Fara á efnissvæði
Viðtal

Brennur fyrir mannréttindum og heilbrigði jarðar

Elísabet Herdísar Brynjarsdóttir brennur fyrir mannréttindum og hnattrænni heilsu og hefur nýlokið meistaranámi í forystu og stefnumótun þar sem áhersla var á heilbrigði jarðar eða planetary health.

Texti: Þórunn Sigurðardóttir | Myndir: Úr einkasafni

Mörg kannast eflaust við hjúkrunarfræðinginn Elísabetu Herdísar Brynjarsdóttur því þrátt fyrir ungan aldur hefur hún látið gott af sér leiða í málefnum heimilislausra og jaðarsettra hópa ásamt því að hafa verið virk í stúdentapólitíkinni. Þessi fyrrverandi verkefnastýra Frú Ragnheiðar hlaut viðurkenningu JCI sem Framúrskarandi ungur Íslendingur árið 2020. Tveimur árum áður varð hún fyrsti hjúkrunarfræðineminn til að gegna embætti formanns Stúdentaráðs við Háskóla Íslands og var einnig stofnmeðlimur Hugrúnar sem er geðfræðslufélag sem var stofnað árið 2016 af nemum í hjúkrunarfræði, læknisfræði og sálfræði. Eftir útskrift úr hjúkrunarfræði árið 2017 hóf hún störf sem verkefnastýra Frú Ragnheiðar en áður hafði hún sinnt þar sjálfboðaliðastörfum auk þess að vinna á krabbameinsdeild Landspítalans.

Mannréttindi og heilbrigði jarðar

Í dag brennur Elísabet fyrir mannréttindum og hnattrænni heilsu og hefur nýlokið meistaranámi í forystu og stefnumótun þar sem áhersla var á heilbrigði jarðar eða planetary health.

„Þetta málefni þarfnast sameiginlegs átaks margra aðila því það er ótrúlega margt sem hægt er að gera. Við sjáum lækna stíga fram með félag lækna gegn umhverfisvá núna í janúar og hjúkrunarfræðingar finnst mér eiga að vera með fagdeild undir hjúkrunarfélaginu sem býr til vettvang fyrir hjúkrunarfræðinga,“ segir Elísabet sem starfar í dag við mengunar- og umhverfiseftirlit hjá Heilbrigðiseftirlitinu. Þar vinnur hún með öðrum sérfræðingum og hver og einn gegnir þar mikilvægu hlutverki.

„Í starfinu hjá Heilbrigðiseftirlitinu er ég að vinna með líffræðingum, matvælafræðingum og næringarfræðingum og þau eru með innsýn í gögn sem ég held að myndi styðja við lýðheilsurannsóknir. Þau eru að taka sýni úr lækjum, menguðum jarðvegi og starfa við þá nálgun að búa til heilnæmt umhverfi, sem fyrir mér er bara lýðheilsa. Svo komum við inn, hjúkrunarfræðingarnir, með okkar nálgun. Við erum kannski með tölfræði og gögn líka en við erum með annars konar sýn og getum líka verið með eigindlegar rannsóknir og tekið viðtöl við einstaklinga sem búa á menguðum svæðum og komið með öðruvísi mynd á þetta. Ég held að boltarnir séu farnir að rúlla og við erum farin að tengja þetta við okkar stétt,“ útskýrir Elísabet.

Hjúkrunarfræðingar með rödd sem verður að hljóma hærra

„Þetta málefni, heilbrigði jarðar, krefst þess að maður átti sig á að þetta stendur ekki og fellur með hjúkrunarfræðingum en að því sögðu hafa hjúkrunarfræðingar rödd sem verður að koma sterkar inn á Íslandi út af sérstöðu okkar í lýðheilsumálum. Við erum bæði með forvarnarhlutverk og erum einnig að hugsa um fólk, ójöfnuð, réttindi fólks og aðgengi að þjónustu og velferð. Þannig að þar slær hjartað mitt, í þessum mannréttindavinkli í umhverfismálum; hvernig slæmt umhverfi hefur áhrif á einstaklinga og hvernig ójöfnuður spilar enn stærra hlutverk í þessu.“

Heildræn sýn í stærra samhengi

Þurfum við sem hjúkrunarfræðingar þá eitthvað að breyta því hvernig við hugsum um þessi mál?

