Hjukrun.is-print-version

Ábending/Fyrirspurn

Á virkum dögum er fyrirspurnum að jafnaði svarað innan 48 tíma eftir að þær berast.

Ritstjórnarstefna

Tímarit hjúkrunarfræðinga er gefið út tvisvar sinnum á ári. Tímaritið er málgagn félagsmanna í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga og í því er reynt að endurspegla ólíkar skoðanir og viðhorf til hjúkrunar. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga leggur metnað sinn í að allir félagsmenn þess finni þar efni sér til gagns, fróðleiks og ánægju.

Tímaritið er vettvangur fræðilegrar og félagslegrar umfjöllunar um hjúkrun. Í faglega hluta tímaritsins eru birtar margvíslegar greinar sem fjalla um öll svið hjúkrunar. Greinar flokkast í ritrýndar greinar og fræðslugreinar.

Ritrýndar greinar eru rannsóknagreinar, yfirlitsgreinar og kenningagreinar, þ.e. greinar sem á ítarlegan hátt fjalla um þróun þekkingar í hjúkrun, hvort heldur sem er hjúkrunarstarfið, hjúkrunarstjórnun, hjúkrunarkennsla, hjúkrunarrannsóknir eða stefnumótun í hjúkrunar- og heilbrigðisþjónustunni. Lögð er áhersla á beitingu margvíslegra rannsóknaraðferða, fjölbreytileika í fræðilegri nálgun viðfangsefna og vönduð vinnubrögð.

Fræðslugreinar fjalla um margvísleg viðfangsefni hjúkrunar og byggjast að einhverju leyti á fræðilegum heimildum ásamt athugunum eða reynslu höfunda. Þar skiptir miklu frumleiki í umfjöllun og efnistökum, menningarlegur margbreytileiki í hjúkrun og þróun hjúkrunar. Í blaðinu er einnig að finna viðtöl við fólk um hjúkrun og aðrar faglegar upplýsingar sem eiga erindi til hjúkrunarfræðinga.Í félagslega hluta tímaritsins eða fréttahlutanum er greint frá kjaramálum og því sem er að gerast hjá félaginu. Þar er einnig að finna fréttir af svæðis- og fagdeildum félagsins.

Ritstjóri ber ábyrgð á að efni, útgáfa og rekstur tímaritsins sé í samræmi við ritstjórnarstefnu þess. Ritstjóri ásamt ritnefnd leggur metnað í að tímaritið sé vandað að efni, málfari og útliti. Áhersla er lögð á að ritrýndar greinar standist vísindalegar kröfur.

Formaður félagsins ber ábyrgð á félagslegu efni þess öðru en aðsendum greinum. Höfundar aðsendra greina bera ábyrgð á efni þeirra. Skoðanir, sem í þeim birtast, þurfa ekki að samrýmast stefnu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

Ritnefnd ritrýndra greina

Nokkrir aðilar innan ritnefndar taka að sér að sjá um handrit þar sem óskað er eftir ritrýni. Í ritnefnd 2017-2018 eru það Ásta Thoroddsen, Margrét Hrönn Svavarsdóttir, Sigríður Halldórsdóttir og Þórdís Katrín Þorsteinsdóttir.


Leiðbeiningar til höfunda


Þennan lista er gagnlegt að hafa til hliðsjónar við yfirlestur greinarinnar í lokin.

 • Vekur fyrirsögnin áhuga/forvitni?
 • Kynnir inngangurinn efnið og vekur áhuga?
 • Er markmiðið/efnisyrðingin skýr?
 • Er tónninn/stíllinn vel valinn?
 • Einkennist málfarið af klisjum eða óljósu orðalagi?
 • Eru málsgreinar þjálar og hæfilega langar?
 • Er eðlilegt jafnvægi í lengd efnisgreina annars vegar og kafla hins vegar?
 • Er samhengi á milli allra þátta gott?
 • Er bygging greinarinnar nógu traust?
 • Eru millifyrirsagnirnar skýrar og áhugaverðar?
 • Er efnið hæfilega útskýrt í meginmálinu?
 • Eru dæmin viðeigandi og nægilega áþreifanleg?
 • Eru rökin sannfærandi?
 • Eru lausir endar í rökstuðningi?
 • Mætti sleppa einhverju eða er einhverju ofaukið?
 • Eru töflur og myndir til að skýra það sem erfitt er að skýra án þeirra og eru þær í góðu samhengi við textann?
 • Er niðurstaðan greinileg?
 • Eru lokaorðin ákveðin og eftirminnileg?
 • Er samræmi milli tilvísana og heimilda í heimildaskrá?
 1. Handrit berst.
 2. Svarbréf til höfunda innan viku frá því handrit berst.
 3. Frá ritstjóra til ritnefndar ritrýndra greina (RRG) í síðasta lagi viku frá því handrit berst.
 4. Frá RRG til ritstjóra í síðasta lagi tveimur vikum eftir að handrit berst til tímaritsins (í mesta lagi vika frá fyrirspurn ritstjóra). Þar kemur fram hvort handritinu er hafnað strax eða fari í ritrýni. Ef handritið fer í ritrýni skal tilnefna tvo ritrýna og einn til tvo til vara. RRG lætur ritstjóra vita hvar tilnefndir ritrýnar vinna og póstfang ef RRG hefur það tiltækt.
 5. Ritstjóri sendir svar til höfunda sé grein hafnað innan þriggja vikna frá því upprunalegt  handrit berst.
 6. Ritstjóri sendir fyrirspurn til væntanlegra ritrýna innan þriggja vikna frá því handrit barst.
 7. Hafi væntanlegir ritrýnar ekki svarað innan viku skal ítreka fyrirspurn og hringja í viðkomandi ef tölvupósti er ekki svarað.
 8. Séu fjórar vikur liðnar frá því handrit barst og ekki hafa fengist ritrýnar skal allur þungi lagður á að fá ritrýna. RRG og ritstjóri vinni hratt saman að því og finna ritrýni innan viku.
 9. Handrit og leiðbeiningar séu ávallt komin í hendur ritrýna 5 vikum eftir að handrit barst upphaflega. Ritrýnir hefur 3 vikur til að skrifa rýnina.
 10. Einni viku (6 vikum eftir að handrit barst) eftir að ritrýni hefur verið sent handritið fær hann áminningu í tölvupósti þar sem fram kemur að hann hafi eina viku til að ljúka ritrýninni.
 11. Ritrýnir skal skila ritrýni til ritstjóra 7 vikum eftir að handrit barst upphaflega.
 12. Ritstjóri sendir umsagnir ritrýna til RRG. Báðar í einu.
 13. RRG hefur eina viku til að ákveða niðurstöðu.
 14. Átta vikum eftir að handrit barst upphaflega hefur ritstjóra borist handrit frá RRG og tillögur að bréfi til höfundar.
 15. Þegar 9 vikur eru liðnar frá því handrit barst skal ritstjóri vera búinn búinn að svara höfundi.

Hafi handrit ekki borist frá ritrýnum eftir 4 vikur skal höfundi  tilkynnt um það.

 1. Höfundar hafa 2-5 vikur (2 vikur fyrir minniháttar athugasemdir, 5 vikur ef athugasemdir eru verulegar) til að yfirfara handrit.
 2. Handriti skilað til ritstjóra aftur. Liðir 9-12 endurteknir.

Fannst þér efnið hjálplegt?

Af hverju ekki?