Fara á efnissvæði
Viðtal

Íslenskir hjúkrunarfræðingar reiðubúnir í breytingar

Dr. Alison Kitson er breskur hjúkrunarfræðingur búsett í Adelaide í Ástralíu þar sem hún gegnir stöðu deildarforseta hjúkrunar- og heilbrigðisvísinda við Flinders-háskóla. Hún heimsótti Ísland fyrr á þessu ári og hélt fyrirlestra.

Dr. Alison Kitson er breskur hjúkrunarfræðingur búsett í Adelaide í Ástralíu og er hún deildarforseti hjúkrunar- og heilbrigðisvísinda í Flinders-háskóla. Kitson var sviðsstjóri fagsviðs Félags breskra hjúkrunarfræðinga, Royal College of Nursing, RNC, um árabil og hefur verið ötull talsmaður framþróunar og gæða innan hjúkrunar með áherslu á uppbyggingu leiðtogafærni og fagmennsku í almennri hjúkrun.

Kitson heimsótti Ísland í mars síðastliðnum og hélt þrjá fyrirlestra, á Landspítala, á velferðarsviði Reykjavíkurborgar og í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ, um grunngildi hjúkrunar. Við gátum ekki sleppt tækifærinu að fá að ræða við þennan öfluga og heimsþekkta hjúkrunarfræðing.

„Ég er ekki hér til að segja fólki hvað það á að gera, ég hlusta á fólk. Það sem ég heyri frá hjúkrunarfræðingum á Íslandi er að þeir hafa enn ástríðu fyrir faginu og vilja sjá alvörubreytingar á heilbrigðiskerfinu. Þeir vilja eiga raunverulegt samtal við stjórnvöld um virði starfa hjúkrunarfræðinga og ég heyri að þeir vilji fá að blómstra sem leiðtogar til að heilbrigðiskerfið verði eins gott og hægt er fyrir sjúklinga, heilbrigðisstarfsfólk og aðstandendur,“ segir hún.

„Í fyrirlestrum mínum fyrir kollega mína á Íslandi ræddi ég um hvernig aðrir hafa tekist á við svipuð vandamál. Sérstaklega þegar kemur að grunngildum almennrar hjúkrunar, hvernig kerfið skilur hlutverk hjúkrunar og virði þjónustunnar. Hvernig hjúkrunarfræðingar geta komið rödd sinni að til að tryggja að sjúklingar verði ekki fyrir skaða þegar þeir fara í gegnum heilbrigðiskerfið.“

Almenn hjúkrun (e. fundamental care) snýst um að tryggja að grundvallarþarfir skjólstæðinga séu uppfylltar. „Þetta er allt frá þörfum sem foreldrar þínir uppfylltu á fyrstu vikunum þínum til að halda þér lifandi yfir í lágmarksstuðning fyrir einstakling sem getur að mestu hugsað um sig sjálfur,“ segir Kitson. „Almenn hjúkrun byggir á því að mynda samband við sjúklinginn, samþætting sálfélagslegs stuðnings og vensla sem tekur mið af aðstæðum hverju sinni. Þannig tryggja hjúkrunarfræðingar að sjúklingur hafi það sem best og nái heilsu.“

Sögðu hingað og ekki lengra

Kitson kemur til landsins sem fulltrúi samtakanna International Learning Collaborative, ILC, sem stofnuð voru í Oxford-háskóla árið 2008 til að breiða út boðskap um almenna hjúkrun. Kveikjan að stofnun samtakanna var Francis-rannsóknin á slæmum aðstæðum á sjúkrahúsum í Mid Staffordshire í Bretlandi sem leiddu til dauða meira en 500 sjúklinga á árunum 2005 til 2008. Í svartri skýrslu rannsóknarnefndarinnar, sem kennd er við formanninn Robert Francis, komu í ljós víðtækar brotalamir í þjónustu við sjúklinga sem rekja mátti til skorts á starfsfólki og áherslu á að ná sértækum markmiðum stjórnvalda.

