Fara á efnissvæði
Umsögn

Umsögn um stefnu í geðheilbrigðismálum til 2030

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar því að ný stefna verði sett fram í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

Efni: Umsögn um tillögu til þingsályktunartillögu um stefnu í geðheilbrigðismálum til 2030, mál nr.58/2022.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga (Fíh) fagnar því að ný stefna verði sett fram í geðheilbrigðismálum til ársins 2030.

Fíh leggur áherslu á að notandinn sé í fyrirrúmi og þarf þjónusta við einstaklinga með geðraskanir og fjölskyldur þeirra að vera samþætt og samfelld auk forvarna sem eru undirstaða góðrar heilbrigðisþjónustu. Er það í samræmi við þriðja heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun um heilsu og vellíðan.

Í skýrslu Fíh og fagdeildar geðhjúkrunarfræðinga, Geðhjúkrun, framlag hjúkrunar-fræðinga til eflingar geðheilbrigðisþjónustu á landinu, frá maí 2017, kemur fram að svo þjónusta við einstaklinga með geðræn vandamál verði einstaklingsmiðuð, heildræn og örugg, þarf að vera til staðar þekking og færni í geðhjúkrun auk viðeigandi mönnunar geðhjúkrunarfræðinga og annars fagfólks. Fíh ítrekar því mögulegt framlag geðhjúkrunarfræðinga og geðhjúkrunar til eflingar geðheilbrigðisþjónustu hér á landi og vísar frekar því til stuðnings í skýrsluna https://prismic-io.s3.amazonaws.com/hjukrun/09778c35-e7e8-454f-b72a-a47b1c45b357_Ge%C3%B0hj%C3%BAkrun+sk%C3%BDrsla+2017.pdf

Auknu fjármagni þarf að veita til Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri til að byggja upp frekari sérfræðimenntun geðhjúkrunarfræðinga og fjölga þarf sérfræðingum í geðhjúkrun. Öryggi notenda og gæði þjónustunnar er undirstaða að góðri heilsu og vellíðan almennings og eykst með aukinni menntun hjúkrunarfræðinga. Ráða þarf fleiri geðhjúkrunarfræðinga og sérfræðinga í geðhjúkrun til starfa í fyrsta og annars stigs heilbrigðisþjónustu. Mun það geta styrkt öflug þverfagleg geðheilsuteymi sem skortur er á í heilsugæslunni, sem og á heilbrigðisstofnunum og öðrum starfsstöðum. Einnig þarf að hafa í huga að hækkandi aldur þjóðarinnar eykur þörfina fyrir sértæka geðheilbrigðisþjónustu fyrir aldraða m.a. í gegnum heimahjúkrun. Efla þarf skólahjúkrun í grunn- og framhaldsskólum þar sem skólahjúkrunarfræðingar vinna að forvörnum og lífstílstengdum heilsueflandi aðgerðum og inngripum á sviði geðheilbrigðis.

Í nýrri stefnu Fíh í hjúkrunar- og heilbrigðismálum til ársins 2030 kemur fram að hjúkrun er ein af meginstoðum heilbrigðisþjónustunnar og bera hjúkrunarfræðingar ábyrgð á hjúkrunarþjónustu í landinu, þ.m.t. geðhjúkrun.

Stefnumið Fíh til 2030 sem tengjast geðhjúkrun eru:

  • Sérfræðingar í geðhjúkrun starfa sjálfstætt sem meðferðaraðilar í hugrænni atferlismeðferð, ráðgjöf og gagnreyndri samtalsmeðferð.
  • Öflugar hjúkrunarmóttökur eru til staðar innan heilbrigðiskerfisins sem sinna 1. og 2. stigs heilbrigðisþjónustu.
  • Sérfræðingar í endurhæfingarhjúkrun eru virkir meðferðaraðilar í endurhæfingu á sérhæfðum endurhæfingarmiðstöðvum, í heilsugæslu, á geðdeildum og göngudeildum.
  • Fjarheilbrigðisþjónusta og rafrænar lausnir eru virkir þættir í forvörnum, meðferð endurhæfingu og eftirfylgd hjúkrunarfræðinga við skjólstæðinga sinna.
  • Í lögum um Sjúkratryggingar er kveðið á um að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegrar hjúkrunarmeðferðar framkvæmda af sérfræðingum í hjúkrun og til nauðsynlegrar geðheilbrigðisþjónustu sem veitt er af sérfræðingum í geðhjúkrun og setningu reglugerðar þar um.
  • Öryggismenning innan heilbrigðiskerfisins sé á þann hátt að heilbrigðisstarfsfólk sé ekki ásakað eða sakfellt fyrir að benda á það sem úrskeiðis fer heldur sé tekið á óvæntum atvikum með þeim hætti að læra af þeim og leitast við að koma í veg fyrir að þau endurtaki sig.

Að lokum vill Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga koma á framfæri vilja sínum til að koma að frekari vinnu við nýja framtíðarsýn í geðheilbrigðismálum til 2030, þegar farið verður í það verkefni að setja markmið og mælanlegar leiðir til að ná þeim.