Fara á efnissvæði

Fagdeild taugahjúkrunarfræðinga

Meginhlutverk fagdeildarinnar er að efla tengsl hjúkrunarfræðinga sem sinna sjúklingum með sjúkdóma eða áverka í mið eða úttaugakerfi og auka þekkingu innan þessa sviðs.

Um fagdeildina

Hugmyndafræði taugahjúkrunar byggist á heildrænni sýn á heilbrigði sem endurspeglast í aðlögun einstaklingsins að umhverfi sínu og miðar að bættum lífsgæðum.

Í bráðafasanum glíma sjúklingar með sjúkdóma í taugakerfi við tap eða skerðingu á einni eða fleiri lífsnauðsynlegri líkamsstarfsemi og krefst hjúkrun þessara sjúklinga mikillar sérhæfingar. Markmið taugahjúkrunar er að fræða, styðja og hvetja skjólstæðinginn til sjálfsbjargar, efla heilbrigðisvitund hans og auka færni til að takast á við breyttar eða nýjar aðstæður.

Líknandi hjúkrun er stöðug, markviss meðferð sjúklingsins og aðstandenda hans frá þeirri stund sem útséð er að sjúklingurinn mun ekki ná bata. Reynt er að uppfylla andlegar, líkamlegar, félagslegar og trúarlegar þarfir og veita stuðning í sorgarferlinu.

Á öllum stigum taugahjúkrunar fer fram fræðsla og stuðningur, bæði til sjúklings og aðstandenda hans.

Fagdeildin tekur undir með Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum og hefur meðal markmiða að fylgjast með breytingum á þörfum í þessum stækkandi sjúklingahóp og þörfum hjúkrunarfræðinga sem vinna innan þessa sviðs. Auknar kröfur samfélagsins og sístækkandi hópur taugasjúklinga gerir það að verkum að við þurfum fleiri og betri úrræði til handa þessum hópi ásamt því að styrkja þau úrræði sem við þegar höfum. Sjúklingar með sjúkdóma í mið-eða úttaugakerfi eru margbreytilegur hópur með mismunandi þarfir og verður þjónustan að taka mið af einstaklingunum hverju sinni.

Hugmyndafræðin:
Hugmyndafræði taugahjúkrunar byggist á heildrænni sýn á heilbrigði sem endurspeglast í aðlögun einstaklingsins að umhverfi sínu og miðar að bættum lífsgæðum:

  • Að hvetja til sjálfshjálpar og gera sjúklingnum kleift að lifa því lífi sem honum er eiginlegt og öðlast lífsfyllingu þrátt fyrir fötlun eða sjúkdóm.
  • Að efla heilbrigðisvitund og ábyrgð á eigin meðferð með markvissri fræðslu fyrir sjúklinga og aðstandendur.
  • Að veita heildræna hjúkrun sem byggir á grunnhugmyndafræði hjúkrunar, faglegri sérþekkingu og færni.
  • Að vernda hagsmuni og rétt hvers einstaklings og vera málsvarar hans.
  • Að styðja aðstandendur í hlutverki sem stuðnings- og/eða umönnunaraðilar.

Stjórn

Formaður

Guðrún Jónsdóttir

Varaformaður

Ingibjörg Tómasdóttir

Ritari

Snædís Jónsdóttir

Gjaldkeri

Sólveig Jóhanna Haraldsdóttir

Meðstjórnandi

Inga Steinþóra Guðbjartsdóttir

Varamaður

Marianne E. Klinke

Varamaður

Helga Kristín Þorsteinsdóttir

Erlent samstarf

WFNN /World Fedaration of neuroscience Nurses

EANN /European Association of Neuroscience Nurses

Styrktarsjóður

Starfsreglur sjóðsins

Nafn og heimili
Sjóðurinn heitir styrktarsjóður Fagdeildar Taugahjúkrunarfræðinga og starfar hann með því skipulagi og markmiði sem segir í reglum þessum. Heimili sjóðsins og varnarþing er í Reykjavík.

Markmið sjóðsins
Markmið sjóðsins er að styðja fjárhagslega við sí- og endurmenntun á sviði taugahjúkrunar.

Stjórn sjóðsins
Stjórn sjóðsins skal skipuð þremur félagsmönnum fagdeildarinnar a.m.k einn í stjórn sjóðsins skal vera í stjórn fagdeildarinnar. Stjórn sjóðsins ákvarðar hámarksstyrk og aðrar reglur um framkvæmd til uppfyllingar starfsreglum þessum, velur á milli styrkhæfra verkefna og umsækjenda, afgreiðir umsóknir, sker úr um vafaatriði, t.d. styrkhæfni umsókna, og tekur á öðrum álitaefnum eða ágreiningsmálum sem upp kunna að koma. Sjóðurinn er í vörslu fagdeildar taugahjúkrunarfræðinga. Reikningsárið er frá 1.mars til febrúarloka (í samræmi við reikningsár fagdeildarinnar) og reikningar sjóðsins skulu yfirfarnir af skoðendum fagdeildarinnar

Höfuðstóll sjóðsins skal aldrei vera minni en kr.1.000.000

Stefnt er að því að stjórn sjóðsins komi saman að jafnaði fjórum sinnum á ári (stjórn ákveður hvenær).