„Ég veit að hjúkrunarfræðingar eru með þetta í kjarnanum sínum. Það þarf kannski bara að skerpa sýnina og tengja hana betur við þessa málaflokka. Fyrir mér þá tengdi ég svo sterkt við í þessa heildrænu nálgun í náminum mínu og fyrir mér birtist sú hugmyndafræði sem ákveðin félagshyggja, þú ert íbúi í samfélagi og hluti af heild. Þegar þú ert svo með sjúkling þá horfirðu ekki bara á greininguna heldur heildina og þess vegna er þetta til staðar hjá hjúkrunarfræðingum. Þegar við horfum á einstaklinginn heildrænt þá sjáum við fjölskyldu, hvernig hann nálgast þjónustu, fjárhagsstöðu hans, trúarbrögð og menningu en ég held að við getum líka tekið inn í myndina ákveðna umhverfisþætti og t.d. velt fyrir okkur við hvað einstaklingurinn vinnur.

Dæmi um þetta er þegar ég var að vinna á krabbameinsdeildinni þá sáum við oft steinlungu, en þá hafði fólk kannski verið að anda sér steinryki í mörg ár í iðnaðarstarfi og þá tengist það umhverfismálum og vinnuréttindum. Þar hafa hjúkrunarfræðingar ótrúlega mikilvægt málsvarshlutverk; að tryggja að vinnuaðstæður séu ekki heilsuspillandi eða umhverfið sé þannig að það sé ekki svifryk eða steinryk í iðnaði sem fólk er að anda að sér. Þetta er málefni þar sem er auðvelt að fara út fyrir sviðið sitt en það er líka svo auðvelt finnst mér að kjarna sig í hjúkruninni, sem er bara þessi virðing fyrir lífinu, mannslífi og heildræn nálgun.“

Hvað getum við sem hjúkrunarfræðingar gert?

„Það er margt sem við getum gert saman, eins og að búa til félag eða ýta á meiri alþjóðleg tengsl við hjúkrunarfræðinga sem eru nú þegar að gera eitthvað í þessu. Eða horfa á þetta út frá stofnunum, að hjúkrunarfræðingar búi t.d. til félag innan Landspítalans eða heilsugæslunnar, búa til umhverfishópa og fara að beita sér fyrir því hvað kerfið getur gert. Heilbrigðiskerfið getur líka brugðist við og verið leiðandi í umræðu varðandi það hvernig stofnanir geta orðið bæði umhverfisvænar og líka heilnæmar fyrir starfsfólk og sjúklinga og sett fordæmi.“

Elísabet og Jóhannes Bjarki í fjallgöngu.

Félag heilbrigðisstétta

Draumurinn hennar Elísabetar er að það verði til félag á Íslandi óháð stofnunum og fyrir allar heilbrigðisstéttir þar sem allir geta komið saman. „Ég vil að þetta félag sé aktívt alþjóðlega út af því að ég hef á mjög stuttum tíma fengið að kynnast því hvað það er mikið í gangi í Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu, Evrópu og sérstaklega í Skotlandi. Glasgow er mjög framarlega, bæði hjúkrunarfræðingar og læknar, í lýðheilsu varðandi loftlagsbreytingar, mengun og áhrif á heilbrigði fólks. Fyrir mér er það algert forgangsatriði núna, að búa til vettvang á Íslandi til þess að tengjast betur umheiminum.“

Á einstaklingsgrundvelli er líka hægt að ná fram breytingum og leggja sitt af mörkum samkvæmt Elísabetu sem hefur sótt ýmsa fundi sem varða íbúa og samfélagið. „Ég hef verið að mæta á samráðsfundi með íbúum, það þarf bara að skrá sig. Ég mæti sem hjúkrunarfræðingur og kem á fundina sem hjúkrunarfræðingur og legg þannig mitt af mörkum. Svo er líka hægt að mæta á fundi og hlusta og sjá þannig hvað er í gangi í samfélaginu.“

Meira en framapot

Lengi vel var Elísabet mótfallin Linkedin, hún tengdi það við framapot sem henni fannst ekki passa við sig en þegar hún loks skráði sig þar inn komst hún að því að það væri hægt að nýta sér miðilinn á fleiri en einn hátt.

