Hjukrun.is-print-version
Sótt er um styrk í Starfsmenntunarsjóð á Mínum síðum, en til að hafa aðgengi að þeim þarf annað tveggja: Íslykil eða rafræn skilríki.

Sótt er um á Mínum síðum. Í umsókn þarf að koma fram um hvað er sótt, þ.e. nafn og lýsing á námi/námskeiði/ráðstefnu /kynnisferð og annað sem við á t.d. flugfar eða eldsneyti.

Réttur til styrks

Litið er til innborgana í sjóðinn fyrir hönd umsækjanda síðustu þrjá mánuði áður en sá viðburður á sér stað sem er til grundvallar umsóknar.

Styrkfjárhæð er 240.000 kr. á hverjum tveimur almanaksárum (24 mánuðum). Ef hluti hámarksfjárhæðar hefur verið tekinn út á árinu hefur það áhrif á styrkfjárhæð. Sjóðsfélagi með inngreiðslur hærri en 800 kr. mánaðarlega síðustu þrjá mánuði á rétt á fullum styrk, en sjóðsfélagi með inngreiðslur sem nema minna en 800 kr. mánaðarlega síðustu þrjá mánuði á rétt á hálfum styrk, þ.e.a.s. 120.000 kr. á 24 mánuðum.

Hvað er styrkt?

Verkefni þarf að jafnaði að varða fagsvið hjúkrunar sjóðfélaga til að vera styrkhæft og auka almenna starfshæfni hans á sviði hjúkrunar, stjórnunar, samskiptatækni, sjálfstyrkingar og tungumála.

Styrkhæft

 • kostnaður við nám, námskeið, ráðstefnur, málþing og faglegar kynnisferðir á heilbrigðisstofnanir sem innihalda skipulagða dagskrá í a.m.k. 6-8 klst.
 • ferðakostnaður (s.s. vegna flugfargjalda eða aksturskostnaðar)
 • hótel- og gistikostnaður

 

Ekki styrkhæft

 • Uppihald (fæðiskostnaður) og ferlir innan borga/bæja
 • Launatap
 • Bókakostnaður eða námsgögn
 • Tómstundanámskeið
 • Annað starfsnám
 • Kynnisferðir á heilbrigðisstofnanir án skipulagðrar faglegrar dagskrár í a.m.k. 6-8 klukkustundir


Nauðsynleg gögn með umsókn

Til að hægt sé að afgreiða umsóknina og greiða út styrkinn þurfa eftirtalin gögn að berast með umsókn: 

 • staðfesting á greiðslu fyrir greiðslu náms/námskeiðs/ráðstefnu/kynnisferða
 • sé um kynnisferð að ræða: dagskrá kynnisferðar
 • staðfesting á greiðslu flugmiða
 • staðfesting á greiðslu gistingar
 • staðfesting á greiðslu eldsneytis sem sýnir eldsneytisverð þann daginn

Þegar umsókn hefur borist sjóðnum birtist staðfestingartexti og umsóknin kemur fram á yfirliti umsókna á Mínum síðum. Hafi ekkert af þessu gerst, hefur umsókn ekki verið móttekin.

Greiðslur

Fullgildar umsóknir sem berast sjóðnum eru teknar fyrir á fundum sjóðsstjórnar og koma til greiðslu á 15. degi greiðslumánaðar. Greitt er út í febrúar, apríl, júní, ágúst, október og desember.

Þegar afgreiðsla sjóðsstjórnar liggur fyrir er sjóðfélögum tilkynnt niðurstaðan í tölvupósti.


 

1. Um sjóðinn og rétt sjóðsfélaga

1.1 Um sjóðinn
Starfsemi sjóðsins byggir á starfsreglum fyrir Starfsmenntunarsjóð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) frá 4. janúar 2021.

1.2. Myndun réttinda í sjóðnum
Rétt í Starfsmenntunarsjóð Fíh eiga félagsmenn Fíh sem greitt hefur verið fyrir starfsmenntunarsjóðsframlag í samtals sex mánuði, þar af samfellda þrjá mánuði, áður en atburður sem leiðir til styrksumsóknar á sér stað. 

1.3. Fæðingarorlof
Sjóðsfélagar njóta óskertra réttinda í fæðingarorlofi samkvæmt lögum nr. 95/3000 um fæðingar- og foreldraorlof ef greitt er stéttarfélagsgjald af greiðslum úr fæðingarorlofssjóðs til Fíh. 