Kosning stjórnar
Stjórnin er kosin til tveggja ára í senn, á aðalfundi fagdeildarinnar en þó skulu aldrei allir stjórnarmeðlimir ganga úr stjórn í einu.

Réttur til aðildar að sjóðnum og réttur sjóðfélaga
Rétt til aðildar að sjóðnum eiga allir þeir hjúkrunarfræðingar sem eru í fagdeild taugahjúkrunarfræðinga, eru skuldlausir gagnvart fagdeildinni og hafa verið meðlimir a.m.k. eitt ár í fagdeild taugahjúkrunarfræðinga.
Meðlimir fagdeildarinnar sem náð hafa 65 ára aldri verða gerðir að heiðursfélögum og þurfa ekki að greiða árgjaldið en halda þó öllum sínum réttindum.
Réttur félagsmanna miðast þó ávallt við fjárhag sjóðsins hverju sinni. Ef staða sjóðsins leyfir ekki að orðið sé við öllum styrkhæfum umsóknum ber stjórn sjóðsins að veita þeim umsóknum forgang sem hafa mest gildi fyrir sí- og endurmenntun taugahjúkrunarfræðinga.

Styrkhæfni verkefna

  1. Inntak verkefnis:
    Verkefni þarf að tengjast fagsviði taugahjúkrunarfræðinga til að vera styrkhæft.
  2. Staðsetning verkefnis:
    Hægt er að sækja um styrk vegna verkefna innanlands sem utan.
  3. Hvað er styrkt? Félagsmenn geta fengið styrk vegna námskeiða, ráðstefna, málþinga og faglega skipulagðra heimsókna.( svo sem fyrir ferðakostnaði, hótel- og gistikostnaði náms- og ráðstefnugjaldakostnaðar)
    Gerð námsefnis; upplýsingarbæklingar, prentun veggspjalda o.þ.h.

Kynning á verkefnum
Þess er vænst að styrkþegar kynni viðfangsefni/verkefni/námsferð fyrir fagdeildinni innan 10 mánaða frá styrkveitingu. Kynningin getur verið í form greinar í fréttabréfinu eða með því að segja frá verkefnum/námskeiðum á fundum fagdeildarinnar.

Hámarksstyrkur
Hægt er að sækja um hámarksstyrk að upphæð kr.40.000. Tvö ár þurfa að líða milli hámarksstyrkveitingar úr sjóðnum til sama félagsmanns.

Ferill umsókna hjá sjóðnum
Umsóknum skal skila inn til sjóðsins fyrir 25.október.
Umsóknareyðublað er að finna á hjukrun.is (sjá þar svæði fagdeildar taugahjúkrunarfræðinga).
Umsækjendur skulu vanda frágang umsókna og tilgreina nákvæmlega til hvers þeir ætla að verja styrkfénu auk annarra atriða sem spurt er um á eyðublaðinu.
Þegar afgreiðsla stjórnar liggur fyrir er umsækjendum kynnt niðurstaðan skriflega eða með tölvupósti. Í sama bréfi/tölvupósti kemur fram hvaða gögnum þarf að framvísa til að fá styrkinn greiddan. Hægt er að sækja um styrk allt að einu ári aftur í tímann miðað við lok verkefnis.

Afgreiðsla styrks

  1. Skil á gögnum til sjóðsins. Umsækjandi ber ábyrgð á að skila inn tilskildum gögnum til sjóðsins.
  2. Frumrit reikninga. Greiðslur úr sjóðnum fara að jafnaði fram gegn framvísun reikninga í frumriti. Á reikningnum þarf að koma fram fyrir hvað er greitt.
  3. Styrkir úr sjóðnum eru greiddir út 1.október eða næsta virka dag á eftir.
  4. Eftirágreiðsla: Greiðsla styrks er alltaf endurgreiðsla útlagðs kostnaðar – eftir á. Styrkur er aldrei greiddur út fyrirfram.
  5. Áskilinn sveigjanleiki. Sjóðurinn áskilur sér rétt til sveigjanleika í greiðslu styrksins.
  6. Tvígreiðsla eða ofgreiðsla styrks. Ef mistök verða í afgreiðslu styrkumsóknar eða greiðslu styrks munu starfsmenn sjóðsins leitast við að leiðrétta mistök eins fljótt og hægt er. Ef sjóðfélagi hefur fengið tvígreiddan styrk eða ofgreidda styrkupphæð þarf hann að tilkynna sjóðnum mistökin og endurgreiða þegar í stað þá upphæð, sem munar, til sjóðsins aftur.
  7. Í byrjun hvers árs eru sendar upplýsingar til skattayfirvalda þar sem gerð er grein fyrir styrkþegum og styrkupphæðum síðastliðins árs. Tilkynning er einnig send til hlutaðeigandi styrkþega ásamt leiðbeiningum um meðferð styrksins á skattframtalseyðublaði.
  8. Fyrir 30.júní ár hvert skal senda Ríkisendurskoðun reikning sjóðsins fyrir næstliðið ár ásamt skýrslu um hvernig fé sjóðsins hefur verið ráðstafað á því ári.
  9. Skráning og meðferð umsókna til styrktarsjóðsins.
  10. Samþykktar umsóknir eru geymdar í 5 ár.
  11. Umsóknir, sem hefur verið hafnað eða vísað frá, eru ekki geymdar lengur en í einn
  12. Fylgigögn: Öllum öðrum gögnum en fram koma í 11. a) er eytt eftir greiðslu styrks.
  13. Upphæð, dagsetning umsóknar og greiðsla styrkja er skráð í bókhald sjóðsins.