„Ég er að fylgja því (á Linkedin) sem ég brenn fyrir, mínum ástríðumálum, mannréttindum, loftlagsmálum, umhverfismálum og tengingu heilbrigðiskerfisins við þessi málefni. Þarna er alltaf verið að auglýsa námskeið á netinu og fræðslufundi hjá virtum stofnunum eins og Columbia í New York, Harvard og John Hopkins og þetta er allt frítt. Það er hellingur sem maður getur gert sem einstaklingur til að fræðast og kynna sér hlutina.“

Í janúar kom Elísabet aftur heim til Íslands eftir ársdvöl í Vancouver í Kanada þar sem hún var í framhaldsnámi og er nú í kjölfarið farin að starfa hjá Heilbrigðiseftirlitinu eins og áður sagði.

„Ég fór í masters-nám í Kanada sem heitir á góðri íslensku stjórnun og stefnumótun með smávegis fókus á kennslu, eða clinical education. Þannig að ég var að læra kennslu í klínísku umhverfi. Svo þegar ég komst að því að mitt ástríðumál eru mannréttindi og umhverfismál þá tók ég meðvitaða ákvörðun um að finna mér starf þar sem ég gat fengið reynslu í umhverfismálum en samt út frá lýðheilsu. Þegar ég sá auglýst starf við mengunarvarnaeftirlit og umhverfisvöktun hjá Heilbrigðiseftirlitinu þá ákvað ég að sækja um.“

Iðnaður og réttur á óspilltri náttúru

Hver og einn gegnir sínu mikilvæga hlutverki hjá Heilbrigðiseftirlitinu en að sögn Elísabetar sjá heilbrigðisfulltrúar um matvælaeftirlit, hollustuhætti og mengunareftirlit. Allur atvinnurekstur þarf að hafa starfsleyfi út frá lögum og reglugerðum og þá meðal annars heilbrigðiseftirlitinu.

„Við gefum út starfsleyfin eftir að hafa farið í úttekt og svo förum við reglulega í eftirlit. Ég er að fara á trésmíðaverkstæði, ýmis konar iðnað, prentiðnað, efnalaugar í raun alls staðar þar sem er einhvers konar mengun. Okkar hlutverk er fyrst og fremst gagnvart umhverfinu en við styðjum okkur við lög um rétt íbúa til heilnæms umhverfis og óspilltrar náttúru. Okkar hlutverk er því í raun að ganga úr skugga um að rekstur hafi ekki skaðleg áhrif á umhverfið og íbúa.“

Elísabet fór í þetta starf til að öðlast reynslu á sviði umhverfismála en hún er einnig í öðrum störfum samhliða því. „Ég er í raun eins og svampur núna hjá Heilbrigðiseftirlitinu en ég er líka enn þá í rannsóknum úti í Kanada þar sem ég er að fókusera á aðgengi að heilbrigðisþjónustu fyrir jaðarhópa með leiðbeinandanum mínum. Við erum með áherslu á jaðarhópa, sérstaklega heimilislausa. Svo er ég að kenna í HÍ.“

Hvað ertu að kenna í HÍ?

„Ég er aðjúnkt við Hjúkrunarfræðideildina og fer inn í námskeið þar sem ég get verið með þennan boðskap um umhverfismál. T.d. var ég að klára námskeið á framhaldsstigi þar sem ég var heilan dag að fjalla um lýðheilsumál, loftlagsál og umhverfisbreytingar, sem sagt framtíðaráskoranir fyrir leiðtoga í hjúkrun.“

Aukin tíðni heilablóðfalla tengd við stöðu loftgæða

Að mati Elísabetar er einnig mikilvægt að við rannsökum meira. „Áskoranirnar sem ég held að við stöndum frammi fyrir eru að reyna að fókusera hvernig við rannsökum þessi mál. Það er ekki mikið um rannsóknir en Embætti landlæknis er að vinna að þróun lýðheilsuvísa sem snúa að mengun. Það gæti verið masters-verkefni eða doktorsverkefni. Svo var Miðstöð lýðheilsuvísinda hjá HÍ með rannsókn þar sem var verið að fylgjast með stöðu loftgæða í borginni og fjölda heilablóðfalla á bráðamóttöku og fjölda lyfjaútskrifana af astmapústum. Það var marktæk aukning á báðum þáttum, bæði tilfelli heilablæðinga og að fólk þurfti astmalyf.“

Elísabet segir að margir séu að hugsa um þessi mál, bæði heilbrigðisstarfsfólk á Íslandi og líka úti í heimi.

