Fara á efnissvæði

Fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga

Bráðahjúkrunarfræðingurinn hjúkrar með þarfir skjólstæðingsins í fyrirrúmi en leggur um leið sérstaka áherslu á góða umönnun fjölskyldunnar.

Um fagdeildina

Starf bráðahjúkrunarfræðingsins er margþætt og flókið. Það sem einkennir starfið er hraði, fjölbreytileiki og óvæntar uppákomur. Hjúkrunarfræðingur sem starfar við bráðahjúkrun þarf því að hafa yfirgripsmikla þekkingu og geta beitt henni fljótt undir miklu álagi á öruggan og yfirvegaðan hátt. Hann sinnir einstaklingnum heildrænt en leggur um leið áherslu á góða umönnun fjölskyldunnar.
Oft er hægt að sinna einstaklingnum með aðstoð fjölskyldu og annarra aðstandenda, um leið og tryggð er betri eftirmeðferð.

Starf bráðahjúkrunarfræðingsins getur farið fram á ýmsum stöðum, s.s. í heilsugæslu og í kennslu, þó svo að aðalstarfsvettvangurinn sé á slysa- og bráðamóttökum landsins.

Aukin þekking og reynsla hjúkrunarfræðinga skilar sér jafnt til veikra, slasaðra, hjúkrunarnemenda, hjúkrunarfræðinga og annarra starfsstétta.

Símenntun og þroski í starfi eru eitt af grundvallaratriðum í bráðahjúkrun. Nauðsynlegt er að bráðahjúkrunarfræðingurinn fylgist vel með þeirri hröðu þróun sem á sér stað í umönnun veikra og slasaðra svo hægt sé að tryggja gæði hjúkrunarþjónustunnar. Bráðahjúkrun er eða hefur verið kennd í hjúkrunarfræðinámi við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og heilbrigðisdeild Háskólans á Akureyri.

Stjórn

Formaður

Vala Guðmundardóttir

Gjaldkeri

Tryggvi Hjörtur Oddsson

Meðstjórnandi

Auður Ólafsdóttir

Meðstjórnandi

Svala Rakel Hjaltadóttir

Meðstjórnandi

Dóra Björnsdóttir

Erlent samstarf

Samtök bráðahjúkrunarfræðinga í Bandaríkjunum: Emergency Nurses Association (ENA)
Samtök bráðahjúkrunarfræðinga í Evrópu: European Society for Emergency Nursing (EuSEN). Guðbjörg Pálsdóttir situr í stjórn fyrir hönd fagdeildarinnar.

Stefna

Starfsreglur

Nafn deildar
Nafn fagdeildarinnar er Fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga og starfar innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Heimili og varnarþing er í Reykjavík en umdæmið er landið allt. Lög Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru lög fagdeildarinnar.

Markmið
Að stuðla að bættri hjúkrun á bráðamóttökum með því að:

 • Stuðla að bættri menntun félagsmanna.
 • Hvetja félagsmenn til að viðhalda og auka hæfni sína og þekkingu.
 • Stuðla að aukinni fræðslu og forvörnum til fagaðila.
 • Stuðla að nánara samstarfi við aðra hjúkrunarfræðinga jafnt innan lands sem utan.
 • Að kynna og koma á framfæri málefnum skjólstæðinga sem og stuðla að aukinni fræðslu og forvörnum þeim til handa.
 • Að stuðla að góðu samstarfi við aðrar starfsstéttir.
 • Að hvetja til rannsókna í bráðahjúkrun.
 • Að vera stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og nefndum til ráðgjafar í öllu því er snýr að bráðahjúkrun.

Félagar
Allir félagsmenn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem starfa við eða hafa áhuga á bráðahjúkrun geta skráð sig í Fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga á sérstakt eyðublað sem er fáanlegt á skrifstofu félagsins.

Aðalfundur
Aðalfund skal halda á hverju ári. Stjórn fagdeildar ákveður tíma og fundarstað og boðar fundinn skriflega með tveggja vikna fyrirvara. Fundarboði skal fylgja dagskrá og tillögur sem ákveðið hefur verið að taka fyrir.

Á dagskrá aðalfundar skal að jafnaði vera:

 • Skýrsla stjórnar.
 • Reikningar lagðir fram til samþykktar.
 • Ársgjald ákveðið
 • Breyting á starfsreglum.
 • Stjórnarkjör, kosning tveggja endurskoðenda
 • Önnur mál.
 • Meiri hluti atkvæða ræður úrslitum mála. Löglega boðaður aðalfundur hefur óskoraðan rétt til afgreiðslu mála.

Deildarfundir
Deildin skal halda amk 2 fundi á ári, að vori og að hausti. Vorfundur er jafnframt aðalfundur. Deildarfundir skulu boðaðir skriflega með minnst tveggja vikna fyrirvara.

Stjórn deildarinnar
Stjórn deildarinnar skal skipuð fimm félögum; formanni, ritara, gjaldkera og tveimur meðstjórnendum. Leitast skal við að minnsta kosti einn stjórnarmeðlimur hafi lokið viðbótar- eða framhaldsnámi í bráðahjúkrun. Formaður er kosinn sérstaklega á aðalfundi en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum.Kjörtímabil er tvö ár og er endurkjör heimilt, þó skal enginn stjórnarmaður sitja lengur en sex ár samfleytt í stjórn. Leitast skal við að ekki sé skipt um nema þrjá stjórnarmeðlimi í einu og að a.m.k. 2 aðilar úr fyrri stjórn sitji áfram í nýrri stjórn. Kosning skal vera skrifleg og leynileg eftir tilnefningu og fara fram eftir venjulegum reglum um meirihluta atkvæða.

Reikningar
Reikningar deildarinnar miðast við aðalfund annað hvert ár.

Slit deildarinnar
Deildin verður því aðeins lögð niður að meirihluti félaga sé því samþykkur.

Breytingar á starfsreglum
Starfsreglum má aðeins breyta með 80% meirihluta atkvæða á aðalfundi fagdeildarinnar.

Gildi starfsreglna
Starfsreglur þessar og breytingar skv. grein um breytingar á starfsreglum öðlast gildi þegar þær hafa verið samþykktar af stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.