Málskotsréttur
Ef sjóðfélagi er ósáttur við afgreiðslu sjóðsins á styrkumsókn sinni og fylgigögnum á hann ávallt rétt á að vísa erindi sínu til stjórnar fagdeildarinnar . Verður afgreiðslan þá tekin upp á næsta fundi stjórnar.

Gildistaka og önnur ákvæði
Starfsreglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og skulu skriflegar tillögur um breytingar á reglum berast stjórn einni viku fyrir aðalfund.
Sama gildir um ákvörðun um að leggja sjóðinn niður, hana verður að taka á aðalfundi með einföldum meirihluta fundarmanna og renna eignir sjóðsins þá til fagdeildar taugahjúkrunarfræðinga.

Reglur þessar voru samþykktar á aðalfundi fagdeildar taugahjúkrunarfræðinga, sem haldinn var þann 20.mars 2013.

Fræðsluefni

Starfsreglur

Nafn og varnarþing fagdeildar
Nafn fagdeildar er: Fagdeild taugahjúkrunarfræðinga og starfar hún innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Heimili og varnarþing fagdeildar taugahjúkrunarfræðinga er í Reykjavík, en umdæmið er landið allt.

Stefnumótun

  • Að efla menntun,fræðslu og rannsóknir á sviði taugahjúkrunar þannig að gagnreynd þekking sé ávallt nýtt til framfara og nýjunga.
  • Að styrkja samstarfa taugahjúkrunarfræðinga og efla tengsl við erlend samtök þeirra.
  • Að auka fræðslu og efla heilbrigðisvitund skjólstæðinga og almennings.
  • Að stuðla að bættri þjónustu við skjólstæðinga og aðstandendur þeirra í samstarfi við aðrar starfsstéttir og sjúklingasamtök.
  • Að hafa áhrif á stefnumótun í heilbrigðismálum, einkum því er lýtur að þjónustu við skjólstæðinga taugahjúkrunarfræðinga.
  • Að vera stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og nefndum til ráðgjafar.

Félagsaðild
Allir félagsmenn Fíh sem starfa við eða hafa áhuga á hjúkrun sjúklinga með sjúkdóma eða áverka í mið- og úttaugakerfi geta orðið félagar í fagdeild taugahjúkrunarfræðinga. Skrifstofa Fíh tekur við umsóknum um inngöngu í fagdeildina og sendir áfram til formanns. Félagsmaður sem ekki hefur greitt félagsgjald í tvö ár fellur út af félagaskrá

Stjórn fagdeildarinnar skipa 5 félagsmenn: formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, einn meðstjórnandi og tveir varamenn. Stjórn fagdeildarinnar skal kosin á aðalfundi:

  • Kosning formanns
  • Kosning fjögurra stjórnarmanna, sem skipta með sér verkum.
  • Kosning tveggja varamanna.

Stjórn situr tvö ár í senn. Skulu 2 stjórnarmenn ganga út annað árið en 3 hitt. Varamenn eru kosnir til eins árs í senn. Einfaldur meirihluti ræður kjöri. Leitast skal við að a.m.k. einn stjórnarmeðlimur hafi lokið viðbótar- eða framhaldsmenntun í taugahjúkrun. Stjórn getur skipað nefndir eftir þörfum.

Aðalfundur
Aðalfundur skal haldinn í nóvember ár hvert. Aðalfund skal boða skriflega með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta svo hann teljist löglegur.

Dagskrá aðalfundar:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
  2. Ársskýrsla stjórnar
  3. Ársskýrsla styrktarsjóðs
  4. Skýrslur nefnda sem hafa starfað á starfsárinu
  5. Skoðaðir ársreikningar lagðir fram
  6. Kosning stjórnar skv. 4. gr.
  7. Kosning 2ja skoðenda til eins árs í senn
  8. Kosning í stjórn styrktarsjóðs
  9. Árgjald ákveðið
  10. Önnur mál

Breyting á starfsreglum og slit fagdeildarinnar
Starfsreglum þessum má aðeins breyta á aðalfundi og skulu skriflegar tillögur um breytingar á reglum berast stjórn einni viku fyrir aðalfund.
Sama gildir um ákvörðun um slit fagdeildarinnar sem verður tekin á aðalfundi með einföldum meirihluta félagsmanna og renna eignir þess þá til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Tenglar