- Tekjur sjóðsins eru áætluð frjáls framlög. Sjóðinn skal ávaxta skv. skipulagsskrá hans, með kaupum á verðtryggðum verðbréfum eða á annan sambærilegan hátt, enda séu slík bréf tryggð með ríkisábyrgð, bankaábyrgð eða öruggu fasteignaveði. Höfuðstól sjóðsins, að meðtöldum verðbótum og framlögum í hann, má ekki skerða. Vöxtum af höfuðstól má úthluta í styrki skv. tilgangi sjóðsins þegar stjórn sjóðsins ákveður. 


Úthlutunarreglur
Hjúkrunarfræðingar geta sótt um styrk til sjóðsins til rannsókna- og vísindastarfa hér á landi. Þeir sem æskja styrks úr sjóðnum skulu senda stjórn sjóðsins umsókn með þeim upplýsingum sem stjórn sjóðsins telur nauðsynlegar. Á grundvelli þeirra tekur sjóðsstjórn ákvörðun um hvort og hve háan styrk viðkomandi umsækjandi fær. 

Styrkjum er úthlutað annað hvert ár, þegar ártal er jöfn tala og er umsóknafrestur til 1. október það ár. 


Umsóknir
Umsókn og fylgiskjöl skulu berast rafrænt á þar til gerðu umsóknareyðublaði , á netfangið rannsoknaogvisindasjodur@hjukrun.is  fyrir miðnætti þann 1. október á úthlutunarári. Umsækjendum er bent á að vönduð umsókn eykur líkur á styrkveitingu. Öllum umsækjendum er svarað skriflega. 


Afhending styrkja
Styrkþega er tilkynnt um styrkveitinguna skriflega og er styrkupphæðin lögð inn á reikning hans. Styrkþega er skylt að senda framvinduskýrslu til stjórnar sjóðsins ári eftir afhendingu styrksins. 


Endurgreiðsla
Verði ekkert úr verkefni eða því ekki lokið af einhverjum ástæðum innan þess tíma er gert var ráð fyrir skal styrkþegi gera stjórn sjóðsins grein fyrir ástæðum þess og endurgreiða þann hluta styrksins sem ekki hefur verið notaður til verkefnisins. Stjórn 2013-2017


Guðbjörg Pálsdóttir
Herdís Sveinsdóttir
Sigríður Zoéga