Fara á efnissvæði
Frétt

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar nýjum lögum um refsiábyrgð

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga fagnar því að Alþingi hefur nú samþykkt frumvarp heilbrigðisráðherra um refsiábyrgð heilbrigðisstofnana og rannsókn alvarlegra atvika.

Lagabreytingar varðandi refsiábyrgð heilbrigðisstarfsfólks hefur verið mikið baráttumál hjúkrunarfræðinga í áraraðir.

Samkvæmt greinargerð með frumvarpinu segir að markmið laganna sé að auka öryggi sjúklinga, efla öryggismenningu innan heilbrigðiskerfisins og fækka alvarlegum atvikum. Einnig að bæta starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks með því að skýra og auka réttaröryggi þeirra, sem er vel.

Með lagasetningunni verður unnt að koma fram refsiábyrgð á hendur heilbrigðisstofnunum fremur en einstaka heilbrigðisstarfsfólki ef margir samverkandi þættir eða röð atvika eru orsök alvarlegs atviks í heilbrigðisþjónustu. Hingað til hafa rannsóknir alvarlegra atvika jafnan beinst að ábyrgð einstakra starfsfólks, eins og hjúkrunarfræðingar þekkja, þrátt fyrir að orsökina megi oftast rekja til kerfislægra þátta.

Lagaákvæði um rannsókn alvarlegra atvika hefur einnig verið gert ítarlegra með lagabreytingunum og hefur aðkoma sjúklinga og/eða nánustu aðstandenda að rannsókn mála verið betur tryggð. Jafnframt er kveðið á um 6 mánaða hámarks málsmeðferðartíma í slíkum málum sem er mikil bót vegna þess hve íþyngjandi mál af þessu tagi eru öllum viðkomandi. Þá er kveðið á um að heilbrigðisstofnunum sé skylt að skipuleggja starfsemi sína þannig að heilbrigðisstarfsfólk geti staðið við lögbundnar skyldur sínar og enn fremur eru skyldur til innra eftirlits heilbrigðisstofnanna áréttaðar.

Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga hefði viljað að frekara tillit væri tekið til umsagna sinna og sjá lagabreytingarnar ganga lengra en fagnar engu að síður þessu stóra og mikilvæga framfaraskrefi í réttaröryggi hjúkrunarfræðinga á Íslandi.