„ILC er hópur sem kom saman eftir þessar stóru hörmungar í breskri heilbrigðissögu. Ég var hluti af teyminu sem sagði hingað og ekki lengra, þörf væri á aðgerðum til að minnka líkurnar á að svona gæti komið fyrir aftur. Til að gera það þarf að láta rödd hjúkrunarfræðinga heyrast út um allan heim,“ segir Kitson. „Í dag erum við með starfsemi í Ameríku, Evrópu, Ástralíu og Singapúr, þetta er hreyfing sem mun leiða til breytinga um allan heim. Það er frábært að Ísland sé nú hluti af því.“

Almenn hjúkrun (e. fundamental care) samkvæmt skilgreiningu ILC.

Tónninn breyttist eftir faraldurinn

Áherslur og tónn samtakanna, líkt og hjá hjúkrunarfræðingum um allan heim, breyttist í COVID-19 heimsfaraldrinum. „ILC, líkt og fleiri samtök, tekur púlsinn á breytingum í hjúkrun en ólíkt öðrum þá er okkar fókus á grunngildin. Árið 2019 gáfum við út Álaborgar-yfirlýsinguna þar sem byggt var á reynslu leiðtoga í hjúkrun um allan heim, þau sögðu frá hvernig slakað hefði verið á kröfum, þrýstingur væri á að fylla út í pappíra og alls konar fleiri atriði sem eiga ekki að vera ofarlega í forgangi fyrir hjúkrunarfræðinga. Í yfirlýsingunni segir að við þurfum að meta almenna hjúkrun og tala um hana á öllum stigum heilbrigðiskerfisins. Við þurfum að sýna fram á mikilvægi undirstöðuatriðanna, viðurkenna það og láta í okkur heyra. Svo þarf að rannsaka það. Þetta eru tólin sem við höfum til að breyta hjúkrunarfræði frá því að vera samtal um vöntun og vonleysi yfir í bjartsýni og vöxt,“ segir Kitson.

Tónn hjúkrunarfræðinganna breyttist tilfinnanlega í Oxfordyfirlýsingu samtakanna sem gefin var út í fyrra. „Það má kalla þetta réttláta reiði, þess vegna hét yfirlýsingin „Ekki fleiri hetjur“ (e. No More Heroes). Hjúkrunarfræðingar vilja ekki láta sjá sig sem engla. Ef einstaka starfstéttir eru settar á einhvern stall þá geta þær ekki sinnt starfinu sínu, það er í raun aðferð til að þagga niður í fólkinu sem heldur kerfinu gangandi. Það eru ýmist meðvitaðir eða ómeðvitaðir fordómar gagnvart hjúkrunarfræðingum, sem eru að stærstum hluta konur sem halda heilbrigðiskerfum heimsins gangandi,“ segir hún. „Við viljum ekki vera englar. Við viljum ekki vera hetjur. Við viljum að fólk viðurkenni störf hjúkrunarfræðinga. Við viljum sæti við borðið, ekki vera sagt að allt verði í lagi ef við gerum bara það sem okkur er sagt. Því þá verða hlutirnir ekki í lagi. Skilaboðin eru pólitísk, hingað og ekki lengra, við viljum fá viðurkenningu á því sem við gerum. Við þurfum að breyta afstöðu fólks til hjúkrunarfræðinga, hjálpa því að skilja verðmæti starfa okkar og við tökum okkar réttmætu stöðu sem leiðtogar sem ætla að breyta heilbrigðiskerfinu.

Breyta þarf umræðunni

Staðan sem kom upp á sjúkrahúsunum í Mid Staffordshire er ekki einsdæmi, frá stofnun ILC hafa dæmi komið upp þar sem skjólstæðingar hafa þurft að þjást vegna skorts á almennri hjúkrun. Tvær svartar skýrslur hafa komið út í Ástralíu, ein vegna vanda í öldrunarþjónustu og önnur um þjónustu við fatlað fólk. Í Evrópu og Bandaríkjunum hafa verið gerðar rannsóknir sem varpa ljósi á ýmsa vankanta, vannæringu inni á sjúkrastofnunum og skjólstæðingar sem fara í óráð. „Þetta eru allt vandamál sem rekja má til skorts á almennri hjúkrun sjúklinga, það er hins vegar ekki búið að tengja þetta saman. Ef þessir fylgikvillar væru kallaðir sínu rétta nafni, skortur á almennri hjúkrun, þá næðum við meira gripi til að komast áfram,“ segir Kitson.