1.4. Forgangur 
Ef sjóðsþurrð verður, eða sjóðurinn stendur illa miðað við tekjur og væntanlegar skuldbindingar að mati sjóðsstjórnar, skulu þeir njóta forgangs sem aldrei hafa notið fyrirgreiðslu frá sjóðnum. Ef enn er þörf á forgangsröðun er sjóðsstjórn heimilt að gefa fræðilegri verkefnum forgang umfram öðrum.

 

2. Afgreiðsla umsókna

Starfsmaður sjóðsins afgreiðir umsóknir samkvæmt starfsreglum þessum og í samræmi við ákvarðanir sjóðsstjórnar.

Stjórn sjóðsins sker úr um vafaatriði, t.d. um sjóðsaðild eða styrkhæfi umsókna, og tekur á öðrum málum sem upp kunna að koma. Stjórn kemur að jafnaði saman sex sinnum á ári.

 

3. Skyldur vinnuveitanda

Einungis þeir einstaklingar geta sótt um styrk sem eru sjóðsfélagar. Sjóðsstjórn getur lækkað styrk ef aðrir taka þátt í kostnaði við verkefnið. Telji stjórn að umsókn til sjóðsins ætti að greiðast af öðrum áskilur hún sér rétt til að halda að sér höndum og vekja athygli umsækjenda á því.

 

4. Umsækjendur

Ef greitt er fyrir sjóðsfélaga 800 kr. eða meira á mánuði í Starfsmenntunarsjóð Fíh og sjóðsfélagi uppfyllir skilyrði fyrir rétt til aðildar, getur sjóðsfélagi sótt um hámarksstyrkveitingu úr sjóðnum vegna verkefna sem getið er um í tölulið 5, að því gefnu að a.m.k. tvö ár séu liðin frá því að umsækjandi fékk greiddan hámarksstyrk úr sjóðnum.

 

5. Styrkhæf verkefni

5.1 Inntak verkefnis 
Verkefni þarf að jafnaði að varða fagsvið hjúkrunar sjóðfélaga til að vera styrkhæft og auka almenna starfshæfni hans á sviði hjúkrunar, stjórnunar, samskiptatækni, sjálfstyrkingar og tungumála. Sjóðstjórn metur vafatilvik. 

5.2 Staðsetning verkefnis
Hægt er að sækja um styrk vegna verkefna innanlands sem utan, svo sem námskeið, ráðstefnur, málþing, kynnisferðir og viðbótarnám í tengslum við hjúkrun. Lýsing verkefnis verður að fylgja með umsókninni svo sjóðstjórnin geti tekið afstöðu til hennar. Sjóðstjórn metur vafatilvik. 

5.3 Hvað er styrkt? 
Sjóðfélagar geta fengið styrk vegna útlagðs:

 • kostnaðar við nám, námskeið, ráðstefnur, málþing og faglegar kynnisferðir á heilbrigðisstofnanir sem innihalda skipulagða dagskrá í a.m.k. 6-8 klst. og/eða greitt er fyrir.
 • ferðakostnaðar (s.s. vegna flugfargjalda eða aksturskostnaðar)
 • hótel- og gistikostnaðar

 5.4 Hvað er ekki styrkt?
Sjóðfélagar geta ekki fengið styrk vegna:

 • Uppihalds (fæðiskostnaðar) og ferða innan borga
 • Launataps
 • Bókakostnaðar eða námsgagna
 • Tómstundanámskeiðs
 • Annars starfsnáms
 • Kynnisferða á heilbrigðisstofnanir án skipulagðrar faglegrar dagskrár í a.m.k. 6-8 klukkustundir og/eða greitt er fyrir

 5.5 Fyrirvarar 

 • Ekki er hægt að nota styrkinn til að greiða fyrir annað námskeið en það sem kemur fram á umsókninni.
 • Hægt er að sækja tvisvar um styrk vegna sama meistaranáms, þ.e. einu sinni á fyrra ári og einu sinni á seinna ári ef árgjaldið er a.m.k. tvöfalt hærra en árlegur styrkur úr sjóðnum.
 • Sjóðstjórn metur vafatilvik.
 • Verkefni er styrkhæft í allt að 12 mánuði frá því að til útgjalda var stofnað. Kvittanir mega því vera allt að 12 mánaða gamlar.
 • Aðeins er hægt að nota hverja greiðslukvittun einu sinni. Ekki er hægt að flytja ónýttan styrk milli ára.

 5.6. Styrktarfjárhæð
Styrkfjárhæð er 240.000 kr. á hverjum tveimur almanaksárum (24 mánuðum). Ef hluti hámarksfjárhæðar hefur verið tekinn út á árinu hefur það áhrif á styrkfjárhæð.

