Fara á efnissvæði

Hlutverk landsvæðadeilda

Hagnýtar upplýsingar um ábyrgð stjórnarmeðlima landsvæðadeilda og þjónustu af hálfu félagsins.

Hlutverk og ábyrgð landsvæðadeildar

Landsvæðadeild vinnur að framgangi hjúkrunar á sínu landsvæði. Hlutverk hennar er að veita félagsmönnum sínum fræðslu og efla fag-og félagsheils á svæðinu. Hver landsvæðadeild setur sér starfsreglur þar sem fram kemur m.a. tilgangur og markmið deildarinnar. Hún skal vera stjórn og nefndum félagsins til ráðgjafar sbr. 12.gr. laga Fíh.

Tengsl við fagsvið Fíh 

Landsvæðadeildir tilheyra fagsviði Fíh. Sviðstjóri fagsviðs boðar til fundar með formönnum landsvæðadeilda a.m.k. tvisvar á ári. Skal þar vera vettvangur umræðna, samstarfs og upplýsingamiðlunar milli landsvæðadeilda og fagsviðs Fíh.
Fundirnir skulu haldnir að vori og hausti ár hvert.
Stjórn landsvæðadeildar skal tilkynna sviðstjóra fagsviðs Fíh um nýkjörna stjórn hennar svo og allar breytingar sem verða á henni á kjörtímabilinu.

Ársskýrsla

Landsvæðadeild skal skila skýrslu um starfsemi sína til sviðstjóra fagsviðs Fíh fyrir lok marsmánaðar ár hvert.

Þjónusta félagsins

  • Allir formenn landsvæðadeilda fá netfang sem tengt er viðkomandi landsvæðadeild og endar á @hjukrun.is. Til þess að það virki þarf að tilkynna skrifstofu félagsins um formannaskipti og netföng þeirra, svo hægt sé að tengja það innan @hjukrun.is
  • Allur póstur landsvæðadeilda sem berst á skrifstofuna er áframsendur vikulega til formanns deildarinnar.
  • Prentun félagalista fyrir landsvæðadeildir.
  • Tekið er við umsóknum um inngöngu í landsvæðadeild og áframsent til formanns viðkomandi deildar. Þegar búið er að samþykkja nýja félaga eru þeir færðir í félagaskrá.
  • Uppfærsla frá hagstofu á félagaskrá landsvæðadeilda.
  • Færsla efnis inn á vefsvæði félagsins frá landsvæðadeildum.
  • Senda út póst á netföng eftir netfangaskrá landsvæðadeildar.
  • Aðstoð við ljósritun á fréttabréfi og öðrum bæklingum í lit. Beiðni um aðstoð þarf að berast með nokkra daga fyrirvara.

Hvernig á að stofna landsvæðadeild? 

Félagsmönnum, þó að lágmarki 25, er heimilt að stofna deild á ákveðnu landsvæði. Félagsmenn, sem annaðhvort búa eða starfa á svæðinu geta skráð sig í viðkomandi deild. Þátttaka í landsvæðadeild er valkvæð.

Fyrirhuguð landsvæðadeild setur sér starfsreglur sem eru byggðar á starfsreglum landsvæðadeilda Fíh sem stjórn Fíh hefur samþykkt.
Starfsreglur væntanlegrar landsvæðadeildar skulu lagðar fyrir aðalfund Fíh til samþykktar.
Senda þarf starfsreglur væntanlegrar landsvæðadeildar til stjórnar Fíh a.m.k. 4 vikum fyrir aðalfund.
Samþykki aðalfundur stofnun fyrirhugaðrar landsvæðadeildar skal senda skriflega staðfestingu þar um til þess aðila sem sendi inn beiðni um stofnun viðkomandi deildar.

Hvernig á að leggja niður landsvæðadeild? 

Ákvörðun um slit deildarinnar skal taka á aðalfundi með ¾ hlutum greiddra atkvæða og renna eignir deildarinnar til Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Skili deildin ekki ársskýrslu til stjórnar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga tvö ár í röð getur aðalfundur félagsins tekið ákvörðun um slit deildarinnar.

Sniðmát starfsreglna