Kitson hefur hlotið mörg heiðursverðlaun fyrir störf sín í þágu hjúkrunarfræði. Hún er heiðursdoktor við háskólana í Malmö í Svíþjóð og Álaborg í Danmörku, ásamt því að veraheiðursfélagi í Samtökum hjúkrunarfræðinga í Bandaríkjunum.

Hvað getur hjúkrunarfræðingur sem einstaklingur gert? „Í fyrsta lagi að hlúa persónulega að grunngildum hjúkrunar, tala um þau á hverjum degi og fagna því sem vel tekst. Vera þannig fyrirmynd fyrir aðra. Ekki hika að taka til máls ef það er ekki verið að uppfylla almenna hjúkrun og bjóða þeim birginn sem átta sig ekki á mikilvægi hennar. Ef hjúkrunarfræðingarnir vilja breyta heiminum þá mega þeir endilega ganga til liðs við ILC og stunda rannsóknir.“

Það er mikilvægt að læra af reynslu annarra þjóða, það er eitt helsta verkefni Kitson hér á landi. Það er líka mikilvægt að draga lærdóm af því sem fer miður í starfsemi einstakra stofnana og deilda, ekki binda það við einstakling. „Það er reynsla margra heilbrigðisstarfsmanna að það sé alltaf leitað að einstaklingi sem sökudólgi. Það leiðir einungis til þess að raunverulega vandamálið er ekki tæklað,“ segir Kitson. „Þetta snýst líka um almenna hjúkrun, sem er algjör undirstaða öruggs heilbrigðiskerfis, almenn hjúkrun þarf að vera með í umræðunni og það þarf að vera hægt að mæla það, þannig er hægt að verja sjúklinga og ekki síst starfsfólk,“ segir hún. „Kulnun er orðið stórt vandamál, ég heyri það líka á Íslandi. Það er vegna þess að fólk er orðið langþreytt, langþreytt á að berjast við kerfi sem metur störf þeirra ekki að verðleikum.“ Til að ná fram breytingum þarf fyrst að breyta umræðunni. „Hjúkrun byggist á sambandi við sjúkling og að veita sjúklingum gæðaumönnun. Við höfum verið ginnt til þess að byggja umræðuna á lífeindafræðilegum forsendum, gera klínskar sjúkdómsgreiningar og finna réttu meðferðina. Það er vissulega mjög árangursríkt en við vitum núna að í þjóðfélögum þar sem fólk er með marga sjúkdóma og öldruðum fjölgar hratt, þá þurfum við að byggja umræðuna á lífsálfélagsfræðilegum forsendum með áherslu á almenna hjúkrun.“

Erum við föst í gátlista-menningu? „Algjörlega. Við störfum á forræði gátlistanna. Fólk heldur enn þá að það sé hægt að brjóta niður verk og með því að tryggja að þessi ákveðnu verk séu innt af hendi þá minnki það áhættu. Við erum að vinna með manneskjur og erum kannski að horfa á fjórða tug mismunandi atriða sem snerta grunnþarfir einstaklings þá er ekki hægt að hafa það allt skrifað niður. Reglulega bendir gátlistinn til þess að áhætta sé til staðar sem hjúkrunarfræðingurinn veit að á ekki við.“

Kitson nefndir sérstaklega sjúklinga með óráð. „Það er mjög flókið fyrirbæri en samt sem áður telur það til rúmlega 48 prósenta fylgikvilla. Gátlisti segir þér að viðkomandi eigi við vandamál að stríða. Þarna þarf hjúkrunarfræðingur að leggja gátlistann frá sér, byggja samband, meta hvaða lausnir eru í boði sem minnka líkurnar á skaða fyrir sjúklinginn.