 

6. Umsóknir frágangur þeirra og afgreiðsla

 6.1 Umsóknir 
Umsóknum ásamt gögnum skal skila inn rafrænt til sjóðsins. Sótt er um rafrænt á Mínum síðum.

6.2 Frágangur umsókna
Sjóðfélagar skulu vanda frágang umsókna og tilgreina nákvæmlega til hvers þeir ætla að verja styrkfénu auk annarra atriða sem spurt er um. Ella geta umsækjendur átt það á hættu að umfjöllun um umsókn sé frestað þar til bætt hefur verið úr. Umsókn er ekki lögð fyrir sjóðstjórn nema nauðsynleg gögn fylgi  umsókninni.

Til nauðsynlegra gagna teljast:

 • Nafn á verkefni sem sótt er um (námi, námskeiði, málþingi, ráðstefnu)
 • Nákvæm lýsing á verkefni sem sótt er um
 • Staðfesting greiðslu fyrir verkefni sem sótt er um

Þegar umsókn hefur verið send fær umsækjandi svar um að umsóknin hafi verið móttekin. Sjóðurinn ber ekki ábyrgð á því ef umsóknir berast ekki. 

6.3 Afgreiðsla umsókna hjá sjóðnum
Fullgildar umsóknir sem berast sjóðnum í:

 • desember og janúar eru afgreiddar í febrúar
 • febrúar og mars eru afgreiddar í apríl
 • apríl og maí eru afgreiddar í júní
 • júní og júlí eru afgreiddar í ágúst
 • ágúst og september eru afgreiddar í október
 • október og nóvember eru afgreiddar í desember

Þegar afgreiðsla sjóðstjórnar liggur fyrir er sjóðfélögum tilkynnt niðurstaðan í tölvupósti.

 

7. Styrkveiting úr sjóðnum

7.1 Greiðslustaðfesting
Greiðslur úr sjóðnum fara fram gegn framvísun greiðslukvittana. Á greiðslukvittunum þarf að koma fram nafn, kennitala og fyrir hvað er greitt. Ef greiðslukvittun er glötuð að fullu tekur stjórn sjóðsins ákvörðun um afgreiðslu styrksins. 

7.2 Frestur til að skila gögnum 
Skila þarf inn styrkumsókn og öllum fylgigögnum fyrir 31. desember á því ári sem sótt er um. Að öðrum kosti flyst styrkumsóknin yfir á næsta ár.

7.3 Útborgun styrks
Styrkir úr sjóðnum eru greiddir út á bilinu 13.-15. dags þess mánaðar sem úthlutað er eða næsta virka dag þar á eftir. Greiðslutilkynning er send í tölvupósti. Greiðsla styrkja felur alltaf í sér endurgreiðslu útlagðs kostnaðar. Styrkur er aldrei greiddur út fyrirfram. 

7.4 Upplýsingar til skattayfirvalda
Í byrjun hvers árs eru sendar upplýsingar til skattayfirvalda þar sem gerð er grein fyrir styrkþegum og styrkupphæðum síðastliðins árs.  

7.5 Greiðslugögn og afgreiðsla á styrkveitingu úr sjóðnum
Sjóðsfélaga ber að skila inn tilskildum gögnum, svo sem reikningum og staðfestingum til sjóðsins. Gögnum þarf að skila samhliða umsókn.

8. Tími milli styrkveitinga, hlutastarf, fyrning o.fl.

8.1 Hámarksstyrkveiting
Hámarksstyrkur miðast við 240.000 kr. á hverju 24 mánaða fljótandi tímabili sbr. grein 5.5.

8.2 Hálfur styrkur
Ef greitt er undir 800 kr., mánaðarlega í sjóðinn fyrir sjóðsfélaga síðustu þrjá mánuði áður en viðburður sem sótt er um styrk fyrir í sjóðinn á hann rétt á hálfum styrk, eða 120.000 kr. hámarksstyrkveitingu á hverjum tveimur almanaksárum (24 mánuðum). Ef óljóst er hvort að sjóðsfélagi eigi rétt á fullum eða hálfum styrk þá er reiknað út meðaltal inngreiðslna iðgjalda síðustu þriggja mánaða, talið frá þeim degi sem umsókn berst til sjóðsins. Ef reiknað meðaltal er 800 kr. eða meira þá á viðkomandi rétt á fullum styrk, annars hálfum.

