Fara á efnissvæði
Umsögn

Áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar um takmörkun áfengissölu 

Bréf sent á Alþingismenn og ráðherra 7. júní 2024.

Í ljósi óheillaþróunar á sölu áfengis skorar Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga á Alþingismenn og ráðherra að takmarka sölu á áfengi og standa vörð um lýðheilsu þjóðarinnar.

Áfengi er ekki venjuleg neysluvara. Neysla hennar hefur skaðleg áhrif á heilsu og ekki eru nein þekkt viðmið um skaðlausa notkun hennar. Áfengi er einn af fjórum algengustu áhættuþáttum fyrir langvinnum sjúkdómum, hefur áhrif á myndun ýmissa tegunda krabbameina, sykursýki, hjartasjúkdóma, skorpulifur og heilablóðfalls.

Fjölmargar alþjóðlegar rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi hefur í för með sér aukna notkun þess, sem leiðir til aukinna heilbrigðis- og félagslegra vandamála með tilheyrandi kostnaði og þjáningu fyrir samfélagið.

Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar segir að stuðlað verði að heilbrigðu samfélagi. Það séu sameiginlegir hagsmunir, bæði efnahagslegir og félagslegir að lögð sé áhersla á lýðheilsu, forvarnir og geðheilbrigðismál. Þar segir einnig að mikilvægt sé að stuðla að heilbrigði og lífsgæðum fólks með áherslu á lýðheilsu. Sambærileg sjónarmið eru einnig að finna í stefnuskrám sumra stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu.

Í lýðheilsustefnu til ársins 2030 sem samþykkt var á Alþingi árið 2021 er stefnt að því að Íslendingar verði meðal fremstu þjóða í lýðheilsustarfi sem byggist á bestu vísindaþekkingu og reynslu. Þar segir einnig að valdar verði árangursríkar lausnir. Gagnreynd vísindaþekking og reynsla annarra þjóða sýnir að árangursríkasta lausnin til að draga úr notkun á áfengi er að skerða aðgengi að henni.

Núverandi fyrirkomulag þar sem hægt er að kaupa áfengi utan afgreiðslutíma verslana ÁTVR og fá það sent heim til sín á skömmum tíma er veruleg aukning á aðgengi fólks að áfengi. Aukið aðgengi að áfengi er ekki í samræmi við stjórnarsáttmála né lýðheilsusjónarmið þau sem sett hafa verið.

Hjúkrunarfræðingar starfa á öllum sviðum heilbrigðisþjónustunnar og eru viðamestu hlutverk þeirra heilsuvernd, heilsuefling og forvarnir, eins og segir í stefnu félagsins í hjúkrunar- og heilbrigðismálum til 2030. Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga er alfarið mótfallið breytingum sem hafa í för með sér aukið aðgengi að áfengi. Það mun leiða til aukinnar heildarneyslu sem er með öllu andstætt bættri lýðheilsu þjóðarinnar. Ef núverandi fyrirkomulag heldur áfram án aðgerða eða verður lögfest, þá munum við sjá gríðarlega afturför í baráttunni fyrir bættri lýðheilsu.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga skorar því á Alþingi að standa vörð um lýðheilsustefnu og heilbrigðisstefnu til 2030, ríkisstjórnina að halda sig við lýðheilsumarkmið stjórnarsáttmálans og standa þannig með heilsu og velferð þjóðarinnar.