„Erlendis eru til deildir við háskóla sem heita Planetary Health, eða heilbrigði jarðar. Þar er fólk að einblína á þetta málefni og gera mikið af rannsóknum. Það er mikið um þetta í Bandaríkjunum og í Kanada er mikill fókus á jöfnuð; hvernig mest menguðu svæðin eru þau svæði þar sem fátækir búa. Gott dæmi um þetta er myndin um Erin Brokowich. Iðnaður er að planta sér þar sem fátækir búa og menga vatnsból og jarðveg og fólk er með mjög marktækt hærri tíðni af krabbameinum. Þetta eru risastór mannréttindamál þarna úti.“

Ósamþykktar íbúðir og falinn ójöfnuður

Hvernig er þá staðan hérna á Íslandi?

„Við erum töluvert betur stödd hérna en það eru helst álverin og iðnaðarhverfin þar sem eru oft ósamþykktar íbúðir þar sem fátækir búa sem er okkar birtingarmynd á Íslandi. Þetta vekur a.m.k. áhuga minn á að rannsaka þetta og kortleggja betur. Í Vallahverfinu í Hafnarfirðinum t.d. þar sem iðnaðarhverfið er býr margt fólk í ósamþykktum íbúðum og þar er ekki gert ráð fyrir íbúabyggð og því eru öðruvísi kröfur gerðar til mengunarvarna. Ég leyfi mér að ímynda mér það að þetta sé heilsuspillandi. Þarna býr fátækt fólk, þarna kemur ójöfnuðurinn inn í þetta.“

Að sögn Elísabetar er ójöfnuður á Íslandi meira falinn en í Kanada, þar sem heimilislausir í Vancouver eru mjög áberandi, og nefnir dæmi um skjólstæðinga Frú Ragnheiðar.

„Þegar ég var að vinna í Frú Ragnheiði vorum við að þróa þjónustu fyrir heimilislaust fólk og vinna með því og reyna að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu. Það kom öllum á óvart, sem ég talaði við, hversu margir væru í þjónustu hjá okkur, því fólki finnst þetta ekki vera sjáanlegt. Það ætti að vera hægt að búa til umhverfi hér á Íslandi þar sem enginn yrði húsnæðislaus. Það er auðvitað stórt heilsufarsmál að eiga þak yfir höfuðið og upplifa öryggi, grundvallarmannréttindi.“

Félagsstörf og fyrirmyndir

Mannréttindi og jöfnuður eru Elísabetu hugleikin og telur hún það að einhverju leyti komið frá fjölskyldu hennar en hún er ættuð frá Neskaupsstað þaðan sem föðurafi hennar flutti ungur til Reykjavíkur til að fá smiðspróf. Þar kynntist hann ömmu Elísabetar og settust þau að í Árbænum. Móðurætt Elísabetar er úr Hafnarfirði, móðurafi hennar var læknir en langafi hennar var einnig læknir og stofnaði Sankti Jósepsspítala. Móðir Elísabetar er hjúkrunarfræðingur og starfaði lengi við krabbameinshjúkrun. Elísabet ólst upp í Garðabænum, fór í MR og svo hjúkrun en hefur einnig starfað á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Neskaupstað. Í dag býr hún með maka sínum ásamt tveimur köttum í Hafnarfirði. Hún hefur að eigin sögn ótrúlega gaman af sjálfboðaliðastörfum og félagsstörfum og finnst það gefa sér mikið.

„Ég tók þátt í að stofna Hugrúnu sem er geðfræðslufélag þegar ég var í náminu, fór svo í stúdentapólitík í háskólanum og var formaður stúdentaráðs og er núna í dag í Rótinni sem er félag fyrir konur með vímuefnavanda og rekur Konukot meðal annars,“ segir Elísabet og bætir við að það komi sterkt frá uppeldinu að taka þátt í samfélaginu. Móðurafi og langafi Elísabetar höfðu mikil áhrif á hana og hvernig hún hugsar.