8.3 Sótt um aftur í tímann
Hægt er að sækja um styrk fyrir verkefni allt að 12 mánuði aftur í tímann miðað við lok verkefnis. Móttaka umsóknar verður því að vera innan 12 mánaða frá lokum verkefnis. 

8.4 Fyrning styrkveitinga
Réttur til greiðslu samkvæmt ákvörðun sjóðsins fyrnist ef umsækjandi hefur ekki skilað nauðsynlegum gögnum (reikningum og staðfestingu) innan 12 mánaða frá dagsetningu tilkynningar um styrkveitinguna.

8.5 Tvígreiðsla eða ofgreiðsla styrks 
Ef mistök verða í afgreiðslu styrkumsóknar eða greiðslu styrks mun starfsmaður sjóðsins leitast við að leiðrétta mistök eins fljótt og hægt er. Ef sjóðsfélagi hefur fengið tvígreiddan styrk eða ofgreidda styrkupphæð þarf hann að tilkynna sjóðnum mistökin og endurgreiða þegar í stað þá upphæð sem munar til sjóðsins aftur. 

8.6 Skráning og meðferð umsókna hjá Fíh
Geymsla umsókna: Samþykktar umsóknir ásamt kvittunum fyrir greiðslu eru geymdar í sjö ár.
Fylgigögn: Öðrum fylgigögnum en kvittunum er eytt eftir greiðslu styrks.
Skráning í félagatal: Upphæð, dagsetning umsóknar og greiðsla styrkja er skráð í félagatal sjóðsins.

9. Réttur til að hætta við umsókn

Ef umsókn er dregin til baka áður en styrkur er greiddur fellur styrkloforðið niður og hefur umsóknin þá engin áhrif á réttindi umsækjanda hjá sjóðnum.

10. Hlé eða rof á sjóðsaðild

10.1 Launalaust leyfi
Sjóðsfélagi í launalausu leyfi á rétt á styrk samkvæmt reglum sjóðsins fyrstu sex mánuði að öðrum skilyrðum uppfylltum. Skila þarf inn með umsókn vottorði frá vinnuveitanda sem staðfestir að viðkomandi sé í launalausu leyfi. 

10.2 Atvinnuleysi
Atvinnulausir sjóðsfélagar geta sótt um og fengið styrk úr sjóðnum samkvæmt eftirfarandi reglum:

 • Skilyrði. Umsækjandi hefur átt aðild að sjóðnum einhvern tíma á síðustu 12 mánuðum og verið sjóðsfélagi í a.m.k. sex mánuði við upphaf atvinnuleysis, þ.e. verið í vinnu hjá launagreiðanda sem greiðir framlag fyrir viðkomandi í sjóðinn.
 • Styrkhæfi. Sömu reglur gilda eins og fyrir aðra sjóðsfélaga. Að auki má veita styrk til námskeiðs sem tengist beinlínis atvinnuleysi sjóðsfélaga eða auðveldar honum að öðlast starf á ný.

10.3 Veikindi
Sjóðsfélagar halda réttindum sínum í sjóðnum fyrir það tímabil sem þeir fá greidda sjúkradagpeninga frá Styrktarsjóði Fíh. Eins er farið með mál sjóðsfélaga sem þiggja endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun og þeirra sem atvinnulausir eru sbr. lið 10.2.

11. Málskotsréttur
Ef sjóðsfélagi er ósáttur við afgreiðslu sjóðsstjórnar á styrkumsókn sinni og fylgigögnum á hann rétt á að sækja endurskoðunar á ákvörðun sjóðstjórnar. Beiðni um endurskoðun skal fylgja rökstuðningur og nánari útskýringar á verkefninu sem hafnað var. Verður afgreiðslan þá tekin upp á næsta fundi sjóðsstjórnar.

12. Gildistaka og önnur ákvæði
Reglur þessar eru samþykktar í stjórn sjóðsins 4. janúar 2021 og taka gildi frá og með þeim tíma. Við gildistökuna falla úr gildi eldri starfsreglur og aðrar ákvarðanir sem ekki eru í samræmi við reglur þessar.

Breyttar reglur eru birtar á vefsvæði Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, hjukrun.is
Samþykki stjórn sjóðsins breytingar á reglum þessum verða þær kynntar á viðeigandi vettvangi og uppfærðar á vefsvæði.

Upplýsingar um starfsemi sjóðsins birtast á vefsvæði félagsins og öðrum miðlum eftir því sem tilefni þykir til.