Innbyrðis deilur eru orkutap

Kitson hóf störf hjá RCN um miðjan tíunda áratuginn sem verkefnastjóri og vann sig upp í að verða sviðsstjóri fagsviðs með ábyrgð á samskiptum við stjórnvöld, stefnumörkun og fleira. „Það skiptir miklu máli að hafa sterk fag- og stéttarfélög, þannig geta hjúkrunarfræðingar haft pólitísk áhrif,“ segir hún.

Þegar viðtalið er skrifað hefur RCN staðið fyrir víðtækum verkföllum hjúkrunarfræðinga á sjúkrahúsum hins opinbera víða á Bretlandi, breska ríkið hefur ekki viljað koma til móts við kröfurnar. „Það sem gerir mig sorgmædda er þegar stéttin stendur ekki saman. Það er orkutap þegar hjúkrunarfræðingar standa í deilum innan sinna raða. Við þurfum að minna okkur á hlutverk hjúkrunarfræðinga í þjóðfélaginu, hjúkrunarfræði er ein virtasta starfstétt í heiminum og við verðum að halda því trausti. Við megum ekki verða eins og stjórnmálamenn sem enginn treystir,“ segir hún og brosir.

Barátta hjúkrunarfræðinga fyrir bættum kjörum og launum til jafns við aðrar háskólamenntaðar stéttir er alþjóðleg. „Margar áskoranir í hjúkrun í dag eru alþjóðlegar,“ segir hún. „Ég man eftir einum alþjóðlegum baráttudegi kvenna, ég mætti á sex mismunandi viðburði þann dag, ég hugsaði að ég myndi vilja skipta því öllu út fyrir það að konur fengju sömu laun og karlar. Þá þyrftum við ekki slíkan dag, þetta hljómar kaldranalega en þá er þetta eins og allir aðrir dagar séu baráttudagar karla.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kitson heimsækir Ísland. Hún hefur komið einu sinni áður og í bæði skiptin í faglegum tilgangi. Hún sér fram á að heimsækja Ísland aftur.

Ísland reiðubúið fyrir breytingar

Kitson fæddist á Norður-Írlandi, þar stundaði hún hjúkrunarfræði og starfaði sem hjúkrunarfræðingur. Þaðan flutti hún til Lundúna þar sem hún starfaði fyrir RCN, meðfram þeim störfum sinnti hún rannsóknarstörfum í Oxford-háskóla. „Ég hef alltaf verið með tengingu við háskólasamfélagið þó að ég hafi ekki verið að sinna hefðbundnum störfum, ég er ekki mikið í því að vera hefðbundin. Ég hugsaði þetta þannig að ég vildi frekar hafa áhrif á störf 400 þúsund hjúkrunarfræðinga frekar en að flytja fyrirlestra fyrir 400 nemendur sem væru hvort eð er ekki að hlusta á mig,“ segir hún og brosir. Þaðan lá leið hennar til Ástralíu. „Það er frábært land, fallegt líka og með frábær vín. Það er líka mikill menningarlegur fjölbreytileiki,“ segir hún.

Margrét Guðnadóttir, hjúkrunarfræðingur sem hefur notið mentor-leiðsagnar Kitson, hafði milligöngu um komu hennar til landsins. „Ég er búin að hitta hópa frá Landspítala, Heimaþjónustu, samfélagsteymi, Háskóla Íslands og Velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Það hefur verið mikið að gera en mjög gaman,“ segir hún. „Ég finn að það eru allir mjög reiðubúnir fyrir breytingar, þannig að ég eða ILC erum reiðubúin að aðstoða við það.“

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Kitson kemur til landsins, hún heimsótti Ísland snemma á tíunda áratugnum og var aðeins í sólarhring til að mæta á ráðstefnu. „Það var í desember, rosalega kalt og þoka,“ segir hún. „Ég þarf að koma hingað aftur enn daginn.“