„Þeir tveir voru stólpar í Hafnarfirði. Afi minn tekur á móti mér annan í jólum klukkan hálffjögur um nótt og hann deyr sex árum seinna annan í jólum klukkan hálffjögur um nótt. Mér líður alltaf eins og hann styðji við bakið á mér. Ég er ekki að reyna að fylla í hans skó en sögurnar sem ég heyri af honum eru bara góðar. Hann fór í útköll um miðjar nætur og sinnti fátækum án þess að rukka fyrir. Þessar sögur og okkar tenging hefur klárlega mótað mig einhvern veginn.“

Aldrei yfir neitt hafin

Hverjar eru helstu fyrirmyndirnar þínar í hjúkrun?

„Ég er með margar og fjölbreyttar fyrirmyndir þar. Þórdís Katrín var leiðbeinandinn minn í BS-verkefninu og er prófessor í bráðahjúkrun. Hún er ótrúlegur hjúkrunarfræðingur, styðjandi og frábær mentor og kveikti áhuga minn á rannsóknum og þannig störfum líka. Hún hjálpaði mér að sjá gagnsemina í því og hvernig þetta getur styrkt hjúkrunarstörfin og skilað sér út í bætta þjónustu til skjólstæðinga. Helga Sif Friðjónsdóttir, sem stofnaði Frú Ragnheiði, hefur átt óeigingjarnt starf í að vera minn mentor án launa í mörg ár. Hún er alltaf til staðar og gerir þetta fyrir marga veit ég. Einhvern tíma sagði hún mér að hún brennur fyrir því að styrkja hjúkrun sem fagstétt og það að vera mentor og vera fólki innan handar sé hluti af því hjá henni. Hún hefur verið mér bæði fyrirmynd og áhrifvaldur.

Mamma mín, Herdís Jónasdóttir, sem er hjúkrunarfræðingur, hefur unnið í meira en 30 ár sem krabbameinshjúkrunarfræðingur en er núna komin í skólahjúkrun úti á landi. Sterkasti lærdómurinn sem hún hefur kennt mér, þeir eru samt margir, og eitt af því sem ég hef alltaf í huga er að ég er aldrei of góð fyrir neitt þannig að ég veigra mér ekki við að fara í nein störf. Það skiptir ekki máli hvað það er, innan hjúkrunar eru engin störf sem eru mér óviðkomandi. Ég er ekki yfir neitt hafin og það sama gildir utan hjúkrunar, óháð menntun og stöðu og öll reynsla nýtist manni til góðs. Þetta er einfaldur lærdómur sem hún miðlaði til mín en ótrúlega mikilvægur.“

Útivist, ferðalög og kettir

Hvað gerir þú fyrir þig sjálfa, til að endurnæra þig og hvílast?

„Göngutúrar eru minn tími og það góða við þá er að maður getur nánast farið í þá hvar sem er, maður velur bara hversu erfiða maður vill hafa þá. Það hefur alltaf loðað við mig að fara út úr borg, vera ekki með síma á mér og ekki hægt að ná í mig. Ég hef reglulega tekið daga á Snæfellsnesi, annaðhvort í góðra vina hópi eða ein. Ég hef líka verið mjög dugleg að ferðast. Einu sinni kynntist ég skjólstæðingi sem hafði verið að spara allt sitt líf en greinist svo með ólæknandi sjúkdóm 64 ára gamall og hann sagði að maður ætti ekki að bíða, ef maður hefði tækifæri þá ætti maður að stökkva til.

Svo eru það dýrin. Ég hef alltaf átt dýr – þessi skilyrðislausa ást þeirra. Það er það sem ég geri fyrir sjálfa mig að eyða tíma með köttunum mínum,“ segir Elísabet, hlær og bætir við: „Það krúttlegasta sem ég veit er að fylgjast með þeim úti að sleikja blóm og steina. Svo er það auðvitað samvera með mínum nánustu sem skiptir miklu máli.“