 

Reglur þessar voru samþykktar 4. janúar 2021

1. gr. Heiti, varnarþing og heimili

Sjóðurinn heitir starfsmenntunarsjóður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) og starfar hann með því skipulagi og markmiði sem segir í reglum þessum. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Markmið sjóðsins

Markmið starfsmenntunarsjóðs Fíh er að styrkja hjúkrunarfræðinga til viðbótarmenntunar og sí- og endurmenntunar í tengslum við störf þeirra við hjúkrun og nýta sem best tekjur sjóðsins í þeim tilgangi. Þessu markmiði skal meðal annars náð með því að verja fjármunum sjóðsins til eftirfarandi verkefna:

 • Styrkja hjúkrunarfræðinga til að stunda nám eða sækja einstök námskeið, hvort sem námið er í framhaldi af fyrri menntun eða er til að styrkja hann í starfi sem hjúkrunarfræðingur
 • Styrkja hjúkrunarfræðinga til þess að sækja ráðstefnur og kynna sér nýjungar jafnt innanlands sem utan

3. gr. Aðild

Rétt til aðildar að sjóðnum eiga allir þeir hjúkrunarfræðingar sem starfa hjá launagreiðendum sem gert hafa kjarasamning við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga þar sem samið er um framlag í starfsmenntunarsjóð Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, hér eftir nefndir sjóðsfélagar. Sjóðsaðild byggir á því að greitt sé til sjóðsins iðgjald sem nemur 0,22% af heildarlaunum. Jafnframt eiga hjúkrunarfræðinemar sem þiggja laun skv. kjarasamningi Fíh við samband íslenskra sveitarfélaga aðild að sjóðnum. Aðrir geta átt aðild skv. ákvörðun sjóðsstjórnar.

Réttur til aðildar að sjóðnum hefst þegar iðgjald fyrir sjóðsfélaga hefur verið greitt í samtals sex mánuði, þar af samfellda þrjá mánuði. Sjóðsfélagi heldur aðildarrétti í fæðingarorlofi. Lífeyrisþegi heldur aðildarrétti í 12 mánuði frá því að viðkomandi hættir starfi.

4. gr. Sjóðstjórn

Stjórn sjóðsins skal skipuð fjórum stjórnarmönnum, tveimur fulltrúum Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, einum fulltrúa fjármálaráðherra og einum fulltrúa frá Reykjavíkurborg. Formaður stjórnar skal vera fulltrúi Fíh.

Enginn stjórnarmaður skal sitja lengur í stjórn en átta ár samfellt. Stjórnin ber ábyrgð á rekstri, fjárhag og eignum sjóðsins. Stjórn skal móta og þróa starfsemi sjóðsins til samræmis við markmið hans. Sjóðstjórn setur almennar úthlutunarreglur og tekur ákvarðanir í vafatilfellum.  Úthlutunarreglur skulu endurskoðaðar að lágmarki einu sinni á ári og breytingar á þeim kynntar á vefsvæði Fíh, hjukrun.is.

Stjórn sjóðsins kemur að jafnaði saman sex sinnum á ári; í febrúar, apríl, júní, ágúst, október og desember.

5. gr. Fjármögnun starfsmenntunarsjóðs

Launagreiðendur greiða iðgjald til sjóðsins sem nemur 0,22% af heildarlaunum starfsmanns samkvæmt ákvæðum kjarasamninga um framlag í starfsmenntunarsjóð.

Auk þess er helmingur framlags launagreiðenda í vísindasjóð færður í starfsmenntunarsjóð skv. bókun 3 í miðlunartillögu ríkissáttasemjara í kjaradeilu Fíh og ríkisins 2020.
 

Breytingar á starfsreglum sjóðsins og slit sjóðsins

Starfsreglum þessum má breyta með ákvörðun stjórnar sjóðsins. Ákvörðun um að leggja Starfsmenntunarsjóð Fíh niður eða sameina hann öðrum aðila skal einnig tekin af stjórn sjóðsins. Í öllum tilfellum skal það samþykkt með atkvæðum allra stjórnarmanna og hljóta samþykkt stjórnar Fíh, fjármála- og efnahagsráðuneytisins og Reykjavíkurborgar.

 

Reykjavík. 4. janúar 2021

Eva Hjörtína Ólafsdóttir, formaður, tilnefnd af Fíh

Ásdís Guðmundsdóttir, tilnefnd af Fíh

Aldís Magnúsdóttir, tilnefnd af Fjármálaráðuneyti

Anna Guðmundsdóttir, tilnefnd af Reykjavíkurborg

Steinunn Helga Björnsdóttir starfsmaður sjóðsins

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?

Þetta vefsvæði notar vafrakökur.

Lesa skilmála