Fara á efnissvæði

Fagdeild um samþættar meðferðir (Integrative nursing)

Samþætt meðferð vísar til meðferðar sem ekki hefur verið talin hluti af hefðbundinni heilbrigðisþjónustu en sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að geti nýst samhliða hefðbundinni meðferð.

Um fagdeildina

Á aðalfundi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga 27. maí 2010 voru samþykktar starfsreglur fyrir fagdeild um viðbótarmeðferð í hjúkrun. Undir viðbótarmeðferð flokkast meðal annars nálarstungur, slökun, dáleiðsla, nudd, jóga og svæðameðferð. Fagdeild um viðbótarmeðferð var stofnuð 23. september 2010.

Á auka aðalfundi fagdeildar um viðbótarmeðferð þann 18. október 2018 var samþykkt að breyta heiti fagdeildarinnar í Fagdeild um samþætta hjúkrun (Integrative nursing). Nýtt nafn endurspeglar betur áherslur í heilbrigðisþjónustu á heimsvísu þar sem áður var kallað viðbótar- og/óhefðbundnar meðferðir er ekki lengur viðbót eða óhefðbundið. Með nýju nafni endurspeglum við alþjóðegar áherslur m.t.t. Integrative nursing.

Allir félagsmenn í Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga, sem hafa áhuga á samþættum meðferðum geta orðið félagsmenn. Vísbendingar eru um að samþætt hjúkrun sé að öðlast sess í heilbrigðiskerfi Vesturlanda og að samþætting við hefðbundnar heilsutengdar úrlausnir fari vaxandi.

Gagnsemi samþættra meðferða til að draga úr einkennum og bæta líðan sjúklinga hefur sífellt betur verið að koma í ljós. Margar heilbrigðisstofnanir leyfa notkun samþættra meðferða. Efla þarf enn frekari þekkingu meðal heilbrigðisstarfsmanna og almennings um hugmyndafræði, gagnsemi og gildi samþættrar hjúkrunar og hvetja til frekari notkunar innan heilbrigðiskerfisins sem stuðning við hefðbundna þjónustu.

Stjórn

Formaður

Rannveig Björk Gylfadóttir

Gjaldkeri

Þóra Jenný Gunnarsdóttir

Ritari

Kristín Rósa Ármannsdóttir

Meðstjórnandi

Rannveig Eir Helgadóttir

Meðstjórnandi

Lilja Steingrímsdóttir

Varamaður

Lóa Björk Ólafsdóttir

Varamaður

Dagný Hængsdóttir

Skoðunarmaður reikninga

Lilja Jónasdóttir

Styrktarsjóður

Stjórn styrktarsjóðs

Gjaldkeri

Þóra Jenný Gunnarsdóttir

Rósa Dagbjört Hilmarsdóttir 

Kristín Rósa Ármannsdóttir

Styrktarsjóður Fagdeildar um samþætta hjúkrun

Starfsreglur

 1. Sjóðurinn nefnist Styrktarsjóður Fagdeildar um samþætta hjúkrun.
 2. Gjaldkeri fagdeildarinnar situr í stjórn sjóðsins, svo og tveir félagar deildarinnar sem kjörnir eru á aðalfundi til tveggja ára í senn. Ekki skulu allir stjórnarmenn ganga úr stjórn á sama tíma.
 3. Styrkir eru veittir einu sinni á ári. Umsóknir berist fyrir 15. apríl og verður svarað fyrir 15. maí. Heildarupphæð til úthlutunar er 150 þúsund krónur á ári. Hámarksupphæð hvers styrks er 50 þúsund krónur.
 4. Umsóknareyðublað fyrir styrkumsókn má nálgast á vefsíðu fagdeildarinnar. Umsóknum skal skila rafrænt til skrifstofu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga með tilheyrandi fylgiskjölum.
 5. Umsækjendur skulu hafa verið félagar í Fagdeild um samþætta hjúkrun í að minnsta kosti eitt ár og vera skuldlausir við fagdeildina.
 6. Styrkir eru veittir til að sækja námskeið, ráðstefnur og málþing til að kynna sér samþætta hjúkrun, svo og vegna faglega skipulagðra heimsókna í sama tilgangi. Í umsókn skal segja frá markmiði með styrkbeiðni. Eldri verkefni en tólf mánaða eru ekki styrkhæf.
 7. Greiðsla styrks er alltaf endurgreiðsla útlagðs kostnaðar samkvæmt reikningi í frumriti. Sé styrks ekki vitjað fyrir lok þess árs sem hann er veittur fellur hann niður.
 8. Ef fleiri umsóknir berast en unnt er að sinna er dregið milli þeirra sem teljast jafngildar. Þeir sem hafa áður fengið styrk úr sjóðnum lenda aftar í röðinni.
 9. Styrkþegar mega vænta þess að vera beðnir um að kynna verkefnið á fundi fyrir félögum fagdeildarinnar.
 10. Styrktarsjóðurinn er í vörslu gjaldkera fagdeildarinnar. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Reikningar sjóðsins verða yfirfarnir af skipuðum skoðunarmönnum reikninga fagdeildarinnar fyrir aðalfund hvers árs.
 11. Greidd félagsgjöld félagsmanna fagdeildarinnar næstliðið ár renna óskert í styrktarsjóðinn. Ef greidd félagsgjöld ná ekki 150 þúsund krónum verður mismunur lagður til úr sjóðum fagdeildarinnar.
 12. Stjórn Fagdeildar samþættrar hjúkrunar áskilur sér rétt til að taka tillit til fjárhagsstöðu fagdeildarinnar á hverjum tíma og aðlaga úthlutun ef miklar breytingar verða á fjárhag deildarinnar.
 13. Fara skal yfir reglur sjóðsins á hverju ári að fenginni reynslu og leggja fyrir aðalfund fagdeildarinnar ef breytinga er þörf.

Starfsreglur samþykktar á aðalfundi 18. mars 2021

Eftirfarandi bráðabirgðaákvæði var fellt út á aðalfundi 2022 þar sem það átti einungis við fyrstu kosningar í stjórn styrktarsjóðs:
Við fyrsta kjör til stjórnar sjóðsins skal kjósa einn félaga deildarinnar til tveggja ára og annan til eins árs.

Erlent samstarf

Fagdeildin hefur tekið þátt í samstarfi með Center for Spirituality and Healing við að skipuleggja ráðstefnu um Integrative Nursing.

Starfsreglur

1. grein
Nafn deildarinnar er Fagdeild um samþætta meðferð í hjúkrun. Fagdeildin starfar innan Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Heimili og varnarþing er í Reykjavík en umdæmið er landið allt. Lög Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga eru lög fagdeildarinnar.

2. grein
Allir aðilar að Félagi íslenskra hjúkrunarfræðinga sem hafa áhuga á samþættum meðferðum geta orðið félagar. Þeir félagsmenn sem ekki greiða félagsgjöld í tvö ár í röð falla sjálfkrafa af félagaskrá.

Samþætt meðferð vísar til meðferðar sem ekki hefur verið talin hluti af hefðbundinni heilbrigðisþjónustu en sýnt hefur verið fram á með rannsóknum að nýtist samhliða hefðbundinni meðferð.

3. grein
Markmið fagdeildarinnar eru:

 • Að stuðla að viðurkenningu á notkun gagnreyndrar samþættrar meðferðar innan heilbrigðiskerfisins sem hefur þann tilgang að efla heilsu, lina þjáningar, draga úr sjúkdómseinkennum og bæta lífsgæði.
 • Að vinna að auknu framboði samþættum meðferðum innan heilbrigðiskerfisins og tryggja aðkomu hjúkrunarfræðinga í þeim efnum.
 • Að stuðla að aukinni þekkingu almennings, sjúklinga, fagfólks og heilbrigðisyfirvalda á samþættum meðferðum.
 • Að vera talsmaður samþættra meðferða í samskiptum við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, aðrar heilbrigðisstéttir, fyrirtæki á heilbrigðissviði og stjórnvöld.
 • Að hvetja til aukinnar menntunar hjúkrunarfræðinga á sviði samþættra meðferða, meðal annars með því að efla hlut slíkrar menntunar í hjúkrunarnámi.
 • Að stuðla að miðlun upplýsinga með útgáfu, netmiðlun, fundum, ráðstefnum og hvers konar fræðslu um samþættar meðferðir.
 • Að efla skráningu, mat og rannsóknir á sviði samþættra meðferða á Íslandi.
 • Að hafa yfirsýn yfir það starf sem unnið er á sviði samþættra meðferða innan heilbrigðiskerfisins.
 • Að halda saman upplýsingum um meðferðaraðila, nám þeirra, starfstíma og vinnustað.
 • Að standa fyrir formlegu samstarfi við samsvarandi félög erlendis og að vera virkur þátttakandi í alþjóðlegri samvinnu hjúkrunarfræðinga á sviði samþættra meðferða.

4. grein
Aðalfundur skal haldinn árlega í mars. Aðalfund skal boða skriflega eða með tölvupósti með tveggja vikna fyrirvara hið minnsta. Fundarboði skal fylgja dagskrá og tillögur sem ákveðið hefur verið að leggja fram. Aðalfundur er löglegur sé löglega til hans boðað. Framboðsrétt til stjórnar og atkvæðisrétt á aðalfundi hafa félagsmenn sem hafa greitt félagsgjöld á yfirstandandi starfsári. Á dagskrá aðalfundar skal að jafnaði vera eftirfarandi:

 • Skýrsla stjórnar
 • Endurskoðaðir reikningar lagðir fram
 • Kosning stjórnar og skoðunarmanna reikninga
 • Árgjald ákveðið
 • Önnur mál

5. grein
Stjórn deildarinnar skal skipuð fimm félagsmönnum; formanni, ritara, gjaldkera og tveimur meðstjórnendum. Tveir varamenn eru kjörnir og hafa þeir heimild til setu á stjórnarfundum. Stjórnarkjör fer fram á aðalfundi í tvennu lagi. Fyrst er formaður kosinn sérstakri kosningu, síðan er kosið um fjóra stjórnarmenn og tvo varamenn. Stjórn skiptir með sér verkum. Kjörtímabilið er tvö ár og er endurkjör heimilt. Þó skal enginn stjórnarmaður sitja lengur en sex ár samfleytt í stjórn. Í forföllum formanns stýrir ritari/gjaldkeri störfum stjórnar. Leitast skal við að tryggja samfellu í störfum stjórnar á þann veg að a.m.k. tveir aðal- eða varamenn úr fyrri stjórn sitji áfram í nýrri stjórn.

6. grein
Ákvörðun um slit fagdeildarinnar verður tekin á aðalfundi fagdeildarinnar og skal einfaldur meirihluti ráða og skulu eignir félagsins renna til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

7.grein
Starfsreglur þessar öðlast gildi þegar þær hafa verið samþykktar af stjórn Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Starfsreglum má aðeins breyta á aðalfundi og skulu skriflegar tillögur um breytingar á reglum berast stjórn eigi síðar en fjórum vikum fyrir aðalfund.

Tenglar